Ekki kveikja í púðurtunnu í fjölskylduferðinni  

Þegar móðir mín bauðst til þess síðast liðið vor, að borga bróðurpartin af ferðakostnaði stórfjölskyldunnar til Mexíkó í frí, fannst okkur hugmyndin mjög spennandi. Hún var tilbúin að borga fyrir systkini mín, eiginmann og börn. Þetta segir Julie Halpert sem skrifaði grein um ferðalög stórfjölskyldna á vefinn. Greinin er hér stytt og endursögð og Julie heldur áfram:

Tilhugsunin um að fara í sólarfrí um miðjan vetur, með fjölskyldunni sem menn sjá ekki nema endrum og sinnum var sannarlega spennandi. En reynslan hefur kennt mér og manninum míum að fara varlega þegar frí með stórfjölskyldunni er annars vegar.  Það getur skapast spenna þegar stórfjölskyldan kemur saman í nokkra daga undir sama þaki. Það getur komið upp ágreiningur. Það er alltaf mögulegt að menn séu ekki sammála um hversu oft skuli borðað úti á vetingastað, eða hvort þeir vilja fara á dýra eða ódýra staði. Einnig geta verið skiptar skoðanir um það sem menn vilja gera yfir daginn. Samt sem áður, við þekkjum mömmu. Hún er ekkja, orðin 82ja ára og elskar að ferðast og sjá nýja staði. Það getur hún hins vegar ekki lengur ein. Þannig að við ákváðum að slá til.

Heiður himinn yfir ströndinni í Cancun í Mexíkó

Um jólin héldum við hjónin til Mexíkó, ásamt mömmu, systur minni, einni dætra minna og okkur til undrunar þegar við komum á staðinn –  bróður mínum sem býr í Kína.  Eldri dóttir okkar afþakkaði ferðina, þar sem minningar hennar úr fyrri fjölskylduferðum vógu þyngra en ókeypis frí með stórfjölskyldunni.  Okkar fjölskylda er hluti af nýrri bylgju. Það færist í vöxt að stórfjölskyldan ferðist saman.  Samkvæmt upplýsingum um hegðun bandarískra ferðamanna, fóru 37% í ferðalag með stórfjölskyldunni árið 2018, en á þesu ári hyggjast 43%  gera það.

Til að auðvelda okkur fríið og gera það ánægjulegra, talaði ég við Diane Sanford ritstjóra Family Travel Forum, um hvað helst þarf að ræða um, áður en lagt er í ferð með stórfjölskyldunni. Hér á eftir eru sjö ábendingar hennar ásamt hugleiðingum mínum um þessi mál.

Farið af stað með rauhæfar væntingar

Sanford bendir á að fjölskyldur séu flóknar „og þú ert með margar mismunandi manngerðir. Þegar þú er komin með meira en þrjár til fjórar manneskjur saman, þá ertu komin með púðurtunnu sem getur sprungið í loft upp“, segir hún og mælir með að fólk sem ferðast saman reyni að vera umburðarlynt og sveigjanlegt. „Ekki gera ráð fyrir því fyrirfram að þetta verði fullkomið Facebookmynda  eða Instagram frí. Gerið hins vegar ráð fyrir að það muni koma upp vandamál og reynið að takast á við þau með opnum huga“, segir hún.

Ræðið um hver borgar hvað

Peningar geta verið uppspretta illinda. Ef afi og amma borga ekki allt fríið, ræðið þá hvernig kostnaðurinn skiptist á milli annarra í fjölskyldunni og gerið fjárhagsáætlun. Mamma samþykkti að borga flugferðirnar og gistinguna. Við systir mín, bróðir og  maðurinn minn gerðum áætlun um hvernig matarkostnaður, kostnaður við ferðir á staðnum, máltíðir á veitingahúsum og skemmtanir, myndi skiptast milli allra hinna.

Veljið hlutlausan stað

Það hjálpar að velja stað, sem enginn í fjölskyldunni á meira tilkall til en annar. Ef einn fjölskyldumeðlima „heldur“ fríið í húsnæði sem hann á eða tengist, er það auka álag á eina fjölskyldu. Ef menn hafa efni á, er upplagt að vera í þannig húsi að allir hafi sérherbergi, eða ef þeir eru á sama hóteli að allir séu þá með sitt hvort herbergið eða aðstöðuna. Það er  ákjósanlegt að táningar sem vilja vaka frameftir og sofa út, hafi eigin aðstöðu þar sem þeir trufla ekki aðra.

Ég velti gistingunni vel fyrir mér, þannig að allir gætu verið ánægðir. Við vildum ekki að mamma yrði ein í hótelherbergi. Við vildum búa þannig að við gætum öll verið saman, en samt útaf fyrir okkur. Við vildum forðast að fara með mömmu út að borða alla daga. Við leigðum því íbúð í gegnum AirBnB. Við gátum fengið okkur morgunmat og hádegisverð í íbúðinni. Þeir sem vöknuðu snemma gátu verið í stofunni á meðan aðrir sváfu, eða sóluðu sig á þaksvölunum. Við vorum öll mjög ánægð með þetta, það var nóg pláss fyrir alla og þetta kostaði minna en að kaupa hótelherbergi fyrir allan hópinn.

Deilið ábyrgðinni

Það er margt sem þarf að gera þó fjölskyldan sé í fríi. Það þarf að gæta barna, elda, þrífa og sjá um félagsskap fyrir eldri ættinga. Stundum er það þannig að yngra fólkið býst við að afi og amma passi á kvöldin þegar þau vilja fara út að skemmta sér. En það er ekki víst að afi og amma sem eru ennþá eldhress, hafi hugsað sér það. Það er best að ræða þetta áður en lagt er í hann. Það er líka hægt að hugsa sér að leysa mállið með því að dvelja á stað þar sem boðið er uppá barnapössun eða afþreyingu fyrir börnin. Ræðið það  líka. Það er ekki þar með sagt að afi og amma vilji ekki passa þó þau langi ekki til að gera það allan daginn, alla daga. Þetta þarf að ræða áður en lagt er af stað. Sanford leggur til að dóttir eða sonur, ræði þessi mál við sitt foreldri, en ekki tengdabörnin.

Verið sammála um ferðaplanið

Það er ákjósanlegt að gera saman ferðaplan, þar sem reynt er að mæta þörfum allra. Það passar kannski ekki ungum fjölskyldum með börn, að sigla til Englands í sex daga með Queen Mary, þó amma kunni að hafa  gaman af því.

Það er alveg hægt að taka því rólega í fríinu og þarf ekki endilega að leita langt yfir skammt með hvert á að fara. Strandferð á nálægan stað hentar til dæmis bæði fjölskyldum með börn og eldra fólki.  „Þú þarft ekki að eyða 10-12 klukkustundum í að fljúga til Evrópu. Best er að velja stað þar sem þið getið haft það skemmtilegt, laus við allt stress og bara notið þess að vera saman“ segir Sanford. Hún segir lykilatriði að ræða „hvíldartíma“ í ferðinni, sérstaklega þegar lítil börn eru með í för eða eldra fólk. Hvernig á að leysa það ef einhver þarf að taka sér pásu? „Ef börnin þín hafa sérstakar svefnvenjur, skaltu láta fjölskylduna vita þegar þú þarft að sinna þeim. Biddu þau um að virða það.

Takið ykkur frí frá hvert öðru

Sumar fjölskyldur halda að þær þurfi að gera allt saman, en það er ekki góð hugmynd, segir í greininni. Allir þurfa að hafa tíma fyrir sjálfa sig, eða í smærri hópi, bara til að rölta um ströndina eða kíkja í skíðabrekkurnar fyrir þá sem eru í skíðaferð.

Fólk nýtur þess betur að vera saman, ef það tekur sér líka tíma til að vera út af fyrir sig. Systir mín sem vissi að mig, manninn minn, bróður minn og dóttur langaði til að kafa og skoða rústir Maya Indjánanna, sá að slíkar ferðir hentuðu mömmu ekki og var svo elskuleg að bjóðast til að vera heima með henni í einn dag. Einn morguninn héldu maðurinn minn og dóttir mín sig heima í íbúð, á meðan ég sótti jógatíma með systkinum mínum. Og bróðir minn tók heilt síðegi í að ganga einn um ströndina. Það að skipta hópnum upp reglulega, þannig að allir fengju nægt andrými reyndist einföld leið til að halda öllu ánægðum. Því stærri sem hópurinn er, því fleiri tækifæri til að skipta honum upp og gera eitthvað skemmtilegt.

Verið viðbúin að takast á við ágreining

Sanford lagði það til, að til að kæla andrúmsloftið ef deilur spryttu upp í fríinu, væri gott ráð að draga andann djúpt, hugsa sig aðeins um og halda svo áfram. „ Ekki fuðra upp eða hlaupa á dyr. Reynið að ná ykkur niður, þannig að þið getið hugsað rökrétt og ekki taka hlutina persónulega“, segir hún. Robert E Emery sálfræðiprófessor segir að menn ættu að velja stað og stund fyrir deilumál og sumarleyfi væri ekki rétti tíminn til að taka upp viðkvæm mál við aðra í fjölskyldunni. „Menn vilja slaka á í fríinu og leyfið ykkur það bara“, segir hann.

Ég tók þessar ráðleggingar bókstaflega og við áttum þarna bestu ferð með stórfjölskyldunni sem ég hef farið lengi. Við nutum þess virkilega að hanga saman við sundlaugina í sólskininu, segir greinarhöfundurinn sem segir það líka hafa hjálpað að fara af stað með það í huga að það væri ekki endilega víst að allt myndi ganga vel. Við nutum þess að borða mexíkóskan mat í rólegheitum, dreypa á Margarítu og borða flögur með „guacamole“ á meðan mamma rifjaði upp að okkar beiðni,  minningar úr æsku sinni og hvernig þau pabbi kynntust. Það var ekki allt fullkomið, auðvitað voru skoðanir stundum skiptar um hvert ætti að fara til að borða og það olli fjaðrafoki þegar það kom í ljós að hálftíma fyrir brottför frá hótelinu átti mamma alveg eftir að pakka. Við urðum að einhenda okkur í að bjarga því. En sum sé, það hjálpaði að gera ráð fyrir að vandamál gætu stungið upp kollinum og það að taka sér reglulega frí frá hvert öðru og nægilegan hvíldartíma skipti líka máli.

Kvöld eitt, eftir góðan dag á ströndini, þegar maðurinn minn spurði mömmu hvað hefði verið það besta og það versta við daginn, sagði hún að hápunkturinn hefði verið að uppgötva hvað hún ætti yndislega fjölskyldu.

 

Ritstjórn júlí 19, 2019 10:37