Hipparnir eldast og vilja nú bylta aðstöðu eldra fólks

Heilbrigðisþing sem Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra blés til  í síðustu viku hefur kveikt á perunni hjá ýmsum í þjóðfélaginu og allt í einu eru málefni eldra fólks í landinu í brennidepli – og kominn tími til.  Það hefur lengi verið ljóst að eldra fólki myndi fjölga verulega á næstu áratugum og raunar er sú fjölgun þegar hafin.  Mikil fjölmiðlaumfjöllun og athyglisverð hefur átt sér stað í kjölfar þingsins og  í dag, birtast þrjár áhugaverðar greinar um þessi mál, tvær í Fréttablaðinu og ein í Morgunblaðinu.

Fréttablaðið 24.ágúst 2021

Fréttablaðið birtir frétt á forsíðu um að fjölgun hafi aldrei verið meiri í hópi aldraðra á Íslandi og í fréttinni segir „Fjölgun hjúkrunarrýma og annarra dvalarkosta aldraðra hér á landi hefur ekki verið í einu samræmi við fjölgun í hópi þeirra það sem af er þessari öld“.  Rætt er við Helga Pétursson formann  Landssambands eldri borgara sem bendir á að það hafi lengi verið vitað af þessari fjölgun en menn hafi ekki búið sig undir hana.  Helgi telur að nýtt millistig þurfi í búsetu eldri  borgara. „Í dag er það þannig að fólk býr heima hjá sér þangað til það fer í þrot og svo er það flutt á hjúkrunarheimili“. Hann sér fyrir sér litlar íbúðir með góðu sameiginlegu rými fyrir þá sem nú eru að eldast og segir „ Ég er 72ja ára og er af hippakynslóðinni, við lítum allt öðruvísi á þetta. Við þurfum ekki dýrar 120 fermetra þjónustuíbúðir, við erum til í 50 fermetra íbúðir sem eru tengdar við þjónustukjarna“.

Sigmundur Ernir Rúnarsson ritstjóri Fréttablaðsins skrifar svo leiðara um sama mál, undir fyrirsögninni Óp aldraðra og fjallar um þá háværu og frjálslyndu kynslóð sem kennd er við ártalið 68, og sé nú aftur komin í uppreisnarham. Það hafi nefnilega gleymst að gera ráð fyrir öldrun hennar.

Og nú er það orðið gráhært. En margt hvert raunar svo ungt í anda – og virkir þátttakendur í samfélaginu – að það sættir sig ekki við að setjast í helgan stein.

Breytingin er nefnilega þessi: Gamla fólkið á nýrri öld er ekki endilega svo gamalt. Það er yngra en áður þekktist og þarf á annarri þjónustu og öðruvísi húsnæði að halda en áður þótti duga.

Og þess vegna heyrast núna ramakveikin þegar allt þetta fólk sem hélt að það hefði breytt öllu samfélaginu til hins betra, áttar sig á því að það sjálft gerði aldrei ráð fyrir að þiggja þjónustu og aðbúnað á efri árum. Breytingarnar á því sviði máttu alltaf bíða betri tíma“.

Leiðaranum lýkur á þessum orðum:

Og þessi hópur er ekki lengur einsleitur. Hann er fjölbreyttur. Hann ætlar sér ekki að hlusta á harmonikkutónlist inni á elliheimili þar sem tveir eða fleiri eru saman um herbergi. Hann vill Bítlana í botn í búsetuúrræðum af margvíslegu tagi. Og hann vill kannski líka bara fá að vinna áfram án þess að vera margskattaður fyrir það. Af því að hann hefur fullan hug á því að taka áfram þátt í samfélagi sem hann gat bæði bylt og breytt í gamla daga“.

Halldór Benjamín Þorbergsson skrifar svo grein í Morgunblaðið undir fyrirsögninni, Öll viljum við verða gömul – Hvað þá?   Hann rekur í greininni hvernig kynslóðirnar lifa lengur og lengur, stöðugt færri vinnandi hendur verði að baki þeim sem fara á eftirlaun  og segir meðal annars:

Að óbreyttu mun þetta leiða til sívaxandi kostnaðar við heilbrigðisþjónustuna, hærri skatta auk þess sem fólk mun þurfa að bera stærri hlut af kostnaði við eigin umönnun. Það er dökk framtíðarsýn. Því fyrr sem brugðist er við því betur mun ganga að ráða við vandann“.

Þá segir hann einnig í greininni:

„Elli er falleg – hún er farsæl niðurstaða af löngu lífi. En það þarf að fjölga þeim árum sem fólk býr við góða heilsu og er virkir þegnar í samfélaginu. Eldri borgarar þurfa síðan að eiga raunhæga möguleika til að dvelja heima eins lengi og kostur er. Heimahjúkrun og heimaþjónusta er mikilvægur þáttur til þess en einnig geta fleiri  búsetuúrræði þurft að koma til. Einfalda þarf afar flókna verkaskiptingu félags- og heilbrigðisþjónustu eldra fólks sem er á höndum sveitarfélaga og ríkisins. Stofnanir samfélagsins eiga ekki séns í að halda í við öldrun þjóðarinnar“.

Samtök atvinnulífsins ætla meðal annars að fjalla um þessi mál á ráðstefnu á morgun, undir yfirskriftinni Heilbrigðiskerfi á krossgötum.

Halldór skopmyndateiknari Fréttablaðsins kemur líka sterkur inn í umfjöllun dagsins um aðbúnað elsta fólksins: Sjá hér.

 

Ritstjórn ágúst 24, 2021 11:58