Tengdar greinar

Féll fyrir honum í annað sinn

Blaðamaður uppskar hlátur viðmælenda við spurningunni ,,eruð þið með netfang?“ Reyndar segjast þau þekkja fólk á þeirra aldri sem er ekki tölvufært og sjá að það er sannarlega viss fötlun í nútímasamfélagi. Þau séu sem betur fer ágætlega tölvufær.

Kristín og Hrafn eru bæði orðin áttræð og lifa lífinu lifandi og neita að láta ellikerlingu hafa meiri áhrif á líf þeirra en nauðsynlegt er.

Menntaði sig meira og lækkaði í launum

Kristín hætti að vinna um sjötugt, hún byrjaði  um tvítugt að vinna í banka, menntaði sig, tók fyrst stúdentspróf og var í nokkur ár þjónustustjóri. Þegar loka átti útibúinu, þar sem hún hafði starfað árum saman og flytja hana í annað útibú, notaði hún tækifærið og ákvað að láta gamlan draum rætast og fara í kennaranám. Skellti sér í Kennaraháskólann, hún var þá á sextugsaldri og naut þess að læra og starfa sem kennari. Hrafn segir hlæjandi frá því að þegar Kristín hafi verið búin að mennta sig meira og fór að starfa sem kennari hafi hún lækkað í launum. En þá grípur Kristín fram í og segir að þetta sé nú ekki alveg rétt, peningar séu nú ekki alveg allt og hún hafi skemmt sér hvern einasta dag við kennsluna.

Kristín var síðustu árin, áður en hún hætti alveg að vinna, í afleysingum. Hún kenndi við Ölduselsskóla, þá var hringt með stuttum fyrirvara í afleysingar. Síðan leysti hún af í Korpuskóla í einn vetur  í verk- og listgreinum.  „Svona hefur þetta verið. Bara svo að það sé sagt,  þá hefur  mér alltaf þótt gaman að vinna, enda verið á frábærum vinnustöðum.“

Hrafn var framkvæmdastjóri Sambands almennra lífeyrissjóða og síðar Landssamtaka lífeyrissjóða í alls 36 ár eða þar til hann hætti að vinna 2011. Það var ekki inni í myndinni að hann minnkaði við sig vinnu og ynni hlutastarf heldur hætti hann

Magnús Freyr og Sigrún Huld á Bessastöðum þegar hún fékk fálkaorðu fyrir íþróttaafrek sín.

alveg að vinna. ,,Síðasta launaða starfið sem ég sinnti hins vegar var fyrir þremur árum en það var að vera formaður Framkvæmdasjóðs aldraðra,“ segir Hrafn og brosir en hann er einmitt dæmi um að þegar reynsla þeirra eldri er nýtt fyrir lítinn pening og oft í sjálfboðaliðastörfum. ,,Þar með var punkturinn settur við starfsævina,“ segir Hrafn.

Kristín segir að það hafi verið létt fyrir þau bæði að hætta að vinna því þau séu í mörgum hópum með jafnöldrum. Þau hafi því sem betur fer ekki þurft að láta sér leiðast.

Tiltölulega heilsuhaust

Hrafn og Kristin í Hálsakoti í Skorradal þar sem þau eiga sumarhús.

,,Við erum tiltölulega heilsuhraust þótt eitt og annað sé farið að bila svolítið,“ segir Kristín. ,,En okkar kynslóð er mjög heppin, miðað við þá sem á undan eru gengnir, því nú geta læknavísindin gripið inn í og lagað eða bætt á einhvern hátt það sem bilar.“ Hrafn segist til dæmis vera með augnbotnahrörnun en nú sé hægt að hægja á þeirri þróun.

Fluttu í minna

,,Við bjuggum í stóru húsi og þegar komið var að því að selja það vorum við ekki tilbúin að fara í húsnæði fyrir eldri borgara,“ segja þau. ,,Við skiptum frekar í blokk á Garðatorgi þar sem er stutt í alla þjónustu,“ segir Hrafn. ,,Þrátt fyrir sjónskerðingu mína get ég gengið allra minna ferða hér í kring því ég er með svokallaða ratsjón. Ég get ekki lesið venjulegt letur í bók en er með tæki sem stækkar letrið og það hjálpar mér mikið. Svo hlusta ég á hljóðbækur og get þess vegna  ekki kvartað. Síðan er ég svo ljónheppinn að Kristín er með arnarsjón og getur enn keyrt allt sem við þurfum að fara,“ segir Hrafn og hlær. Hann segir frá því að eitt af því sem hái honum sé að eiga erfitt með að þekkja fólk sem hann mæti nema koma nær því og það geti verið óþægilegt fyrir suma. Hann segist því eflaust hafa móðgað marga sem hann hefur ekki heilsað. ,,En það verður bara að hafa það, ég held að flestir fyrirgefi mér það,“ segir hann léttur.

Börnin mesta ríkidæmið

Kristin og Hrafn með fimm af sex barnabörnum.

Þau Kristín og Hrafn eiga tvær dætur og einn son og svo hafa sex barnabörn bæst við og það segja þau vera hið eiginlega ríkidæmi. ,,Sonur okkar, Magnús Freyr, er elstur en hann er viðskiptafræðingur i Seðlabankanum og á tvö börn og fékk eitt í kaupbæti og Tinna er kennari eins og Kristín og á þrjá syni. Svo eigum við Sigrúnu Huld sem er einhverf og þroskaskert og af henni erum við gífurlega stolt,“ segir Kristín. ,,Sigrún Huld er 53 ára gömul, ég talaði mjög opinskátt um fötlun hennar frá fæðingu, en í þá daga gerði fólk það ekki. Við höfum alltaf verið geysilega stolt af þeim öllum og svo fór Sigrún Huld að skara fram úr í íþróttum og ekki minnkaði stoltið við það,“ segja þau og brosa. ,,Við nutum öll athyglinnar sem Sigrún Huld fékk þegar hún fór að skara fram úr, til dæmis þegar hún varð heimsmeistari í sundi fatlaðra,“ segir Hrafn. ,,Ég var mikið í fjölmiðlum á þessum tíma vegna vinnunnar en Sigrún Huld var miklu þekktari en ég,“ segir hann og brosir.

Sigrún Huld á Bessastöðum eftir að hafa verði heiðruð fyrir sundafrek sín.

Ferðast mikið

Tinna með syni sína þrjá Orra, Hrafn og Egil.

Þau Kristín og Hrafn hafa ferðast mikið, og ekið um Evrópu þvers og kruss. ,,Á meðan Norræna gekk til Noregs sigldum við með henni til Bergen, tókum þar bílaleigubíl og ókum um Noreg, en nú fer hún því miður bara beint til Danmerkur. Svo höfum við leyft okkur að fara til heitari landa á veturna eins og Tenerife eða Kanaríeyja en nú þykir okkur hitinn ekki svo góður lengur og þá er Ísland ekki slæmur kostur,“ sega þau.

Stjórnarformaður í félagsskap

Hrafn hefur verið í stjórnum ýmissa félaga í gegnum tíðina og nú er hann fenginn til að sitja í stjórnum í alls konar samtökum sem hann er þátttakandi í. ,,Það var til dæmis verið að boða mig á stjórnarfund á morgun í félagsskap sem ég var lengi formaður í og heitir Karl fyrsti.“ Kristin grípur fram í og segir hlæjandi að það sé nú bara klúbbur gamlingja. ,,Þetta er sérstakt menningarfélag sem hittist einu sinni í mánuði yfir vetrartímann,“ segir Hrafn. ,,Við fáum alltaf skemmtilegan fyrirlesara á hvern fund og nú er verið að skipuleggja vetrarstarfið. Heiti félagsskaparins vísar í Karlamagnús. Þetta er mjög góður félagsskapur og ekki leiðinlegt að fá að heyra sögu þess merka manns en einn félagi tók hana saman og flutti á einum fundinum.“

Stundataflan full

Hrafn og Kristin á skemmtiferðaskipi í Miðjarðarhafi.

Þau Kristín og Hrafn voru að fara yfir dagskrá næstu viku þegar blaðamaður mætti til þeirra og segja frá því að þau séu bókuð nánast hvern dag. Hrafn segir til dæmis frá gufuklúbbnum sem hann er félagi í. ,,Við hittumst vikulega og förum svo og borðum saman á Aski, en mér sýnist fimmtudagurinn vera nokkuð laus. Ætli við Siggi Helga förum þá ekki bara í ræktina þann dag,“ segir Hrafn og þegar dæmið er skoðað lifa þessi áttræðu hjón jafntilbreytingaríku lífi og margir miklu yngri en þau.

Skemmta sér hvern dag 

Skömmu áður en viðtalið var tekið hafði Kristín dottið og meitt sig illa. Hún tognaði og marðist og var mikið kvalin en brotnaði ekki. Hrafn segir

að hún hafi flækst í sér einhvern veginn niðri í bílakjallara og fallið fyrir fótum sér. ,,Hún féll sem sagt fyrir mér í annað sinn,“ segir hann.

Kristín og Hrafn hafa verð gift í 55 ár en þau giftu sig á þrettándanum 1968. Þau rifja upp að þegar þau voru ung hafi gjarnan verið birt mynd í dagblöðunum af hjónum sem höfðu náð því að eiga gullbrúðkaupsafmæli. ,,Nú þykir ekki fréttnæmt lengur að ná fimmtíu árum í hjónabandi,“ segja þessi hressu hjón sem láta aldurinn

ekki hindra sig í að skemmta sér hvern dag.

Kristín og Hrafn og börnin þeirra: Sigrún Huld,Tinna og Magnús Freyr fyrir margt löngu.

Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn september 15, 2023 07:00