Tengdar greinar

Hjúskaparmiðlun fyrir tíma internetsins

Tíminn birti um það frétt í október árið 1970, að hjúskaparmiðlun væri tekin til starfa í Reykjavík Ekki sé vitað að áður hafi slík starfsemi verið hér á landi, en þetta sé mjög algengt í flestum löndum. Fyrir hjónabandsmiðluninni hér stóð einn maður, sem bað blaðið að láta ekki nafns síns getið, en gaf fúslega allar upplýsingar um starfsemina.

Ég byrjaði á þessu í gær og það hefur verið geysilega mikið hringt í gær og dag. Þetta er fólk á öllum aldri, allt frá tvítugu og upp í fimmtugt og þar yfir jafnvel. Byrjunin er sú, að ég skrái niður nöfn fólksins, áhugamál og fleira þess háttar. Viðkomandi greiðir 100 krónur og gildir það fyrir tvo mánuði. Síðan kynni ég fólkið eins og það óskar. Annað hvort býður herrann dömunni út, eða þau hittast heima hjá öðru hvoru. Ef svo þetta gengur ekki, þá getur viðkomandi komið aftur og kynnst annarri persónu, alveg þar til tíminn er útrunninn.  Ef viðkomandi hins vegar kynnist engum eða engri viðkomandi á þessum tíma, er hægt að fá aðra tvo mánuði eða hætta. Ég vil taka fram, að þeir, sem ekki kynnast neinum, fá endurgreidda peningana.

Og frásögnin heldur áfram

Hingað hefur mikið hringt fólk, sem vantar dansfélaga, eða einhvern til að fara með í dansskóla. Ég vil ekki kalla þetta hjónabandsmiðlun, heldur kynningarstarfsemi, með hjónaband fyrir augum.

Eru nú ekki einhverjir, sem eru tortryggnir og halda að þetta sé bara grín?

Það getur vel verið, en ég hef ekki orðið var við það. Hingað hefur enginn hringt til að vera með fíflalæti, það er alvara á bak við þetta í langflestum tilfellum, þótt sumir hringi kannski bara af forvitni.

Svo mörg voru þau orð um hjúskaparmiðlunina í Reykjavík árið 1970. Þau birtust í Tímanum og líka í bók Illuga Jökulssonar Ísland í aldanna rás 1951-1975.

Ritstjórn nóvember 2, 2016 13:09