Tengdar greinar

Háskólarektor gerist strandveiðimaður

Útsýnið úr borðstofunni.

„Það þarf ekkert að vera að velta sér upp úr því að maður sé að eldast, en maður deyr að lokum og spurningin er hvernig ætlar maður að hafa það, þar til það gerist,“ segir Stefán Baldvin Sigurðsson fyrrverandi háskólarektor Háskólans á Akureyri sem er kominn á eftirlaun. Hann horfir út um gluggann á heimili sínu í Vaðlaheiði gegnt Akureyri. Útsýnið er hreint stórkostlegt „A million dollar view“. Blaðamaður Lifðu núna settist niður með Stefáni og eiginkonu hans Önnu Sigurbjörgu Jóhannesdóttur fyrir skömmu til að ræða um lífið á eftirlaunum og hvernig það er að eldast. Þau langar að prófa að búa um tíma í útlöndum, „þegar ég hætti að vinna,“ segir Stefán og Anna bætir við: „Já, þegar þú hættir í alvöru?“ Þau ætla að skoða möguleikana í Portúgal.

Áttu sér draum um að flytja norður

Stefán er fæddur á Akureyri en Anna á Dalvík. Þau hafa verið víða. Bjuggu meðal annars í 9 ár í Svíþjóð, en fluttu þaðan í Kópavog. Stefán er doktor í lífeðlisfræði frá Háskólanum í Lundi. Honum bauðst starf þar, en þau sáu fram á að ef þau yrðu áfram úti, myndu þau aldrei fara heim. „Svo við fórum heim í baslið, maður er svo bilaður,“ segir Anna og hlær. Stefán fór að kenna, fyrst við hjúkrunardeildina í Háskóla Íslands og síðar við læknadeildina, en hann var forseti deildarinnar í 6 ár. Anna sem er sjúkraliði vann hjá fyrirtækinu ISS og þegar hún fékk boð um að verða svæðisstjóri fyrirtækisins á Norðurlandi árið 2008 þáði hún það og flutti norður. Skömmu síðar var starf háskólarektors á Akureyri auglýst. Stefán sótti um og fékk. „Það var alltaf draumur um að flytja norður. Við vorum búin að kaupa þessa lóð og það var bara spurning hvernær tækifærið kæmi. Svo kom það bara allt í einu,“ segja þau.

Anna og Stefán á pallinum í húsinu í Vaðlaheiðinni.

Stutt að fara

Tengdasonur og dóttir Önnu hönnuðu húsið og nú var bara að hefjast handa og í húsið fluttu þau árið 2012. „Við ætluðum að byggja lítið hús, en enduðum í jafn stóru og við áttum,“ segir Anna. Húsið er algerlega hannað eftir þeirra þörfum. Á neðri hæðinni er 50 fermetra íbúð sem bíður barnanna og fjölskyldna þeirra þegar þau koma í heimsókn. Ekki veitir af, en Anna og Stefán eiga samanlagt 6 börn, sem búa flest á höfuðborgarsvæðinu, en yngsti sonurinn býr í Svíþjóð. Það eru komin 13 barnabörn, en 12 eru á lífi. Þau eru alsæl með staðsetninguna í Vaðlaheiði. „Maður er bara 8–10 mínútur héðan og upp í háskóla. Allar fjarlægðir hér eru eiginlega 10 mínútur og í mesta lagi korter. Það er mjög þægilegt. Við erum fimm mínútur út á flugvöll. Ef við þurfum að sækja fólk á flugvöllinn er nóg að leggja af stað þegar maður sér vélina nálgast.“

Hefði ekki trúað því að Anna gæti hætt eins og hún gerði

Anna fór á eftirlaun 67 ára, en Stefán var 70 ára þegar hann fór á eftirlaun. Hann starfar hins vegar ennþá sem við Háskólann á Akureyri í verkefnatengdu starfi. „Ég hefði ekki trúað að Anna gæti hætt eins og hún gerði, hún er svo mikil félagsvera,“ segir Stefán. „Ég trappaði mig náttúrulega niður,“ segir Anna, „fékk að minnka starfshlutfalilð niður í 80%, síðan niður í 50% og endaði í 30% á meðan ég var að koma eftirmanni mínum inní starfið. Það var komið verulega til móts við mig í fyrirtækinu, þannig að ég gæti átt sveigjanleg starfslok, ég var mjög þakklát fyrir það.“ Stefán segist stjórna sínum tíma sjálfur í verkefnum fyrir Háskólann. „Stundum vinn ég í fjarvinnu í sumarbústað sem við erum með á Árskógsströnd.

Stefáni finnst skemmtilegt hvernig unga fólkið lítur á kynslóðirnar.

Allir yfir tvítugu orðnir gamlir

Stefán hefur undanfarin ár kennt í Vísindaskóla unga fólksins sem er viku sumarprógramm við Háskólann á Akureyri. Þar eru nemendurnir á aldrinum 11–13 ára. Þeim er kennt í 15 manna hópum og taka þar ýmsar greinar. Hver kennari kennir einum hópi á dag í fimm daga. „Ég fékk 15 manna hóp sem var einnig búinn að vera hjá öðrum kennurum og temað sem átti að ræða hjá mér var kynslóðirnar. Ég skipti fólki upp í fimm kynslóðir, þá fyrstu 0–10 ára, síðan aðra 10–20 ára, enn aðra 20–40 ára og svo eina frá 40 til 70 ára og þá fimmtu 70 ára og eldri. Þetta gekk ágætlega en kveikti ekkert sérstaklega í þeim, svo ég ákvað að fela þeim það verkefni að skilgreina kynslóðirnar. Þeirra kynslóðir voru líka fimm, sú fyrsta 0–5 ára, önnur 5–10 ára, þriðja 10–15 ára og sú fjórða 15–20 ára. Fimmta kynslóðin var svo 20 ára og uppúr. Þau voru öll sammála um þetta. Þeim fannst þetta vera kynslóðirnar, allir yfir tvítugu voru gamlir. Þetta var svo ríkjandi hjá þeim, en þau voru 11–13 ára og komin í þriðju kynslóðina sem var 10–15 ára. Í þeirra huga voru allir yfir tvítugu orðnir gamlir og það þurfti ekki að flokka þá neitt frekar. Foreldrar, ömmur og afar voru sams konar fólk, bara eldra fólk allt saman. Einn bunki. Ég hélt þessu áfram í næstu hópum og þau voru algerlega sátt við að þetta væru kynslóðirnar,“ segir Stefán.

Anna með risaþorsk þann stærsta sem hún hefur veitt 24 kg.

Keyptu bát sem var tilbúinn á strandveiðar

„Stefán er á strandveiðum núna og Birgir er með honum,“ segir Anna þar sem við sitjum og horfum yfir sjóinn til Akureyrar í kvöldkyrrðinni, en Birgir sonur þeirra sem býr í Svíþjóð er í heimsókn hjá þeim. „Við eigum sumarbústað í landi Hellu á Árskógsströnd. Þetta er við sjóinn og þar erum við með bát,“ segir hún og Stefán bætir við: „Við stoppuðum þessa viku vegna þess að við erum að endurnýja tækin í bátnum.“ Strandveiðitímabilið stendur í 4 mánuði ef kvótinn endist svo lengi. Anna og Steán hafa lengi átt bát og kepptu bæði í sjóstangaveiði á tímabili. „Afi minn var sjómaður og pabbi var loftskeytamaður og hafði mikinn áhuga á sjómennsku. Þetta smitaðist bara,“ segir Stefán. „Ég hafði alltaf áhuga á að fara á sjó og veiða meira en bara í soðið. Nú er maður að eldast og ég vildi láta drauminn rætast áður en það yrði of seint. Svo það var drifið í að kaupa nýjan bát, þar sem það reyndist of mikið tilstand að umbreyta þeim gamla. Við keyptum bát sem var tilbúinn á strandveiðar,“ segir Stefán en allur aflinn fer sjálfkrafa á markað. „Ég er ekki sjóveikur og mér líður vel á sjó, jafnvel þó það sé veltingur. Ég finn yfirleitt ekki fyrir þreytu á meðan ég er á sjónum, en verð hins vegar þreyttur þegar ég kem í land. Þetta er rútína og ég hef gaman af þessu.“

Uppáklædd á Oddfellow samkomu.

Heilsan mikilvægust

Þau Stefán og Anna eru sammála um að heilsan sé númer 1, 2 og 3 þegar fólk eldist og þau horfa gjarnan á 10 ár í einu, þegar þau horfa fram á veginn. „Meðan heilsan er í lagi eru alltaf tækifæri, en ef henni fer að hraka, þá reynir maður að aðlagast, því það eru alltaf einhver tækifæri í aðstæðunum,“ segir Stefán. Helsti kosturinn við efri árin að þeirra mati er að menn geta stjórnað tíma sínum sjálfir. „Ef við viljum skreppa suður þá skreppum við suður,“ segir Anna, sem hlakkar til þess að geta aftur farið að ferðast um heiminn. Þau hafa þegar bókað ferð til Kaupmannahafnar í nóvember. Þá hafa þau oft rætt um að flytja til útlanda í einhvern tíma. „Við höfum verið tíma og tíma í Flórída, en aldrei lengur en í tvo mánuði í senn. Við höfum hugsað um Spán en svo er draumurinn núna að fara til Portúgals. Okkur finnst gaman að ferðast og höfum farið í húsaskipti til Ítalíu,“ segir hún. Þau hjónin eru bæði í Oddfellow-reglunni. „Það er mjög gefandi og mikill félagsskapur í kringum það. Þar lærir maður að ef maður gefur af sér, þá fær maður það tilbaka,“ segja þau. Stefán segir að hann sé með þokkalegan lífeyri, en Anna segist ekki geta hrósað lífeyrinum frá VR. Þau bjuggu og störfuðu í 9 ár í Svíþjóð. „Við fáum bæði lífeyri frá „Tryggingastofnuninni“ þar og þar er ekki stöðugt verið að reikna út og skrapa af þér krónurnar aftur,“ segir Stefán.

Hafa fiskarnir heila og geta þeir hugsað?

Stefán og Anna hafa gefið barnabörnunum í afmælisgjöf að fá flugmiða og vikudvöl hjá ömmu og afa á Akureyri. „Þetta hefur verið mjög gefandi fyrir okkur og þau líka. Þau geta ekki beðið eftir þessu. Þau mega byrja að fljúga fimm ára, en þá fá þau að fara í flug undir umsjón flugfreyju. Þau koma hingað og fara á sjó með afa og fá líffræðikennslu í leiðinni. Þau veiða fisk, flaka hann og fara svo með hann heim,“ segja þau. Og Stefán fékk nýlega símtal frá 6 ára afastrák sem spurði hann hvort fiskarnir hefðu heila og hvort þeir hugsuðu og hann svaraði: „Þegar þú kemur norður í sumar skulum við rannsaka það og skoða hvort við finnum heila í fiskinum.“

Það var heldur kalt að sitja úti að kvöldlagi þennan júnídag

Erfiðara fyrir karla en konur að eldast

En ellin hefur líka neikvæðar hliðar og því hafa þau Stefán og Anna kynnst, í gegnum mæður sínar sem báðar eru orðnar 95 ára. „Við verðum vör við neikvæð viðhorf,“ segir Anna. „Menn vilja til dæmis ekki að þær leggist inn á sjúkrahús af ótta við að þá verði ekki hægt að losna við þær aftur,“ segir hún og Stefán segist verða var við að eldra fólk sé talið til trafala og að litið sé á það sem byrði. „Við eigum kannski eftir að lenda í þessu, ef við lifum svo lengi, okkar kynslóð verður 100 ára,“ segir Anna sem telur að það sé erfiðara fyrir karla en konur að eldast og Stefán er því sammála, en segir að þetta geti breyst þegar hugmyndir um að karlinn sé eina fyrirvinnan breytist. „Það eru svo margir karlar sem hafa ekkert að gera, hlutverkið er farið og þeir leggjast upp í sófa og deyja,“ segir Anna. „Þeir hafa ekki hugað að því að skapa sér annað hlutverk, koma sér upp áhugamálum eða hugsa um barnabörnin.“ Þá verði þess vart að það séu aldursfordómar í samfélaginu, sem vilji stundum þagga niður í eldra fólki. Eldra fólk eigi það líka til að gera lítið úr ungu fólki, kalli það börn og þar fram eftir götunum. „Við erum sennilega ekkert betri,“ segir Stefán sem segir að eldra fólk sé kannski of viðkvæmt fyrir gagnrýni. „Við eigum að láta þetta sem vind um eyru þjóta og halda okkar reisn, enda erum við fullgildir þjóðfélagsþegnar,“ segir hann og bætir við að það séu alls staðar til fordómar en allt sé þetta mismunandi eftir menningarheimum. Sumstaðar sé mikil virðing borin fyrir eldra fólki.

Árin framundan

„Auðvitað óskar maður þess að maður verði hress eins og maður er núna, maður þakkar fyrir hvert ár sem maður fær. Það þarf að vinna í því að halda heilsunni,“ segja þau Anna og Stefán. Það verði best gert með því að vera jákvæður og hreyfa sig. „Við ætlum að ferðast, þegar heimurinn lagast,“ segir Anna. Það þurfi að skoða þetta með Portúgal og læra eins og maður geri allt lífið, af reynslu annarra. Þau langar að upplifa aftur sænskt vor þegar það verður mögulegt. „Við ætlum að halda áfram að lifa lífinu, vera í Oddfellow og svo er það sjómennskan. Við förum á sjó með börn og barnabörn. Það skiptir líka máli að sinna vinum og kunningjum. Fólk er duglegt að koma til okkar, við eigum mjög góða vini og það er mjög dýrmætt á þessum efri árum,“ segja þau að lokum og á myndinni hér fyrir neðan má sjá hversu kuldalegt var um að litast á Akureyri um miðjan júní þegar viðtalið var tekið. Hvítt niður í miðjar hlíðar í Hlíðarfjalli. En viðtalið birtist fyrst árið 2021, var uppfært lítillega tveimur árum síðar og er endurbirt í þriðja sinn nú.

Ritstjórn júlí 7, 2023 07:00