Leiðinlega amman reynir að bæta sig

Þegar ég var unglingur voru afi og amma á lífi. Ég man að ég hugsaði oft að mig langaði ekki að verða gömul og leiðinleg eins og þau, segir sextug amma í grein á vefnum, startsat60. Amman heldur áfram og segir að þegar hún kom í heimsókn hafi amma hennar iðulega setið í stól niðursokkin í að prjóna á meðan hafi afi blundað í öðrum stól. Þau hafi ekki nennt að sinna henni eða segja henni nokkurn skapaðan hlut. En tíminn leið og allt í einu var unglingurinn orðinn amma sjálf. Á þeim tíma hafi hún sjálf talið að hún væri bæði hress og skemmtileg. Hún segist því hafa orðið miður sín þegar 13 ára sonarsonur hennar sagði við hana að hún væri leiðinleg. “Ég hafði ekki hugmynd um af hverju honum fannst þetta ,” segir amman og bætir við að hún líkist svo sannarlega ekki afa sínum og ömmu. Hún sé ekki jafn leiðinleg og þau voru.

 Amman segir að það sé martröð að komast að því að barnabörnunum finnist maður ekki spennandi eða skemmtilegur félagsskapur. Hún segist því hafa farið í sjálfsskoðun og ákveðið að leita allra leiða til að breyta viðhorfi drengsins í sinn garð. Þegar hún fór að skoða samskipti þeirra hafi hún komist að þeirri niðurstöðu að hún hafi verið full neikvæð og stöðugt verið að krefjast þess að hann væri að gera hluti sem hann hafði takmarkaða ánægju af þegar hann dvaldi hjá henni. Næst þegar drengurinn kom í heimsókn spurði hún hann hvað hann langaði til að gera. Strákinn langaði til að leika sér í símanum sínum. „Undir venjulegum kringumstæðum hefði ég neitað honum um að fá að leika sér og sagt honum að við þyrftum að kaupa inn eða hann ætti að hjálpa mér við að þrífa eða elda. Við náðum samkomulagi um að hann fengi að leika sér í símanum en svo myndi hann hjálpa mér við heimilisstörfin. Þetta virkaði í örfá skipti en svo fór allt í sama farið aftur,“ segir amman. 

Hún greip til þess ráðs að spyrja aðra hvað þeir væru að gera með sínum barnabörnum. Ein amman sagði að hún hlustaði á tónlist með dótturdóttur sinni og fengi hana til að kenna sér á Facebook og Instagram. Ég reyndi þetta en drengurinn hafði enga þolinmæði til að kenna mér. Okkur leiddist báðum. Annað ráð sem ég fékk, segir amman var að fara með honum á fótboltaleik. Þegar ég stakk upp á því fölnaði hann í framan og sagðist ekki hafa neinn áhuga á fótbolta lengur. Hann skammaðist sín greinilega fyrir að vera með ömmu sína í eftirdragi.

Amman gafst ekki upp og eitt af því sem henni datt í hug var að sýna honum gamlar myndir af sér þegar hún var sjálf á hans aldri. Það fannst stráksa skemmtilegt og vildi ólmur sjá fleiri myndir og heyra frásagnir af því þegar amma var ung.

“Ég veit að þetta leysir ekki allan okkar samskiptavanda. Við erum þó búin að finna eitthvað sem okkur finnst báðum gaman að. Ég vona að ég verð betri og skemmtilegri amma með tímanum. Við erum bæði að læra inn á hvort annað upp á nýtt,” segir amman.

Ritstjórn september 3, 2019 06:23