„Í kvikmyndinni Á hjara veraldar hverfur móðir á dauðastundu aftur til æskustöðva sinna, dalsins kæra sem á að sökkva í þágu virkjanaframkvæmda. Staðurinn er Öxnadalur.
Þegar ég gerði þessa kvikmynd hugsaði ég með mér að allir hlytu að vera sammála því að það kæmi ekki til greina að sökkva Öxnadalnum, heimaslóðum þjóðskáldsins, „þar sem háir hólar hálfan dalinn fylla“. Ég vildi fá menn til að bregðast við og velta fyrir sér hvort virkjanakostur væri alltaf réttlætanlegur. Öxnadalurinn hefur goðsögulega merkingu fyrir svo marga, en ekki síður hefur mikilfengleiki og fegurð dalsins og drangans fyrir ofan bæinn Hraun skapað jafn tilfinningalega stærð og fyrir mig sjálfa.
Faðir minn var reyndar fæddur í sama herbergi og Jónas Hallgrímsson, í gamla torfbænum að Hrauni. Hann var orðinn 6 ára þegar föðurafi minn, Elías Tómasson, hóf byggingu á nýja húsinu sem enn stendur.
Svo var það dag einn að vetrarlagi að faðir minn, barn að aldri, og yngri systir voru ein heima á bænum í eldhúsinu með móður þeirra þegar hún féll skyndilega í gólfið örend. Börnin höfðu einhvers staðar heyrt að það væri gott ráð að dreypa vatni á konur sem féllu í yfirlið. Þau vökvuðu því og vökvuðu móður sína en allt kom fyrir ekki. Þegar annað heimafólk kom þar að var allt eldhúsgólfið á floti í vatni. Móðirin, Róslín Jóhannesdóttir, var aðeins 37 ára að aldri.
Alla mína barnæsku fylgdist ég með föður mínum mála og teikna bæinn Hraun og drangana þar beint upp af. Myndefnið var bæði gamli bærinn og nýja húsið. Þetta gerði hann upp aftur og aftur eins og lífsorkan væri undir því komin að hverfa stöðugt aftur á æskuslóðir. Þegar leið mín hefur legið um Öxnadalinn hef ég alltaf staldrað við drykklanga stund og íhugað átök andstæðra afla innra með mér sem þessi staður veldur. Annars vegar er það örlagaþrunginn Hraundranginn og ægifegurð dalsins, mjúkar, ávalar línur háu hólanna sem urðu til er berghlaup féll úr Drangsfjalli þvert yfir dalinn. Eftir stóðu drangarnir.
Handan þeirra er Hraunsvatn djúpt og kyrrt.
Ennþá situr í mér sama magnaða tilfinningin og þegar ég, barn að aldri, komst upp að vatninu með afa mínum sem sagði mér að þarna hefði séra Hallgrímur, faðir skáldsins, drukknað þegar Jónas var barn að aldri. Svo þagði afi mjög lengi og ég get enn heyrt þögn óravíddar ef ekki bara guðlegrar kyrrðar sem ég hafði aldrei upplifað áður. Hins vegar er það angurværðin andspænis fegurðinni sem gerir þennan stað þýðingarmeiri fyrir mig en aðra staði.
Þegar föðusystir mín, Jóhanna Rannveig, var komin á tíræðisaldur fór ég og sonur minn, Jóhannes, með hana í ferð frá Akureyri að Hrauni. Þá var hún að koma í fyrsta skipti aftur að bænum frá því hún var barn og flutti eftir lát móðurinnar til Akureyrar. Okkur var boðið að ganga inn og fórum við rakleiðis inn í eldhúsið. Föðursystir mín stóð þar svo grafkyrr og horfði lengi út um eldhúsgluggann upp hlíðina þar sem gamalt torfhlaðið útihús blasti við. Á endanum staðnæmdist augnaráðið á Hraundranganum. Þá sneri hún við og gekk út án þess að segja orð.
Það er fátt jafn gott til að finna fyrir núvitund en að sitja á árbakka og horfa út í streymið. Það gerðu systkinin oft forðum og nutu þess að stíga berum fótum út í Öxnadalsána sem hlykkjast eftir endilöngum dalnum. Þarna settumst við líka eftir heimsóknina á bæinn og nutum sólarspegilsins á yfirborði lygnrar Öxnadalsár og tókum á móti fegurð augnabliksins.
Gríski fílósófinn Heraklítus, sem hélt því fram að allt væri stöðug breyting og allt sé og sé ekki á sama tíma. Hann skrifaði okkur til íhugunar: „Enginn maður stígur tvisvar út í sömu ána af því að það er ekki sama áin og hann er ekki sami maðurinn.““