Tengdar greinar

Frönsk tómatbaka, ekki pítsa

Frakkar eru mjög flinkir að búa til alls konar bökur. Flestir sem sjá um matseld heimilanna kunna uppskrift að einni slíkri og hér er uppskrift að tómatböku sem er ótrúlega ljúffeng og allir geta gert.

Frönsk tómatbaka

225 g hveiti
90 g smjör úr ísskáp, skorið í bita
1 egg

Setjið hveiti og smjör í matvinnsluvél og látið hana ganga í smá stund. Bætið egginu við og látið vélina ganga þar til hægt er að hnoða deigið saman. Bætið svolitlu hveiti við ef deigið er of lint og köldu vatni ef það er of stíft. Vefjið deigið inn í plast og kælið í 30 mín. Hitið ofninn í 200°C.

8-10 fremur litlir þroskaðir tómatar
3 msk. sýrður rjómi
2 tsk. dijon sinnep
salt og nýmalaður pipar
nokkrar greinar af fersku timíani
75 g fetaostur

Skerið tómatana í þunnar sneiðar, setjið þær í sigti og stráið svolitlu salti yfir þær og látið bíða sí smá stund, þannig að hluti safans renni af tómatsneiðunum. Fletjið deigið út á bökunarpappír. Snyrtið brúnirnar og brettið svolítið upp á þær. Hrærið saman sýrðan rjóma og sinnep og smyrjið á botninn. Raðið tómatsneiðunum á botninn, stráið pipar og salti yfir og svo timjani. Bakið í 25-30 mínútur eða þar til tómatarnir hafa tekið lit. Myljið fetaosti yfir þegar 15 mín. eru eftir af bökunartímanum.

Ritstjórn júlí 30, 2021 07:30