Gefið hvort öðru var yfirskrift á smásagnasafni eftir Svövu Jakobsdóttur en þessi setning á einnig vel við um öll samskipti og tengsl mann á milli. Með því að gefa af sér geta menn vænst þess að fá eitthvað til baka og án gagnkvæmrar virðingar verða samskipti aldrei góð. Nútímamenn hafa tilhneigingu til að líta á ástina sem óviðráðanlegt afl. Að sá sem hrifinn er með sterkum straumi slíkra tilfinninga eigi að láta berast með þeim og þannig verður ástin oft afsökun fyrir óæskilegri hegðun. En ástin hefur ekki svör við öllu og ást getur kulnað og breyst. Stundum gleymist þessi staðreynd í dagsins önn og afleiðingarnar geta orðið sársaukafull sambandsslit.
Hjónabandsráðgjafar og aðrir sérfræðingar hafa margoft bent á að hjónaband sé vinna. Að til þess að hlutirnir gangi verði fólk að hafa fyrir því að hlusta eftir þörfum makans og sinna þeim. Traust, vinátta og umburðarlyndi hjálpa og einnig er það aðalsmerki góðra sambanda að þar fær einstaklingurinn að njóta sín. Öll þráum við að vera metin fyrir það sem við erum og ekkert rífur fólk jafnmikið niður og látlaus gagnrýni.
En jafnvel allt þetta getur reynst of lítið ef það gleymist að rómantík, kynferðisleg spenna og skemmtun er hluti af uppskriftinni að góðu hjónabandi. Margir gleyma sér í hversdagsamstri og einmitt þessir hlutir sem við þó flest metum mest eru látnir sitja á hakanum. Líklega telja flestir að hættan sé mest meðan börnin eru lítil og lífsbaráttan hörð en það hefur sýnt sig að hjón á miðjum aldri þurfa ekki síður og jafnvel enn frekar að gæta að sér.
Erfiðara að skilja eftir langt samband
Skilnaðir eru tíðastir eftir fimm til sjö ára hjónaband og síðan kemur önnur bylgja eftir tuttugu til tuttugu og fimm ár. Börnin eru farin að heiman og hjónin vakna upp við vondan draum og gera sér grein fyrir að þau eiga fátt sameiginlegt og að límið sem hélt þeim saman voru fyrst og fremst krakkarnir. Sumir ná að bregðast við þessu og finna sér áhugamál sem báðir aðilar geta stundað saman og þá hefst jafnvel eitt besta tímabil sambandsins. Aðrir skilja og margt bendir til að þeir sem skilja á miðjum aldri og eldri eigi erfiðara með að vinna úr sorginni en hinir yngri.
Ungt fólk er enn að vinna sig upp metorðastigann, þarf að annast börn sín og vill jafnframt sinna félagslífinu vel. Félagslíf þeirra sem náð hafa miðjum aldri einkennist af öðrum hlutum. Vinahópurinn er fastmótaður og ef enginn innan hans er í sömu sporum og sá einhleypi getur hann einangrast. Unga fólkið er opnara fyrir nýjum vináttusamböndum og á oft marga kunningja. Þess vegna er það sjaldnast í vandræðum með að finna einhvern til að ferðast með, fara með út að borða, í leikhús eða helgarferðir. Vissulega er þetta einstaklingsbundið en kannanir sýna ákveðna tilhneigingu í þessa átt. Sá sem skilur við maka sinn á miðjum aldri endar því oft einn fyrir framan sjónvarpið, kvöld eftir kvöld. Sá sem skilur eftir langt hjónaband hefur ekki lifað sem einstaklingur í mörg ár og það tekur tíma að tileinka sér nýjan lífsstíl. Það er sérstaklega erfitt ef fólk er ekki sátt við skilnaðinn.
Vilja gamla makann aftur
Að koma aftur út á markaðinn, eins og það er kallað, er flókið. Sumir segjast ekki lengur þekkja reglurnar svo langt sé um liðið síðan þeir síðast voru í makaleit og samkvæmt rannsóknum segir mikill meirihluti þeirra sem skilja eftir langt hjónaband að þeir sakni ávallt fyrri maka og óski þess helst af öllu að þeir geti tekið sambandið upp aftur að því tilskyldu að tekist væri á við vandamálin og þau leyst.Góð sambönd snúast fyrst og fremst um samskipti, að fólk tjái hvað það er sem það vill á skýran hátt og sé tilbúið að leggja ýmislegt á sig til að gleðja hinn aðilann. Þeir sem bera gæfu til að gera sér grein fyrir þessu og vinna jafnt og þétt í að skapa gott andrúmsloft í sínu hjónabandi uppskera venjulega eins og þeir sá til.
Nokkrar leiðir til að tryggja góð samskipti:
- Gerðu ekki ráð fyrir að maki þinn sé ánægður þótt hann láti enga óánægju í ljós. Spurðu hann af og til hvort hann sé hamingjusamur og hvernig honum líði í sambandinu og segðu honum hvernig þér líður og hvað þér finnst.
- Ræddu af og til um sameiginlega drauma og markmið. Veltu fyrir þér hversu vel ykkur hafi tekist til og spurðu hinn aðilann hvort hann sé sáttur við það sem áunnist hafi.
- Sjáðu til þess, þótt mikið sé að gera, að þið hafið alltaf a.m.k. tuttugu mínútur á dag til að spjalla eða hafa það notalegt saman.
- Ræddu við makann um viðkvæm málefni, ekki slá því á frest. Ef eitthvert umræðuefni er eldfimt á heimilinu borgar sig ekki að forðast að ræða það. Reyndu heldur að finna leið til að koma af stað umræðum án þess að það endi með reiði eða sárindum.
- Gleymdu ekki að hrósa. Láttu ævinlega í ljós ánægju þína með það sem vel er gert og gerðu það án þess að minnast á að eitthvað mætti betur fara. Hættu að ásaka. Biddu heldur um það sem þú vilt á skýran og skorinorðan hátt. Einbeittu þér að því einn dag að taka eftir öllu því sem hann gerir rétt í stað þess að einblína á mistökin sem hann gerir.
- Hikaðu aldrei við að biðjast afsökunar. Ef þú finnur að þú hefur sært maka þinn biðstu þá afsökunar þegar í stað því jafnvel þótt gagnrýni þín hafi átt rétt á sér á enginn rétt á að særa tilfinningar annarra.