Gagnrýna aðgerðarleysi stjórnvalda

Á aðalfundi Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni í síðustu viku, var skorað á stjórnvöld að taka strax afgerandi skref til að leiðrétta kjör eftirlaunafólks. Þess er krafist í ályktun sem samþykkt var á fundinum, að lífeyrir verði hækkaður að minnsta kosti til jafns við lágmarkslaun og sérstaklega verði litið til þess hóps aldraðra sem er vest settur. Jafnframt verði að hefja vinnu við uppstokkun á regluverki lífeyristrygginga sem komið sé í ógöngur vegna óhóflegra tekjutenginga og hárra jaðarskatta. Í álytkuninni segir orðrétt:

Aðalfundur FEB 2020 lýsir yfir miklum vonbrigðum með það hversu lítið hefur gengið að leiðrétta launakjör eftirlaunafólks, þrátt fyrir hástemmdar yfirlýsingar stjórnmálamanna fyrir síðustu alþingiskosningar. Lífeyrir frá almannatryggingum hefur ekki fylgt launaþróun síðustu ára eins og lög um almannatryggingar kveða á um. Á tímabilinu 2010 – 2019 hækkuðu lágmarkslaun um 92%, en á sama tíma hækkaði grunnupphæð ellilífeyris frá TR einungis um 61,6%. Skerðing á lífeyri frá almannatryggingum vegna annarra tekna er meiri en þekkist í þeim löndum sem við berum okkur saman við.

Tekjur eftirlaunafólks eru að stærstum hluta frá lífeyrissjóðum og almannatryggingum og því skiptir samspil þessara tveggja kerfa öllu fyrir kjör þeirra. En hin mikla skerðing almannatrygginga, sem byrjar strax og greiðslur frá lífeyrissjóðnum ná 25 þúsund krónum á mánuði, setur meirihluta eftirlaunafólks í þá stöðu að ávextirnir af áratuga lífeyrissparnaði hrökkva skammt til framfærslu. Í ofanálag vinnur þetta kerfi markvisst gegn því að fólkið geti bætt kjör sín af eigin rammleik með öflun viðbótartekna.

Þegar skerðing almannatrygginga leggst við tekjuskattinn og útsvarið verður niðurstaðan grimmir jaðarskattar, sem leggjast á eftirlaunafólk og öryrkja og valda því að þau öldruðu halda í besta falli eftir 27 til 35 krónum af hverjum 100 krónum sem þau hafa í aðrar tekjur. Engum öðrum þjóðfélagshópum er ætlað að búa við slíka skattheimtu, enda er hún óboðleg og óásættanleg.

 

Ritstjórn júní 24, 2020 14:07