Hvernig ég varð rauðsokka löngu áður er það orð varð til

María Ragnarsdóttir sjúkraþjálfari Phd

Dr. María Ragnarsdóttir skrifaði eftirfarandi hugleiðingu eftir kvennaverkfall og sendi Lifðu núna. 

Undanfarnar vikur og mánuði hef ég verið að dunda mér við að skrifa hjá mér ýmis atvik og samtöl sem hafa sest að í minni mínu og datt í hug að deila með lesendum Lifðu núna nokkrum klausum í tilefni af kvennaverkfallinu. Á kvennafrídeginum 1975 starfaði ég sem sjúkraþjálfari á Landspítalanum, lagði niður störf og tók þátt með mikilli gleði. Að sjálfsögðu fór ég líka á Arnarhól í nýliðnu kvennaverkfalli til stuðning málsatðnum, þótt ég væri ekki lengur á vinnumarkaði. Með því að birta þessar glefsur langaði mig að veita smá innsýn í viðhorf til kvenna á mínum uppvaxtarárum og fyrstu árum í starfi.

Hvernig ég varð rauðsokka löngu áður er það orð varð til

Í mínu ungdæmi voru langflestar giftar konur heimavinnandi húsmæður og var móðir mín í því starfi mestan hluta ævinnar. Meðal áhugamála hennar var að leika með áhugaleikhópum og var í aðalhlutverki í mörgum leikritum sem sýnd voru í okkar heimabæ. Þegar hún þótti ekki lengur passa í þau hlutverk sem í boði voru fyrir konur á þeim tíma, tók hún að sér leikstjórn. Eitt sinn, þegar hún hafði fengið þóknun í peningum fyrir leikstjórastarf, notaði hún launin til að gefa börnunum sínum gjafir „fyrir sína peninga“ Ég hugsaði með mér: „Ég ætla ekki að verða í þeirri stöðu í framtíðinni að þurfa að gefa gjafir fyrir annars manns peninga!“ Þar með var það ákveðið að ég ætlaði að stunda launaða vinnu í framtíðinni. Á þessum tíma var ég líklega 12 -13 ára.

Litu konur á þessum tíma almennt á það að þær væru að eyða peningum eiginmanna sinna þegar þær fóru að versla? Vonandi ekki.

Tvö dæmi um ólíka sýn á stöðu kvenna á sjöunda áratugnum

Spjall tveggja kvenna á sjúkrastofu. Ég var að sinna konu sem var inniliggjandi á 6 manna stofu á „Gamla spítalanum“ þegar ég var vitni að eftirfarandi samtali. Kona 1: „Konur sem nenna ekki að passa börnin sín og henda þeim í aðrar konur eiga ekki að fá að eiga börn.“ Kona 2 í næsta rúmi. „Hvað segirðu! Mér finnst einmitt ungar konur í dag svo duglegar. Þær eru oft að vinna fyrir mönnunum sínum meðan þeir eru í langskólanámi og sjá um heimilið líka. Ekki eru þær með vinnukonur til að hjálpa sér eins og margar af okkar kynslóð höfðu.“ Mundi líklega kallast í dag að þær hafi tekið allar þrjár vaktirnar.

Hvað er heimili?. Miðaldra ógift hjúkrunarkona lýsti því yfir að: „Heimili þar sem konur vinna úti eru ekki heimili.“ Ég hugsaði strax: „Ó, heimili mitt er ekkert heimili“! En unga gifta hjúkrunarkonan sem stóð við hliðina á mér, þegar þetta var sagt, svaraði að bragði og mjög ákveðið: „Nei, því heimili er staður þar sem hlutverk konunnar er að hamast við að gera alla ánægða nema sjálfa sig!“

Ef til vill var þetta góð skilgreining á hlutverki húsmóðurinnar á þessum tíma að margra mati, en vonandi voru fleiri konur sem voru í hópi ánægðra heimilismanna!

Skaðsemi barnaheimila (nú leikskóla). „Fóstrurnar (nú leikskólakennarar) eru allan daginn að hafa ofan af fyrir börnunum, sem gerir þau alveg ófær um að hafa ofan af fyrir sér sjálf.“ Íslenskt orðanet segir að „hafa ofan af fyrir sér“ merki m.a. að stytta sér stundir. Í hinum enda ævinnar verður þetta aftur að vandamáli eða stóru viðfangsefni, sem sagt „að hafa ofan af fyrir sér“ eftir starfslok og birtist meira að segja sem „viðskiptahugmyndir“ í formi leikfangaverslana fyrir fullorðna!

Hvað er greitt fyrir með mæðralaunum? Ég varð ung makalaus (og grínaðist með að það væri ég í tvennum skilingi þess orðs!), sem sagt einstæð móðir tvggja barna og alveg makalaust fágæt því sjúkraþjálfarar voru fátíðir á þeim tíma og einstæðar mæður eiginlega líka. Fljótlega eftir það gekk ég í Félag einstæðra foreldra þar sem Jóhanna Kritjónsdóttir var formaður. Hún skipaði mig í nefnd ásamt tveimur öðrum makalausum konum og fengum við það verkefni að vinna að því að fá mæðralaunin hækkuð. Engar leiðbeiningar fylgdu hvernig haga skyldi verkinu eða hvar ætti að byrja. Mér fannst liggja í augum uppi að það allra fyrsta sem nefndin þyrfi að gera væri að afla upplýsinga um fyrir hvað væri verið að greiða með mæðralaunum. Eins augljóst og mér fannst þetta, þurfti ég að leggja hart að mér að sannfæra hinar nefndarkonurnar um nauðsyn þessa. Loks fengum við fund með alþingiskonu sem hafði komið að lagasetningu um þetta og fengum við þá skýringu að ef kona væri ein með þrjú börn væri það talið jafn erfitt fyrir hana að fara út á vinnumarkaðinn og væri hún öryrki og ætti því að fá sambærilegar bætur og öryrki. Mæðralaun með einu eða tveimur börnum voru lægri og man ég ekki hvernig upphæðin var skilgreind. Örorkubætur hækkkuðu smám saman en mæðralaunin stóðu í stað þar sem gleymst hafði hvernig þau voru hugsuð. Ég skemmti mér við að ímynda mér verkþætti sem heimilisfeður sinntu að jafnaði á þessum tíma og hugsanlegt verðmæti þeirra, eins og að sinna umhirðu heimilisbílsins, fara með í skoðun, þrífa, skipta um dekk og svo framvegis og komst jafnóðum að því að verkþættirnir væru verðmætari en svo að mæðralaunin dygðu. Ég endaði með að álykta að upphæðin væri líklega sárabót fyrir makaleysið og ætti því að heita makaleysisbætur. Þessi greiðsa til einstæðra mæðra/feðra er enn við líði eins og sést á neðanskráðum klausum.

Fréttatíminn 22.4. 2023. „Mæðralaun: Með nýrri lagabreytingu sem samþykkt var á Alþingi í lok síðasta mánaðar, koma mæðra-/ feðralaun ekki lengur til skerðinga á framfærsluuppbót hjá einstæðum foreldrum sem fá greidd mæðra-/feðralaun með tveimur börnum eða fleiri.“

Lagabreytingin nær til alls 449 manns. Mæðra-/feðralaun með tveimum börnum eru 12.343 kr. og með þremur eða fleiri börnum 32.090 kr. Hér má lesa nánar um mæðra- og feðralaun á vef TR: https://www.tr.is/fjolskyldur/maedra-og-fedralaun. Gaman væri að vita hvernig það sem greitt er fyrir með mæðra-/feðralaunum er skilgreint í dag.

Mæðralaun, meðlag og mannréttindi

Einn laugardagsmorgunn pakkaði ég börnum og skíðum í minn litla Austin Mini bíl til að fara á skíði í Bláfjöllum, en kom við á Skólavörðustígnum þar sem borgarfulltrúi var með viðtalstíma fyrir borgarbúa. Ég sagði henni erindi mitt í sem stystu máli vitandi af börnunum bíðandi í bílum, en féll allur ketill í eld þegar hún sagði: „Það eru mannréttindi fyrir þessa menn að fá að gifta sig aftur.“ En eiga þessi börn ekki rétt á að njóta góðs af háum tekjum feðra sinna? Meðlag var þá ákveðinn hluti af lágmarkslaunum verkamann. Veit ekki hvernig þau eru í dag. Til okkar nefndarkvenna kom eitt sinn kona sem hafði verið gift tannlækni og búið í einbýlishúsi á Arnarnesinu og börnin í tónlistarskóla, fimleikum og dansi. Eftir skilnaðinn gátu börnin ekki stundað neitt af þessu og var móðirin mjög sár fyrir hönd barna sinna.

Ég á nokkra fleiri svona mola í fórum mínum, en læt hér staðar numið, en jafnréttisbaráttan verður að halda áfram. Það sýndi kvennaverkfallið og það sem þar kom fram svo um munaði. Nýtum þá samstöðu sem þar skapðist, metum svokölluð kvennastörf til jafns á við karlastörf og tökum á kynbundu ofbeldi gegn konum, körlum og kvárum í hvaða formi sem er.

Áfram stelpur!

Ritstjórn október 30, 2023 10:13