Fór á eftirlaun í fyrsta sinn 65 ára út af annríki

Anna Ólafsdóttir Björnsson segist hafa klúðrað rækilega tveimur atriðum í lífi sínu, annað var að reyna að detta út úr menntaskóla, sem mistókst alveg, og hitt var að reyna að hætta við að vera myndlistarmaður. Hún segir hlæjandi frá þessu en staðreyndin er sú að á henni sannast að enginn geti í raun flúið örlög sín. Anna varð sjötug í fyrra og það rann upp fyrir henni nýverið að hún ætti erindi meðal þeirra bestu í myndlistinni eftir að hafa ítrekað reynt að kveða niður þrána að geta helgað sig listinni.

Árið 2015 ákvað Anna að taka boði um vinnu við hugbúnaðargerð í Hamborg og tók ástfóstri við borgina þótt hún sneri aftur heim innan árs. Hér er hún rétt hjá strætóstoppustöðinni sinni, árið 2019.

Anna var í Hagaskóla sem unglingur og þar voru bæði afbragðs myndlistar-, íslensku- og stærðfræðikennarar. Þeim tókst að glæða áhuga nemenda þannig að Anna fór út í lífið með gott veganesti frá þeim. Hún var í bekk í Hagaskóla þar sem Haraldur Steinþórsson var að prufukeyra nýja kennslubók sem hann var að skrifa og Anna elskaði fagið. Myndlistarkennararnir höfðu sömuleiðis mikil áhrif á hana og ef hún hefði fengið áframhaldandi góða stærðfræðikennslu í MR, sem hún fór í næst á eftir Hagaskóla, og valdi máladeild,  hefði hún misst af því að læra bókmennta- og sagnfræði sem urðu síðan valfög hennar í Háskóla Íslands. Anna á ekki langt að sækja áhuga á þjóðfélagsmálum en sem dæmi má nefna að föðurafi hennar var Sveinn Björnsson, fyrsti forseti lýðveldisins. Anna tók þátt í stjórnmálum á árunum 1983 til 1995 en hún var þingkona Reyknesinga fyrir Samtök um kvennalista 1989 til 1995, varaþingkona sömu samtaka 1988 og formaður þingflokksins 1991.

Í öðru sæti á alþjóðlegri myndlistarkeppni

Anna sendi verk eftir sig inn í alþjóðlega vatnslitakeppni í fyrsta sinn fyrir fimm mánuðum síðan. Þessi keppni var haldin í Cordova á Ítalíu í mars og Anna ákvað að fylgja

Á trúlofunardegi Önnu og Ara.

verki sínu eftir. Þátttakendur í keppninni voru 212 frá 42 löndum og í lokin voru verðlaunahafar kallaðir upp. Allt í einu sá Anna mynd sína á tveimur skjáum fyrir ofan sviðið og nafn hennar undir. Framburður þess sem var að kalla listamennina upp á svið var svo bjagaður að Anna skildi ekki að hennar nafn var þar á meðal. ,,Ég átti svo sannarlega ekki von á því að lenda í verðlaunasæti meðal þessara listamanna. Ég hef alltaf vitað að ég er góð og er alls ekki hógvær ólíkt því sem margir halda,“ segir Anna og brosir. ,,En að lenda í öðru sæti meðal þessara listamanna var svolítið yfirþyrmandi fyrir mig því ég vissi sem var að þessi keppni var gríðarlega sterk. Þetta er fyrsta alþjóðlega myndlistarsýningin sem ég hef tekið þátt í svo þetta var mjög þýðingarmikið fyrir mig,“ segir þess kona sem býr líklega yfir slatta af hógværð þótt hún segi annað sjálf. Í öllu falli hefur hún nú fengið alþjóðlega viðurkenningu fyrir að vera meðal þeirra bestu.

Myndlistin hluti af lífinu

Landslag án staðsetningar.

Anna vissi að hana langaði helst að fara í Myndlistar- og handíðaskólann eftir stúdentspróf. Það var erfitt að komast inn í MHÍ á þeim tíma en Anna komst inn en til að nýta stúdentsprófið betur ákvað hún að fara líka í sagnfræði og bókmenntasögu í Háskóla Íslands. ,,Það var óskaplega gaman í myndlistinni en ég var alveg í tvöföldu námi. Það var allt í lagi því ég var ekki með neina ábyrgð á öðrum en sjálfri mér á þessum tíma og ég græddi mikið því námsgreinarnar studdu vel hvor aðra. Ég ákvað síðan markvisst, þegar þarna var komið sögu, að ég ætlaði alls ekki að verða myndlistarmaður. Ég gerði ekkert í listinni í nokkur ár nema eina ofboðslega vonda rauðkrítarmynd af manninum mínum, Ara Sigurðssyni sem ég hafði kynnst í millitíðinni. Ég geymi þessa mynd sjálfri mér til háðungar en hef lært svolítið síðan,“ segir Anna og brosir. Ari er forstjóri Loftorku Reykjavík og saman eiga þau tvö börn, Jóhönnu, tómstunda- og félagsmálafræðing og Ólaf forritara.

Kyrrð.

 Þegar Anna tók upp þráðinn aftur fór hún í Myndlistaskóla Reykjavíkur þar sem voru margir góðir kennarar. Áður en hún vissi af var hún í myndlistarnámi í tuttugu tíma á viku og eftir það hefur hún aldrei misst þráðinn þótt hún hafi tekið sér ýmislegt annað fyrir hendur líka.

Vantaði klukkustundir í sólarhringinn

 Þegar Anna var 65 ára sá hún fram á að geta ekki annað verkefnum sem hún hafði tekið að sér öðruvísi en að taka hlé frá fastri vinnu svo hún ákvað að fara á eftirlaun 2018.

Anna, 18 ára í Englandi, að koma af Pink Floyd-tónleikum í Hyde Park 1970 ásamt vinnufélögum. Gerði misheppnaða tilraun til að hætta í MR það árið.

Hún var þá að koma út tveimur bókum en hún hefur skrifað nokkrar bækur um ævina, mest um sagnfræðileg efni en fyrsta glæpasaga hennar sem heitir Mannavillt kom út í ársbyrjun 2021 og en hún er um ,,Dularfull dauðsföll gamalla vinnufélaga og gáleysislegt tal á bar setja furðulegta atburðarás af stað.“ Ljóst er því að Anna er ekki einhöm þegar kemur að skrifum og er margt til lista lagt.

Anna er sennilega eina manneskjan á Íslandi sem er með meistaragráðu bæði í sagnfræði og tölvunarfræði. Önnur bókin sem hún var að koma út 2018 var Saga tölvuvæðingar á Íslandi og bar nafnið Tölvuvæðing í hálfa öld, og hin var Saga Sandgerðis. Á þeim tíma var móðir Önnu auk þess  orðin heilsutæp svo henni þótti líka gott að geta varið tíma með henni. ,,Ert þú ekki fullung til að verða heiðursfélagi“ spurði móðir hennar (þá 89 ára) þegar Anna var heiðruð 2018 vegna Tölvuvæðing í hálfa öld.

,,Ég notaði tímann sem mér áskotnaðist þegar ég var komin á eftirlaun til ýmissa hluta,“ segir Anna. ,,Ég hafði heitið sjálfri mér því að þegar ég kæmist á eftirlaun myndi ég skrifa glæpasögur og lét verða af því,“ segir Anna og hlær. ,,Síðan gat ég verið meira i myndlistinni líka og svo var mjög góður tími sem ég átti með mömmu og þykir mjög vænt um það. Síðan kom dóttir mín til mín einn daginn fyrir rúmu ári og sagði: ,,Mamma, það er verið að auglýsa eftir þér.“ Og í ljós kom að í auglýsingunni var óskað eftir manneskju sem gat sannarlega átt við mig svo ég sló til og fór aftur að vinna,“ segir Anna brosandi. Hún gerði því hlé á eftirlaunatímabilinu og fór að vinna hjá hugbúnaðarfyrirtækinu Controlant.

Í nám á miðjum aldri

Anna fyrir utan heimili sitt í Kilburn í London 1970.  Gerði misheppnaða tilraun til að hætta í MR það árið.

,,Ég uppgötvaði um miðjan aldur að ef ég ætlaði að gera mig gildandi í tölvuheiminum, sem ég hafði ofboðslegan áhuga á, þá þyrfti ég að ná mér í meistaragráðu í faginu svo ég henti mér bara í djúpu laugina og fór í námið. Mér þótti ég reyndar færast fullmikið í fang en niðurstaðan er nú samt sú að lengsti starfsferillinn minn hefur verið í hugbúnaðargerð og ég hef notið þess ríkulega. Nú er ég í rauninni að gera það sem mig langaði alltaf mest að gera en það er að útbúa upplýsingaefni fyrir tölvunörda. Það er mjög mikil áskorun og þá er gaman að lifa,“ segir Anna og skellihlær en hún starfar nú hjá fyrirtækinu Controlant sem er leiðandi á heimsvísu í starfrænni umbreytingu lyfjabirgðakeðja.

Ekki ætlast til þess að konur lærðu stærðfræði

Anna tók stúdentspróf frá MR og var í máladeild. ,,Í þá daga, eða 1968, var ekki ætlast til þess af ,,konum“ að þær gætu yfirleitt lært

Fjölskyldan saman komin í brúðkaupi sonarins árið 2017: Óalfur, Kay, Anna, Ari, Jóhanna og Hörður.

stærðfræði,“ segir Anna. ,,En annað sem ég lærði á þessum tíma leiddi mig í margar áttir og niðurstaðan er sú að ég hef getað nýtt allt sem ég hef lært,“ segir Anna. Hún tók hlé á námi sínu í MR og fór til London þar sem hún fékk sér vinnu í hálft ár. Hún tók síðan upp þráðinn þar sem frá var horfið og missti ekki af neinu nema kennslu Vigdísar Finnbogadóttur sem bekkjarfélagar hennar nutu, einmitt þessa mánuði sem Anna fór til Englands. ,,Það var eiginlega eina klúðrið við að taka þetta hlé,“ segir Anna og hlær.

Anna segist búa yfir þeim hæfileikum að eiga einstaklega auðvelt með að lifa hvort sem er í nútíð, fortíð og framtíð. ,,Þessi hæfileiki minn hefur komið sér vel eins og til dæmis þegar ég hryggbrotnaði við að detta af hestbaki og hef síðan verið viðkvæm í baki. Þegar ég var hvað verst í bakinu og covid geisaði, fyrir um tveimur árum, þurfti ég að takast á við það að geta kannski ekki ferðast meira. En þá leysti ég það bara með því að fá mér göngubretti og svo benti maðurinn minn mér á að fá mér forrit í tölvuna sem er líkt og golfhermir þar sem maður getur gengið um mismunandi landsvæði. Síðan á ég svo margar góðar minningar sem ég get svo bara rifjað upp,“ segir Anna sem finnur alltaf leið út og upp enda er um hana sagt að hún sé sérlega lausnamiðuð manneskja.

Ferðalög stórt áhugamál

Anna og dóttir hennar Jóhanna á Ed Sheeran tómnleikum á Laugardalsvelli.

Anna segist vera hætt að elta Ara í hestaferðum hans upp um fjöll og firnindi. ,,Þegar ég komst að því að hann hefur ekki eins gaman af ferðalögum erlendis og ég þá ferðast ég bara ein og kann mjög vel við það,“ segir Anna sem leiðist aldrei. ,,Það er alltaf eitthvað bjart fram undan og ég reyni að koma auga á það,“ segir Anna. ,,Ég er mjög hlynnt núvitund en mér þykir mjög gaman að rifja upp það sem ég hef upplifað og síðan er mjög gaman að skipuleggja framtíðina,“ bætir hún brosandi.  ,,Sem betur fer náði ég mér í bakinu og ferðast að vild en fer samt ekki á hestbak. Það er allt í lagi því það er svo margt annað skemmtilegt sem ég get gert,“ segir þessi hressa kona sem er frábær fyrirmynd annarra, bæði kvenna og karla. Þrátt fyrir að vera orðin sjötug hagar hún lífi sínu þannig að hún hefur alltaf eitthvað að hlakka til. Allt sé spurning um rétta hugarfarið ef heilsan heldur. Myndlistin hefur aldrei verið bara áhugamál hjá Önnu heldur sjálfsagður hluti af lífinu. Hún á hins vegar fjölmörg áhugamál fyrir utan ferðalögin og má nefna útsaum, squash og golf sem hún hefur stundað reglulega um ævina. Hér fer kona sem lifir lífinu sannarlega lifandi.

Sólveig Baldursdóttir blaðamaður Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn maí 12, 2023 07:00