Guðmundur Benediktsson gítarleikari og fyrrverandi kennari með meiru

Guðmund Benediktsson þekkja margir sem gítarleikara úr hljómsveitinni Mánar sem var stofnuð 1965 og var upp á sitt besta um 1970. Óhætt er að segja að vígi Mána hafi verið á Suðurlandi og talað er um að aðrar sveitir hefðu ekki vogað sér að leika á sveitaballi í landsfjórðungnum ef Mánar væru að spila sama kvöld. Meðlimirnir  voru allir frá Selfossi og nú hafa þrír þeirra sest að í Hveragerði, þar á meðal Guðmundur. Hann nefnir marga, þekkta tónlistarmenn sem hafa kosið að setjast að í þessum indæla, litla bæ. Margir jafnaldrar Guðmundar muna eftir því þegar hann tók að sér hlutverk Jesú Krists í söngleiknum Súperstar sem settur var á svið í Iðnó árið 1973. Það hlutverk hans var svo rifjað upp þegar sonur hans, Pétur Örn Guðmundsson, söng sama hlutverk 1995 sem þá var sýnt í Borgarleikhúsinu. Guðmundur hefur spilað og sungið á fjölda platna og má þar nefna plötur Islandicu, Mannakorna, Brimklós og Hálf í hvoru. Lag sem Guðmundur söng og margir kannast við má nefna ,,Það vex eitt blóm fyrir vestan“ eftir Guðmund Árnason.

En af hverju Hveragerði? Guðmundur segir að eitt sinn þegar hann og eiginkona hans, Guðrún Olga Clausen, hafi verið á leið heim úr sumarbústað fyrir allnokkru og hugmyndin ,,að minnka við sig“ hafi verið kviknuð, hafi hann sagt þegar þau óku fram hjá Hveragerði: ,,Hvernig væri nú bara að kíkja á húsnæði hér,“ því við vorum á milli íbúða. ,,Eiginkona mín, Guðrún Olga Clausen, tók bara vel í það. Við ákváðum þá að leigja húsnæði hér til að finna út hvort þetta væri yfir höfuð góð hugmynd og fundum út að svo var. Og viti menn, hér erum við enn. Við höfðum átt ágæta íbúð í fjölbýlishúsi í bænum og börnin voru farin að heiman svo þá var kominn tími til að minnka við okkur húsnæði. Við fundum fyrst lítið raðhús í Hveragerði og svo leið tíminn og barnabörnin fóru að fæðast og nú eru þau orðin sjö talsins, eitt búsett í Noregi og í október fæddist svo barnabarnabarn á afmælisdegi afa síns Péturs, sonar okkar  Guðrúnar. Það var auðvitað sport að fá að gista hjá ömmu og afa í sveitinni og af því vildum hafa pláss fyrir þau og keyptum þá lítið einbýlishús svo vel færi um alla. Svo flutti dóttir okkar líka í bæinn og er búin að eignast þrjú börn og þau eru auðvitað heimagangar hjá okkur. Eitt barnabarn býr í Noregi en hin barnabörnin búa í Reykjavík með sínum foreldrum. Svo stækka þau auðvitað líka en er á meðan er og við njótum þess að fá þau í heimsókn þangað til annað tekur við hjá þeim.“

Guðmundur segist vera að dunda sér við hljóðfærin sín heima við en svo er hann í afleysingavinnu í Hljóðfærahúsin í Reykjavík svo tónlistin er allt um kring. Þar fyrir utan segir Guðmundur að fjöldi tónlistarmanna hafi kosið að setjast að í Hveragerði svo þar myndist oft gott spjall á götuhornum eða kaffihúsum.

Einn af kostunum við að búa í Hveragerði segir Guðmundur að sé auðvitað nálægðin við Reykjavík. ,,Ég er ekki nema svona 30 mínútur á leiðinni að heiman í Hljóðfærahúsið.

Guðmundur er menntaður tónmenntakennari og kenndi í Árbæjarskóla í nokkur ár og bjó þá í Garðabæ. ,,Þá var ég nákvæmlega jafnlengi að aka að heiman í vinnuna eins og ég er núna að aka frá að heiman í Hljóðfærahúsið í Reykjavík.  Munurinn er bara sá að ég slepp við umferðarljós og -teppur yfir heiðina. Og get meira að segja verið að ,,röfla við sjálfan mig og hlæja” eins og stendur í laginu hans Magga Eiríks.

Guðmundur er enn fenginn til að spila á tónleikum þegar svo ber undir og hefur verulega gaman að því. Hann segir að ekkert sé á dagskránni eins og er en framtíðin sé óskrifað blað og ,,hver veit nema enn séu tónleikar í kortunum“ segir Guðmundur og brosir.

Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna, skrifar

Ritstjórn janúar 12, 2022 07:00