Tengdar greinar

Fyrirbyggjandi aðgerðir vegna tannheilsu spara háar fjárhæðir

Greiðslur frá Sjúkratryggingum Íslands til öryrkja og lífeyrisþega hafa staðið í stað í þrettán ár þar sem gjaldskráin sem lögð er til grundvallar hefur ekki verið uppfærð frá árinu 2004.  Á sama tíma hefur verðlag hækkað um 90% og nú er svo komið að elli- og örorkulífeyrisþegar hafa margir neitað sér um tannlæknaþjónustu um árabil vegna kostnaðar. Tannheilsa barna hefur aftur á móti aldrei verið betri en árið 2013 gerðu Sjúkratryggingar Íslands og Tannlæknafélagið með sér samning sem tryggði endurgeiðslu til síðasta aldurshópsins frá 1. janúar 2018. Ljóst er að slíkir samningar skila sér margfalt í betri líðan og heilsu til ungra sem aldinna.

Endurgreiðslur ekki skilað sér nema að litlum hluta

Reglugerð um þátttöku sjúkratrygginga í kostnaði við tannlækningar átti að tryggja örorkulífeyrisþegum og öldruðum endurgreiðslu kostnaðar vegna tannlæknaþjónustu að ýmist 100%, 75% eða 50% hlutfalli af gjaldskrá SÍ en þar sem reglugerðin var ófjármögnuð hafa þessar endurgreiðslur ekki skilað sér nema að litlum hluta. Raungreiðslur árið 2015 voru að meðaltali 43%, 28% og 19%.

Í ljós kemur í nýrri rannsókn Rúnars Vilhjálmssonar prófessors að 35,7% fólks með líkamlega fötlun hefur hætt við heimsókn til tannlæknis sökum kostnaðar.

Slæm tannheilsa hefur veruleg áhrif á almenna heilsu

Ljóst er að slæm tannheilsa hefur veruleg áhrif á heilsufar fólks þegar aldurinn færist yfir. Lífeyrisþegar eru því áhættuhópur sökum minni tannhirðu og -viðgerða. Það ætti að vera deginum ljósara að fyrirbyggjandi aðgerðir varðandi tannheilsu þessa aldurshóps myndi skila sér margfalt á stuttum tíma.

Ritstjórn október 25, 2017 16:00