Hinir eldri halda uppi jólakortasiðnum

Stórlega hefur dregið úr fjölda sendra jólakorta á síðustu árum. Meðal yngra fólks er algjör undantekning að haft sé fyrir því að skrifa og senda hefðbundin jólakort – sá siður hefur nánast alveg vikið fyrir rafrænum jólakveðjum. Hinir eldri halda þó margir fast í þennan rótgróna sið – að handskrifa jólakveðju á þar til gerð kort og senda vinum og vandamönnum í bréfpósti í desember, gjarnan með sérprentuðu jólafrímerki.

Sá siður að senda jólakort tíðkast enn víðast hvar í veröldinni, þar sem fólk á annað borð heldur jólin hátíðleg að hætti kristinna manna. Siðurinn á rætur að rekja til Englands, en fyrsta jólakortið sem vitað er um var prentað og sent í London árið 1843, fyrir hartnær 180 árum.

Í grein sem Fríða Björnsdóttir skrifaði í Morgunblaðið í desember 1993, þegar þess var minnst að 150 ár voru liðin frá því að fyrsta jólakortið var prentað og sent, segir meðal annars: „Nokkur tími leið áður en sérhönnuð jólakort öðluðust einhverjar vinsældir, því fólk hélt áfram að búa til sín eigin kort eða jólabréf eins og það hafði gert fram til ársins 1843. Um 1860 var fólk þó almennt farið að skiptast á jólakortum í Englandi. Í Noregi var fyrsta jólakortið prentað einhvern tíma á milli 1870 og 1880 og hér á landi fór fólk að senda jólakort að einhverju ráði um og eftir aldamótin.“

Íslensk jólakort fyrst prentuð uppúr 1900

Í ritinu Saga daganna greinir Árni Björnsson þjóðháttafræðingur frá því að elsta íslenska jólakveðja sem fundist hefur sé í bréfi frá Brynjólfi biskupi Sveinssyni dagsettu 7. janúar 1667, en kveðjuna endar hann á þessa leið: „Með ósk gleðilegra jóla, farsællegs nýja árs, og allra góðra heillastunda í Vors Herra nafni Amen.“

Í Sögu daganna segir ennfremur frá því að fyrstu jólakortin hafi komið á markað á Íslandi í kringum árið 1890 og voru dönsk eða þýsk. Nokkru eftir aldamótin 1900 hafi verið byrjað að gefa út íslensk jóla- og nýárskort. Í fyrstu voru einkum á þeim myndir af landslagi eða einstökum kaupstöðum en seinna komu teiknuð kort til sögunnar. Kortið sem myndin er af hér að ofan er gott dæmi um slíkt teiknað kort frá fyrstu áratugum 20. aldar.

Ritstjórn desember 29, 2021 07:10