Kalmann er samur við sig

Kalmann og fjallið sem svaf er önnur bók um þessa sérstæðu og stórskemmtilegu persónu sem Joachim B. Schmidt skapaði. Fyrri bókin hét einfaldlega Kalmann og sló í gegn. Að þessu sinni hefst atburðarrásin þar sem Kalmann er í haldi FBI eftir að hafa tekið þátt í árásinni á bandaríska þinghúsið í Washington DC 6. janúar 2021.  Þar fær hann merkilegar upplýsingar um afa sinn og í kjölfarið hefst morðrannsókn sem lesandinn veit lengi vel ekki hvort eigi rétt á sér eða ekki.

Kalmann er á einhverju rófi, eins og gjarnan er sagt í dag. Hann bindur ekki bagga sína sömu hnútum og samferðamenn hefði verið sagt fyrir nokkrum áratugum. Hann er nýbúinn að missa afa sinn, haldreipið og manninn sem skildi hann best þegar sagan hefst. Samband hans við móður sína er viðkvæmt og þar er ríkir oft togstreita en mikil væntumþykja og ást engu að síður. Stundum fær mamma hans einfaldlega nóg og það er verður til þess að hún ákveður að tími sé kominn til að Kalmann fái að kynnast föður sínum. Svo heppilega vill einmitt til að sá náungi hefur samband í miðjum Covid-faraldri og lætur í ljós áhuga á að hitta son sinn. Kalmann flýgur til Bandaríkjanna og eins og hans er von og vísa, flækist þar í söguleg átök og fær far heim á kostnað bandarískra yfirvalda.

Þetta eru ótrúlega vel skrifaðar bækur og Joachim tekst að halda þessum sérstæða karakter trúverðugum í gegnum allar hans raunir og gæðastundir. Sagt var að fyrri bókin hafi komið Raufarhöfn á kortið, ekki bara í hugum Íslendinga heldur erlendra ferðamanna, enda var bókin þýdd á fjölmörg tungumál. Ef svo er mun þessi koma Langanesi og Melrakkasléttu rækilega fyrir á „bucket-listum“ lesenda um allan heim. Hér verður umhverfi þessa afskekkta staðar bæði magnað og forvitnilegt fyrir svo utan að saga Heiðarfjalls er rifjuð upp. Kalmann og fjallið sem svaf er stórskemmtileg bók og þótt hún hverfist að vissu leyti um glæpi er svo margt annað forvitnilegt, athyglisvert og hrífandi í þessum skrifum að varla er hægt að flokka hana í einn flokk. Það er óhætt að mæla með þessari vanti fólki eitthvað að lesa.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn febrúar 21, 2024 07:00