Tengdar greinar

Vorverk í verðlaunagarði

Hún ólst upp í fallegum skrúðgarði á Skeggjagötu í Reykjavík. Hann plantaði fyrsta trénu þegar hann var 13 ára. Hún vann við garðyrkju á sumrin þegar hún var í skóla og hann fór að vinna við garðyrkju eftir stúdentspróf.  Saman hafa þau ræktað garðinn sinn í  hálfa öld og þrisvar fengið viðurkenningar fyrir hann. Þetta eru hjónin Sigrún Andrésdóttir tónlistarkennari og Sigurður Þórðarson verkfræðingur. Blaðamaður Lifðu núna fór nýlega í heimsókn til þeirra í húsið þeirra í Garðabæ, til að skoða garðinn og fræðast um sumarstörfin í garðinum.

Voru að koma frá gosstöðvunum

Það fyrsta sem vakti athygli þegar komið var að húsinu, er að búið er að koma upp garðskála, nokkurs konar anddyri áður en gengið er inn í húsið. Þannig er gengið í gegnum litla gróðurvin til að heimsækja þau Sigrúnu og Sigurð sem eru nýkomin úr þyrluflugi yfir gosstöðvarnar og eru yfir sig hrifin.  „Þetta var alveg magnað“, segja þau og Sigrún segir það líka hafa verið upplifun að fljúga í þyrlu en það hafði hún ekki prófað áður. Þau segja hraunflæmið orðið stórt og mikið og víða sást í rauða glóð undir svörtu yfirborðinu.

Bærinn kom og flutti stórt tré í burtu

Græni brúskurinn er Kristþyrnir sem kom í stað stóra trésins

Við erum sest inn í garðskálann í sólinni, það er búið að hreinsa beðin og Sigurður er búinn að slá einu sinni, þrátt fyrir kuldann í maí.  Eitt af stóru verkefnum vorsins var að bæjarstarfsmenn komu og tóku úr garðinum stórt sígrænt tré sem heitir Fjallaþöll. „Það var orðið of stórt, og tók of mikið pláss í garðinum“, segir Sigurður og brosir. Bærinn kom og flutti tréð á opið svæði á mótum Bæjarbrautar og Hrísmóa, en þar er þríhyrnt svæði á hans vegum þar sem stórum trjám hefur verið komið fyrir. „Tréð var flutt þangað og þar er einnig askur úr okkar garði, sem var fluttur þangað fyrir nokkrum árum“, segja þau.  Í beðinu þar sem Fjallaþöllin stóð, er nú kominn brúskur af Kristþyrni sem lítur út fyrir að vera vel viðráðanlegur.

Sammála um verkaskiptingu

Það tilheyrir vorverkunum að klippa og hreinsa garðinn, en þau byrja yfirleitt á því í mars/apríl að klippa og halda því áfram fram í maí. „Það er talað um að það sé ekki gott að klippa seint í maí, en það fer svolítið eftir tegundum og eftir því hversu mjóar eða sverar greinarnar eru“, segir Sigurður. „Hann segir það sína reynslu að það geri ekkert til þó klippt sé aðeins seinna og bætir við. „Klipptu eins og þér þykir fallegt“.  Hann segir að þau eigi enn eftir að snyrta garðinn, en allt sé seint á ferðinni í ár, Sigrún bendi á hvað eigi að klippa. „Já ég er verkstjórinn í þessu“, segir hún hlæjandi. Annars segja þau ótrúlegt hvað þau séu sammála þegar kemur að garðinum. „Við höfum verið í þessu svo lengi og vitum hvernig við viljum hafa garðinn og verkaskiptinguna“, bætir hún við.

Þessir stubbar eru upprennandi risamjaðjurt

Mikið af fjölærum jurtum í garðinum

Þegar búið er að klippa trén, þarf stundum að rétta þau af. Ef trásprotar eru bognir er stundum settur stuðningur við þá til að sveigja þá upp í beina línu.  Ýmsir snemmblómstrandi runnar eru nú þegar í blóma og má þar nefna fyrstu Lyngrósirnar sem skarta sínum stóru blómum.  Sigurður og Sigrún eru með mikið af fjölærum jurtum í garðinum. Bóndarósir eru að hefja blómgun á þessum tíma og einnig fleiri fjölærar jurtir sem fella blöð og blóm á haustin og vaxa svo aftur ár eftir ár. Það þarf einnig að snyrta fjölæringana á vorin.  Þau segjast skrifa hjá sér á haustin hvaða fjölæringa þurfi að minnka að vori og hversu mikið þarf að skera af  rótarhnausunum og benda blaðamanni á Risamjaðjurt í beði, sem er varla meira en 2 cm á hæð, en yfir sumarið vex hún upp og verður 2-3 metra há. Þá er gott að sjá hvort hún er að verða of umfangsmikil og ef svo er, er skorið af rótunum um vorið.

Það er mikið af fjölærum plöntum í garðinum

Sumarblómin út eftir mánaðamótin

Þegar búið er að hreinsa, skera og klippa er Blákorn áburður borinn á gras og beð. „Hérna áður fyrr sáði ég fyrir sumarblómum í febrúar eða mars, en við erum með svo margt fjölært sem puntar garðinn ár eftir ár, þannig að við erum með tiltölulega lítið af sumarblómum.  Kaupum samt stundum eitthvað sem grípur augað“, segir Sigrún.  Þau segja að almennt séu sumarblóm ekki sett út fyrr en eftir mánaðamótin maí júní og markmiðið sé að garðurinn sé tilbúinn fyrir 17. júní.

Klippa blómin burt eftir að plantan hefur blómgast

Fleiri verk þarf að vinna í garðinum svo sem eins og að hreinsa stéttirnar og hreinsa gras sem vex á milli þeirra, en það gerir Sigurður með háþrýstitæki. Þegar líður á sumarið tekur eitt við af öðru í garðinum.  Jurtirnar blómstra á mismunandi tímum og þegar ein er búin að blómstra hreinsa þau blómin burt. Þau segjast ekki safna fræjum og séu blómin ekki klippt burt eyðir plantan orku í að mynda fræ. En ef þau eru klippt blómgast jurtin enn frekar.  Annað verk sem þarf stöðugt að huga að í garðinum, er að reyta arfa. Þau segjast ganga hringinn í garðinum til að fylgjast með og hreinsi það sem þarf.

Sigrún með möppuna um garðinn

Nákvæmt bókhald yfir garðinn

Sigrún og Sigurður fluttu í húsið á Markarflöt árið 1969, tveimur árum síðar var komið gras í garðinn. Nú eru fimmtíu ár síðan og garðurinn hefur vaxið og breyst á hverju ári. Árið 1983 byrjuðu þau svo ræktun í garðskálanum. Þar vex vínviður í loftinu sem skilar vínberjum í ágúst.  Sigrún dregur fram úr pússi sínu möppu, þar sem hún heldur utan um allt sem hefur verið gert í garðinum og er nákvæmlega skráð. Þar kemur fram hvaðan plönturnar koma, hvaða ár og hvar þær eru í garðinum. Þar er líka fært til bókar hvaða plöntur hafa drepist. Það er gríðarleg vinna sem þau hafa lagt í garðinn. En hafa þau eitthvað komist í sumarfrí?

Þurfa ekki að leita til útlanda

Þau segjast aðallega hafa tekið sér frí seinni partinn í ágúst og byrjun september. Sigrún segir að það sé allt í lagi með garðinn þó þau fari í burtu, en gróðurinn í garðskálunum þurfi vökvun.  „En við förum ekki í frí meðan besta veðrið er á Íslandi. Við höfum góða aðstöðu í garðinum og þurfum ekki a leita til útlanda“, segir hún og bætir við „Þetta er ótrúleg vinna og alltaf skemmtileg“. Sigurður segir að þetta sé eins og hvert annað hobbý. „Menn eyða miklum tíma í sín áhugamál og við gerum þetta“, segir hann.  Eitt sinn fengu þau bandarískt sjónvarpslið í heimsókn og voru í garðyrkjuþætti sem hét  Victory Gardens. Sjónvarpsfólkið hafði valið garðana sem voru skoðaðir hér, gaumgæfilega. Í lok þáttarins sagði stjórnandinn  Everybody thought we were crazy going to Iceland looking for flowers, but who is crazy now?

Sigurður við moltukassana í garðinum

Erum ekkert að fara á næstunni

Sigurður og Sigrún eiga þrjú uppkomin börn og þegar þau voru lítil héldu þau garðyrkjunni ekki að þeim, létu þau ráða hvort þau vildu vera með í garðinum eða ekki. Niðurstaðan er sú að þau hafa öll áhuga á garðyrkju og makar þeirra líka.  Þau hjónin eru með gróðurhús í garðinum til að vinna með plönturnar og stunda einnig moltugerð. Þau sjá ekki fyrir sér að flytja úr húsinu þó aldurinn færist yfir. „Við verðum hér á meðan við getum sinnt garðinum, segir Sigurður. „Íbúðin er ekki svo stór, 140 fermetrar og bílskúr. Það hentar vel að vera á einni hæð. Margir vilja selja og losna við garðinn, en hjá okkur er því þveröfugt farið“  Og Sigrún bætir við. „ Við erum ekkert að fara á næstunni, enda veitir garðyrkjan okkur ómælda ánægju“.

Blómin í anddyrinu á Markarflötinni eru mjög falleg

Ritstjórn maí 28, 2021 07:02