Tengdar greinar

Gestur Ólafsson arkitekt er hvergi nærri hættur

Gestur Ólafsson arkitekt er hugmyndaríkur hugsjónamaður með miklar skoðanir og hefur ekki legið á þeim. Það er einmitt þess vegna sem hann er umdeildur og margir hafa lýst yfir andstæðum skoðunum á sumum hugmynda hans. En Gestur segir núna: ,,Íslendingar halda að þeir þurfi ekki þekkingu í skipulagsfræðum, eins og hugmyndir um Borgarlínu og staðarval Landspítala háskólasjúkrahúss gefa til kynna, – svo það er best að snúa sé að einhverju öðru.”

Gestur er hvergi nærri hættur þótt árunum hafi fjölgað heldur hefur ein þessara hugmynda náð eyrum margra. Hún byggist á þeirri vissu að Íslendingar muni í ríkum mæli leggja áherslu á heilsuna og muni vilja verja tíma sínum og peningum í að stuðla að þeim þáttum. En þegar upp var staðið urðu aðstæður í heiminum þannig að Gestur og félagar hans, eins og svo margir aðrir, sátu eftir með sárt ennið og hugmynd sem dó. En það er nú einmitt eðli góðra hugmynda að vaxa og deyja en rísa upp aftur ef þær eru nógu góðar. Og þannig var um eina af þessum hugmyndum. Hún er ekki dáin þrátt fyrir allt.

Gestur er 79 ára gamall og hefur hugsað vel um heilsu sína  alla tíð og er heilsuhraustur þótt árin séu orðin mörg. Hann lét til dæmis verða af því að ganga á Kilimanjaro, hæsta fjall Afríku, fyrir fjórum árum með dóttur sinni og tveimur öðrum. Sherparnir sem fylgdu þeim höfðu efasemdir um að þessi „gamli” maður kæmist alla leið en þær áhyggjur voru óþarfar. Þessi sami hópur er með á prjónunum að ganga næst upp til Machu Picchu í Perú, þ.e. þegar covid faraldrinum léttir.

Er heilsuþorp fyrir Íslendinga raunhæf hugmynd?

Frá skoðunarferð þegar Spánarhumyndin var að fæðast.

Ofangreind hugmynd hefur nefnilega með heilsu og hamingju Íslendinga, sem komnir eru á miðjan aldur og yfir, að gera. Hann og nokkrir aðrir kynntu sér hvernig aðrar Evrópuþjóðir hafa skipulagt sín mál varðandi þennan hóp og komust að því að öll Norðurlöndin, Þýskaland, Frakkland og England eru fyrir löngu búin að koma sér upp aðstöðu erlendis, m.a. við Miðjarðarhafið fyrir svokölluð heilsuþorp. En hvað um heilsuþorp á Íslandi? „Í ljós kom að strax eftir seinni heimsstyrjöld fóru Norðmenn að þróa land á Costa blanca á Spáni og deila því niður í lóðir fyrir Norðmenn sem kusu að verja hluta úr ári þar suður frá,” segir Gestur. „Þeir kölluðu þetta Solgarden og þróuðu þar frístunda- og endurhæfingamiðstöð fyrir um hálfri öld,” segir Gestur. „Þetta var Heilsuhótel og hefur bara eflst síðan. Austurhluti Majorka er líka meira og minna þýskur o.s.frv. Við félagarnir fórum af stað og stofnuðum fyrirtæki um þessa heilsuþorpshugmynd. Við vorum að kaupa land á Spáni og byrjuðum að hanna húsin, en þá kom hrunið og allt fór á versta veg. Þetta varð samt rosalega lærdómsríkt ferli,” segir Gestur en þau, sem stóðu að þessu félagi saman, sátu auðvitað uppi með gífurlega reynslu. Hugsunin með heilsuþorpi á Spáni var að fólk hefði stuðning af löndum sínum og gæti fengið alla heilbrigðisþjónustu og heilsutékk þegar það kæmi á staðinn. Fólk átti að geta komið þarna inn og látið meta heilsufar sitt nákvæmlega og fengið ráðleggingar.” Gestur og félagar hans voru búnir að búa til nákvæma viðskiptaáætlun, fóru í viðtöl í sjónvarpið á Spáni með hugmyndina og vildu gera það sama fyrir Spánverja á Íslandi. En svo hrundi allt. En þá datt þeim í hug að máta þessa hugmynd að heilsuþorpi við Ísland.

Heilsuþorp á Íslandi

Hugmyndin var fullmótuð og einfalt að færa hana heim til Íslands.

Gestur segir að á hverju ári birtist listi í tímaritinu „International living” yfir bestu staði í heiminum til að verja eftirlaunaaldrinum á og þar sé Ísland ekki einu sinni á blaði. „Eins og við vitum hefur Ísland upp á gífurlega margt að bjóða en það er talið allt of dýrt miðað við aðra staði,” segir Gestur. „Til eru alþjóðleg samtök Heilsuþorpa og auðvitað fórum við að athuga möguleikana á heilsuþorpi hér á landi þegar hugmyndin á Spáni var úr sögunni. Við gerðum svokallaða staðarvalsgreiningu og niðurstaðan var sú eftir mikla skoðun að Flúðir væru ákjósanlegasti staðurinn. Sveitastjórnin þar sá strax möguleikana og var tilbúin að leggja til landið undir slíkt þorp. Svo fórum við til lánastofnana og kynntum þeim hugmyndina og var sagt að skilyrði fyrir því að við gætum fengi lán væri að við gætum sýnt fram á þriggja ára jákvæða rekstrarreynslu. Þar með féll sú hugmynd líka því það sagði sig sjálft að það var ekki hægt. Þá var farið í að athuga með erlenda fjárfesta. Kínverskir fjárfestar kveiktu strax á perunni og voru tilbúnir til að koma með 200 manna kínverskt gengi sem myndu koma og byggja þetta í hvelli með kínversku vinnuafli, úr kínversku stáli o.s.frv. Við sögðum nei takk, því við vorum ekki tilbúnir að  afhenda Kínerjum þessa góðu hugmynd,” segir Gestur og brosir.

Fjölgun miðaldra Íslendinga gífurleg á skömmum tíma

Árið 2006 voru 65 ára og eldri á Íslandi 34 þúsund og 25 árum síðar, eða 2031, segja áætlanir að þessi hópur verði helmingi stærri eða um 65 þúsund. Þar af verður augljóslega stór hópur sem mun aðhyllast lífsstíl þar sem heilsa verður í fyrirrúmi því betri heilsu fylgir meiri hamingja,” fullyrðir Gestur og ætli við getum ekki öll verið sammála því.

Þörungavinnslan

Sagt er að þegar einar dyr lokist opnist aðrar. Það sé bara okkar að veita því athygli og það gerðu Gestur og félagar hans, sem líka eru á eftirlaunaaldri. Þau stofnuðu fyrirtækið Hyndla ehf. En tilgangur félagsins er að stuðla að rannsóknum, þróun og ræktun þörunga á Ísland. Að framleiða og selja lífvik og ólífvik efni unnin úr þörungum ásamt inn – og útflutningi í tenglsum við starfsemi félagsins.

HYNDLA

Nafnið HYNDLA kemur úr Eddukvæðinu Hyndluljóð. Hyndla var jötunmey. Hún bjó í helli og ferðaðist um á úlfi. Um jötunmeyjar segir m.a. ,,það var kraftur og hreyfing sem fylgdi þessum konum.“ ,,Þær bjuggu yfir kunnáttu og áttu gripi góða, sem goðin vildu eignast.“

Þörungar

Gestur segir að þörungar séu um margt stórmerkilegar lífverur og þeir séu eitt af elstu lífsformum jarðar.

,,Þeir “fundu upp” hina einstöku aðferð, sem ljóstillífun er kölluð fyrir um það bil 3 milljörðum ára. Ekki þarf að fjölyrða um hlutverk þeirra í súrefnisframleiðslu fyrir heiminn – án þeirra er ekkert líf. Ljóstillífun er það lífefnafræðilega ferli sem plöntur, þörungar, sumar bakteríur og einstaka frumdýr nota til að vinna orku úr sólarljósi til að framleiða næringu.

Nýting þangs

Nýting þara og þangs til manneldis og lækninga segir Gestur að sé langt í frá ný af nálinni. ,,Asíubúar hafa nýtt sér þessa afurð um ár þúsundir. Eins var nýting þangs og þara þekkt við strendur Evrópu fyrr á öldum. Á Íslandi voru söl verðmæt afurð og ýmsar aðrar þangtegundir og fjörunytjar. Mikil vakning hefur orðið í vísindasamfélaginu, sérstaklega á vesturlöndum, síðustu áratugi um frekri rannsóknir á þörungum og nýtingu þeirra, ekki síst á smáþörungum. Nýting þörunga getur verið af margvíslegum toga svo sem, til manneldis, fæðubóta, lyfjagerðar og lækninga, til efnaiðnaðar alls konar, eldsneytis- olíuframleiðslu og til náttúrulegra efnaíblöndunar við fóðurgerð svo eitthvað sé nefnt. Nýting þörunga getur vegið þungt til framtíðar í baráttunni gagnvart matvælaskorti og þeirri umhverfisvá af mannavöldum sem nú vofir yfir.

Stjórn HYNDLU ehf skipa Guðrún Hallgrímsdóttir matvælaverkfræðingur, Gestur Ólafsson, skipulagsfræðingur og arkitekt stjórnarformaður og Bjarni Grétar Bjarnason, framkvæmdastjóri Hyndlu ehf, meðstjórnandi.

Gestur segir að þau hjá Hyndlu telji að að Ísland og Íslendingar geti markað sér sérstöðu um margt er varðar nýtingu þörunga. ,,Þar kemur fyrst til hreinleiki lands og sjávar. Endurnýtanlegir orkugjafar. Vel menntað fólk í raun- og lífvísindum. Stuttar boðleiðir og aukin og almenn meðvitund um sjálfbærni og hollustuhætti. Góð staðsetning Íslands fyrir markaði í Evrópu og Ameríku og þar með minna vistspor sem afurðir framleiddar á Íslandi skilja eftir,” segir Gestur sem er hvergi nærri hættur þótt áttræðisaldrinum sé náð.

Sólveig Baldursdóttir blaðamaður Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn maí 6, 2021 09:51