Tengdar greinar

Hvernig viltu lifa lífinu eftir sextugt?

Mörg okkar sem eru um sextugt  og komin á þriðja æviskeiðið velta fyrir sér, hver næstu skrefin í lífin eigi að vera. Hvað ætlum við að gera í framtíðinni? Sum hafa áhuga á að stofna fyrirtæki, eða skrifa bækur. Önnur langar til að fara á eftirlaun, slaka á eða ferðast. Enn önnur vilja eyða tíma með fjölskyldunni, stunda heilsurækt eða sjálfboðaliðastarf.

Möguleikarnir eru óþrjótandi, allt frá því að gera smávægilegar breytingar á lífinu eins og það er núna til þess að gerbreyta því. Þannig hefst grein á bandaríska vefnum Sixty and me, en hún fjallar um þær breytingar sem verða a högum okkar eftir sextugt og það sem vil viljum gera við lífið.

En hvað sem fólk ákveður að gera á þessum aldri, segir greinarhöfundurinn, sem er kona og hefur unnið mikið með konum. Hún segir það sína reynslu að allar konurnar eigi ákveðna hluti sameiginlega.

  1. Þær séu að leita að einhverju sem er gefandi fyrir þær að taka sér fyrir hendur á þessu æviskeiði.
  2. Þær vilji gjarnan taka frá tíma á hverjum degi til að gera eitthvað sem veitir þeim ánægju.
  3. Þær séu oft ekki klárar á því hvað nákvæmlega þær vilji gera.

Greinarhöfundurinn segir þrjú lykilatriði geta hjálpað okkur að halda áfram leitinni að ríkulegra og skemmtilegra lífi á þriðja æviskeiðinu, alveg án tillits til þess hvert hugurinn síðan ber okkur.

Að vera til staðar- lifa í núinu

Hún greinir frá því að á síðsta ári hafi hún verið farin að gæla við þá hugmynd að minnka smám saman við sig vinnu, til að hafa meiri tíma fyrir fjölskylduna, einkum barnabörnin. Þá greindist ömmustelpan hennar með sykursýki. Það varð til þess að hún hraðaði þessum áformum sínum og síðast liðið sumar var hún nánast hætt að vinna.

Á meðan þetta gekk allt yfir, lofaði hún sér því að vera meira til staðar í lífinu og lifa í núinu. Hún uppgötvaði að það vantaði mikið uppá að hún hefði gert það fyrr á ævinni. Hún hafði verið á hlaupum allt sitt líf á eftir einhverju nýju , haft stöðugar áhyggjur af einhverju eða einhverjum og hugsað meira um hvað hún ætti að vera að gera, í stað þess að vera í núinu og njóta þess sem hún var að gera. Já hana langaði miklu meira að gera eitthvað annað, en það sem hún var að fást við. Niðurstaðan hennar var að fyrir vikið hefði hún misst af ýmsu sem hefði getað veitt henni ánægju í lífinu.

Þar af leiðandi finnst henni það gott fyrsta skref fyrir alla, að vera til staðar, lifa í núinu. Veita því athygli sem er að gerast einmitt núna. Hlusta á masið í barnabörnunum og njóta þess. Taka eftir náttúrunni og ganga berfætt í grasinu þegar það er hægt.

Það sé svo mikilvægt að temja sér að lifa í núinu. Upplifa hvernig það er – og ýmislegt annað skemmtilegt mun fylgja í kjölfarið.

Taktu frá tíma fyrir sjálfa þig á hverjum degi

Við erum alltof upptekin við það á hverjum degi að bregðast við þörfum annarra. Það hefur oft endað með því að við spyrjum okkur að því í lok dags, hvert dagurinn hafi eiginlega farið.

Taktu tíma í að leggja niður fyrir þér verkefnið sem þú ætlar að fást við á næstu árum, segir greinarhöfundurinn og notaðu tímann sem þú tókst frá til að skipuleggja það.

  • Farðu yfir næstu skref sem þú ætlar að taka til að ná markmiðum þínum í verkefninu.
  • Haltu áfram að vinna í verkefninu þínu.
  • Finndu hópa sem tengjst málefninu sem þú ætlar að sinna.
  • Farðu á námskeið, ef það hjálpar þér til að ná árangri í verkefninu.

Ef þú ert hins vegar ekki viss um hvað þú ætlar að leggja stund á er hægt að nota tímann sem þú hefur tekið frá fyrir þig, til að:

  • Hugsa og nótera hjá þér
  • Skoða ýmsa möguleika
  • Prófa ákveðna hluti, til að athuga hvort þeir henta þér.

Taktu tímann þinn frá í dagbókinni þinni eða kalendernum og berðu sömu virðingu fyrir honum og tímunum sem þú tekur frá í annað, svo sem fundi eða að fara til tannlæknis. Mörg okkar kunna ekki að setja okkur sjálf í forgang, en nú er kominn tími til að gera það.

Skapaðu venju eða rútínu

Oft er það þannig að ef við gerum smá breytingu á lífinu á einu sviði, veldur það dómínó áhrifum á öllum öðrum sviðum. Fyrir ykkur sem eruð kannski ekki alveg viss um hvað þið ætlið að gera næst, gæti það verið frábær byrjun að koma sér upp nýjum vana.

Svo getur verið að þið séuð hæstánægð með lífið eins og það er. Þið náið að eyða  mátulega miklum tíma með fjölskyldunni, eruð komin á eftirlaun eða enn að vinna og ánægð með það. Þið getið ferðast eins og þið vilið og ykkur gengur vel að sinna fólkinu í kringum ykkur, til að mynda eldri foreldrum. En myndi langa til að drífa ykkur á fætur þegar klukkan hringir og fara að stunda gönguferðir daglega.

Greinarhöfundur segist sjálfur vera að temja sér að ganga reglulega í að minnsta kosti 30 mínútur á dag og klukkutíma suma daga. Sumar vikur takist þetta en aðrar vikur takist það ekki. En að meðaltali gangi hún fjórum sinnum í viku.

Hún segist taka eftir því að sér líði betur þá daga sem hún gengur. Hún sé glaðari, sofi betur og borði hollari mat, sem allt stuðli að betri heilsu. Hún hlusti á hljóðbækur og hlaðvörp á meðan á göngutúrnum standi, njóti umhverfisisns og oft kvikni ýmsar skemmtilegar hugmyndir á göngunni sem hún deili með vinkonum sínum.

Það að gera gönguferðina að daglegum vana, hafi haft mikil og góð áhrif á líf hennar.

Mörgum finnist erfitt að koma sér í gang en svona geti bara ein lítil breyting haft ótrúlega mikil áhrif.

Ritstjórn febrúar 23, 2023 07:00