Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.
Í flestum tilfellum verður bíllinn fljótlega eins og einn af fjölskyldunni. Við þekkjum hann í útliti langt að, þekkjum hljóðið í vélinni og heyrum á breytingum á því hvort bíllinn er hress eða ekki. Hann getur verið lélegur í gang þegar hann er kaldur, rafgeymirinn kann að þurfa örlitla þolinmæði og dekur eða eitthvað annað sem þarfnast sérstakrar tillitssemi. Miðað við hve nátengdir flestir verða bílunum sínum er með ólíkindum hvað öðrum tekst að halda sig í vissri fjarlægð frá þessum þarfasta þjóni nútímans. Sumir líkja þessu við að vera gott og vont foreldri. Til dæmis er ákveðinn hópur manna (sumir segja aðallega kvenna) sem tekst að týna bílnum sínum og það ekki einu sinni á ævinni heldur stundum oft á dag.
Ég er ein þessara bíleigenda og hef ekki tölu á því hversu oft ég hef komið klyfjuð pokum út á bílastæði í Kringlunni eða með fangið fullt af gögnum úr vinnunni og ekki haft hugmynd um hvar á bílstæðum þessara bygginga bíllinn minn er. Eina ráðið er venjulega að ganga af stað og stefna í þá átt sem ég tel að bílinn minn sé hugsanlega að finna. Fram að þessu hef ég alltaf rambað á hann en ef það skyldi einhvern tímann bregðast er eina ráðið sjálfsagt að koma aftur undir miðnætti og hirða bílinn þar sem hann sæti einn eftir á stæðinu.
Ég hef heyrt að maður nokkur sem orðinn var langþreyttur á eilífri leit konu sinnar að fjölskyldubílnum hafi fengið sér einkanúmer til að merkja henni bílinn rækilega. Ef þetta ráð ætti að duga í mínu tilfelli kostaði það sennilega kaup á stærri bíl. Það er ekki hægt að ætlast til þess að venjulegur fólksbíll sé merktur nafni sem er með ellefu bókstafi.
Eitt sinn, fyrir þónokkrum árum þegar maður notaði enn lykla og skrá á bílhurðum, hafði ég loks, eftir langa leit, fundið bílinn minn á stæðinu í Kringlunni. Alls hugar fegin stakk ég lyklinum í skrána og var sest undir stýri þegar ég tók eftir því að umhverfið var á einhvern hátt ekki eins og ég átti að venjast. Í sætinu lágu hanskar sem ég kannaðist ekki við og ofan á mælaborðinu voru einhverjir pappírar mér ótengdir. Ég steig flóttaleg út úr bílnum og leit á númerið. Það reyndist allt annað en mitt og þótt bílinn væri að vísu sömu gerðar og minn var hann heldur dekkri að lit og einhvern veginn allt öðruvísi þegar betur var að gáð. Ég læsti bílnum sem ég hafði brotist inn í og forðaði mér skömmustuleg burtu. Skömmu seinna tókst mér svo að finna minn eigin bíl.
Stal óvart bíl
Mér skilst að það sé ákaflega sjaldgæft að hægt sé að nota sama lykil að fleiri en einum bíl sömu gerðar en enn óalgengara hlýtur að vera atvik sem henti vinkonu mína fyrir um það bil fjörutíu árum. Hún settist upp í bílinn sinn í bílastæði fyrir utan verslun, startaði og ók heim. Þegar þangað kom opnaði hún hanskahólfið og ætlaði að tæma það. Þar var þá ekkert að finna sem hún kannaðist við að eiga og mín fór að skoða betur bílinn sem hún sat í. Hún komst fljótt að því að bíll þessi var alls ekki hennar eign og auk þess ekki einu sinni sömu gerðar og sá sem hún ók að öllu jöfnu. Málið fékk þó farsælan endi því hún ók til baka og þegar þangað kom stóðu fyrir utan verslunina ung hjón sem voru í örvæntingu að leita að bílnum sínum. Vinkona mín útskýrði málið, baðst afsökunar og afhenti bílinn. Ungu hjónin ákváðu að gera ekki frekara veður út af þessu en ungi maðurinn bað vinkonu mína vinsamlega að láta það vera að gera þetta aftur þótt hún rækist á bílinn þeirra einhvers staðar. Vinkonan ók svo heim í eigin bíl að þessu sinni og hefur að sögn verið heldur varkárari í vali á bílum eftir þetta.
Atvik sem þessi eru ákaflega sérstök en þó þykja mér þau hjóm eitt hjá því þegar eiginmaður minn ók mér eitt sinn að verslun á Laugaveginum. Hann kvaðst ætla að bíða fyrir utan meðan ég stykki inn því erindi mín áttu ekki að taka nema örskotsstund. Þegar ég kom út sá ég bílinn fljótt þar sem hann stóð beint fyrir framan verslunina. Ég vatt mér galvösk inn í bílinn og sagði mínum manni glaðlega að óhætt væri að aka af stað. Varla hafði ég sleppt orðinu þegar ég tók eftir því að ummál eiginmannsins hafði aukist talsvert meðan ég skrapp inn í búðina og að auki hafði honum bæst myndarlegt rautt skegg á kjammana sem lítið hafði farið fyrir áður en beygt var inn á Laugaveginn.
Maðurinn sem sat undir stýri hristist af hlátri og spurði mig hvort ég vildi örugglega keyra af stað. Ég varð að játa að sennilega væri best að staldra við ögn lengur, í það minnsta meðan ég sannreyndi hvort ekki leyndist annar karl einhvers staðar í nágrenninu ögn líkari þeim sem ég skildi við nokkrum mínútum fyrr. Ég laumaðist lúpuleg út úr bílnum og sá að hann var að vísu eins á litinn og minn en að öðru leyti algerlega óskyldur að tegund og gerð. Maðurinn minn sat tveimur bílum aftar og hló. Ég hef hins vegar aldrei fullkomlega skilið fyndnina í þessu.