Tengdar greinar

,,Í fyrstu var ég líklega bara orgelsmiður landsbyggðarinnar“

Björgvin og Margrét á smíðaverkstæðinu á Stokkseyri. Þar gætir ýmissa skemmtilegra og gamalla hljóðfæra og muna.

Orgelsmiðjan hóf starfsemi sína á Íslandi árið 1986. Fyrirtækið er í eigu Björgvins Tómassonar orgelsmiðs en í byrjun fólust verkefni Björgvins orgelsmiðs aðallega í harmóníumviðgerðum og stillingum á pípuorgelum. Fyrsta stóra verkefnið hófst í byrjun ársins 1988 þegar fyrsti samningur um nýsmíði á pípuorgeli var gerður við sóknarnefnd Akureyrarkirkju. Um var að ræða 5 radda orgel með einu hljómborði og fór vígsla þess fram þann 23. október sama ár. Í kjölfarið fylgdu tvö tveggja borða hljóðfæri, annað í Ólafsfjarðarkirkju og hitt í Fáskrúðsfjarðarkirkju. Fyrstu sex hljóðfærin voru smíðuð í kjallara íbúðarhúss fjölskyldunnar í Mosfellsbæ, en sumarið 1991 var fjósið að Blikastöðum í Mosfellsbæ tekið á leigu og fór starfsemin þar fram næstu 14 árin. Árið 2005 flutti starfsemin á Stokkseyri en Björgvin hreifst af staðnum og ákvað að flytja þangað.

Þar starfa í dag auk Björgvins Margrét Erlingsdóttir eiginkona hans sem er rafvirki, Jóhann Hallur Jónsson smiður og sonur Björgvins, Júlíus Óttar. Verkstæðið var opnað formlega þar á fæðingardegi Páls Ísólfssonar þann 12. október, en hann var fæddur í Símonarhúsum á Stokkseyri 1893. Páll Ísólfsson var mikilsvirt tónskáld, orgelleikari, píanóleikari, hljómsveitarstjóri og söngstjóri. Páll gegndi fjölda starfa og var einn helsti forystumaðurinn í íslenskum tónlistarmálum á 20. öld. Páll kom til Reykjavíkur árið 1908 og lærði tónlist hjá Sigfúsi Einarssyni. Hann nam einnig í Þýskalandi.

Eftir tónmenntakennarapróf frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 1977 hóf Björgvin kennslustörf við Varmárskóla í Mosfellssveit og Tónlistarskóla Mosfellshrepps. Haustið 1978  hélt Björgvin Tómasson  til náms í orgel- og harmóníumsmíði í Þýskalandi. Meistari Björgvins í faginu var Reinhart Tzschöckel í Stuttgart. Óhætt er að fullyrða að það hafi verið Björgvini til mikils happs, því fjölbreytni verkefna á verkstæði hans var mikil. Þar voru smíðuð allt frá minnstu gerðum pípuorgela upp í stærstu kirkjuorgel. Að loknu sveinsprófi í janúar 1983 frá Orgelbau Fachschule Ludwigsburg starfaði Björgvin áfram hjá meistara sínum til júlí 1986. Á þeim tíma voru smíðuð nokkur orgel sem fóru til Íslands og tók Björgvin þátt í þeirri smíði og síðan uppsetningu þeirra. Áður hafði Reinhart Tzschöckel sett upp nokkur orgel í íslenskar kirkjur á vegum hinnar þekktu orgelsmiðju E.F.Walcker & Cie.

Björgvin segir að tónlistarnámið hafi verið liður í því að hann fór að hugleiða að læra að smíða orgel.  ,,Ég byrjaði að spila á trompet í lúðrasveit og síðan í nám í píanóleik eftir hvatningu frá Ólafi Vigni Albertssyni og síðan í tónmenntakennaradeild. Þegar ég var 22 ára fannst mér að ég þyrfti að gera eitthvað meira, fór m.a. í kórsöng, aðallega í blönduðum kórum. Þegar ég kem heim frá námi í Þýskalandi fór ég að læra söng við Söngskólann í Reykjavík. En auk hljóðfæraleiks og söngs hafði ég alltaf mikinn áhuga á smíðum svo segja má að eftir nám í við orgelsmíði hafi ég sameinað þessi tvö áhugamál, tónlistina og smíðar.

Þegar ég var við nám í Reykjavík kynntist ég Leifi Magnússyni píanóstillara og var stundum að keyra hann í hús í Mosfellssveitinni en hann var sem kunnugt er blindur. Mér fannst það spennandi sem hann var að gera. Ég var því að hugleiða í fyrstu að fara út og læra píanóstillingar og leitaði fyrir mér í Danmörku, en það var mjög torsótt og þá datt mér í hug að fara og læra orgelsmíði, en hér var enginn sem kunni það fag og raunar er ég sá eini hérlendis í dag. Smátt og smátt lærir maður að stilla þessi hljóðfæri að mestu eftir eyranu, eyrað fór að þjálfast við það að heyra lærimeistarann í Stuttgart stilla orgel.“

Fyrsta orgelið sem Björgvin smíðaði á höfuðborgarsvæðinu var á heimaslóðum í Lágafellskirkju. Fyrstu verkefnin voru á landsbyggðinni, minni áhugi virtist á að nýta sér hæfileika hans á höfuðborgarsvæðinu, en það átti eftir að breytast. ,,Ég sagði þá stundum við sjálfan mig að líklega væri ég bara orgelsmiður landsbyggðarinnar! Það var svolítið sérkennilegt að sóknarnefndir á höfuðborgarsvæðinu voru að fara í skoðunarferðir til útlanda þegar til stóð að láta smíða orgel, en sóknarnefndir af landsbyggðinni fóru ,,bara“ til Reykjavíkur og í heimsókn í fjósið á Blikastöðum þegar verkstæðið mitt var þar til að kynna sér mína smíði og gæði þeirra. Enn er vissulega farið til útlanda, t.d. stendur til að smíða orgel fyrir Grafarvogskirkju í Ungverjalandi þrátt fyrir að engin reynsla er að orgelum hérlendis þaðan. Það kostar um 110 milljónir króna, það hefði verið auðvelt að smíða orgel austur á Stokkseyri fyrir þá upphæð.“

Þegar þú lítur til baka, hefðir þú getað hugsað þér annað ævistarf?

,,Þetta er mjög skemmtilegt og gefandi starf, svo það er erfitt að hugsa sér eitthvað annað. Ef ég hefði hugsað mér langan námstíma og móttökurnar þegar ég kom aftur heim frá Þýskalandi, þá er ég ekki viss um að

Sveinsstykki Björgvins upp á hillu á verkstæðinu.

ég hefði treyst mér til að fara út til náms. Ég hefði getað hugsað mér betri aðstoð og skilning þegar ég kom heim. En kannski er enginn spámaður í sínu föðurlandi. Það greip mig tímabundið viss höfnunartilfinning. Nú er hún ekki til staðar, en síðasta orgelið var smíðað og sett upp í Keflavíkurkirkju. Í því orgeli er flókinn tölvu- og tæknibúnaður og ýmislegt sem hægt er að gera sem ekki þekkist í hefðbundnum eldri orgelum. Til dæmis má tengja spjaldtölvur þráðlaust við hljóðfærið og fletta nótum á skjánum með því að ýta á lítið fótstig. Að auki er annað spilaborð staðsett á neðri hæð kirkjunnar þar sem organistinn getur setið og leikið  sem síðan ómar úr pípum stóra orgelsins á efri hæðinni.“

Grænt orgel

,,Þrátt fyrir nútímalega tæknina sem einkennir hljóðfærið er útlit þess að mestu hefðbundið. Tuttugu og sjö pípur eru sjáanlegar en öðrum er komið fyrir þar sem gamla orgelið stóð og einnig í gamla eldhúsinu á loftinu sem Björgvini fannst tilvalið að nýta undir hinar rúmlega 1.100 pípur, vindhlöðurnar, þynnurnar og allt það sem fylgir því að setja saman orgel. Orgelið í Keflavík er þó frábrugðið öðrum orgelum sem Björgvin hefur smíðað að því leyti að það er málað grænt á litinn.

 Því miður hugsa sumir arkitektar nýrri kirkna ekkert um það að í kirkjunni þurfi að vera orgel, það er nánast ekkert hugsað um það sem stundum veldur vissum vandræðum. Þar er þó Guðríðarkirkja algjör undatekning þar sem orgelsmiður var með í ráðum allt frá upphafi hönnunar kirkjunnar. Nú er viss lágdeyða í orgelsmíði en starf við stillingar og fleira. Á um 20 ára fresti þarf að hreinsa orgel ef vel á að vera.  Þessari lágdeyðu kann að valda þetta ástand nú í heilbrigðismálum þjóðarinnar. En það koma tímar og koma ráð,“ segir Björgvin Tómasson.

Hvað er og hvernig virkar kirkjuorgel?

Þýska orðið orgel er dregið af gríska orðinu organon sem þýðir verkfæri. Orgel er elsta hljómborðshljóðfærið og upphaf þess má rekja til ársins 246 f.Kr. Ktesibios frá Alexandríu í Egyptalandi á heiðurinn af smíði fyrsta orgelsins en hann var uppfinningamaður og lagði stund á eðlisfræði. Hann nefndi hljóðfærið sitt „hydraulos“ eða vatns-aulos. Aulos var mjög algengt hljóðfæri á þessum tíma og má einna helst líkja því við óbó. Ktesibios notaði röð af slíkum pípum í hljóðfærið sitt, þær voru allar mismunandi langar og gáfu þar af leiðandi frá sér mismunandi háa tóna. Vatn var notað til þess að ná upp loftþrýstingi í hljóðfærið og þaðan kemur nafngiftin vatnsorgel.

Þýski tónlistarfræðingurinn Curt Sachs (1881-1959) skilgreinir orgel á eftirfarandi hátt „orgelið er lofthljóðfæri (blásturshljóðfæri) með röð eða raðir af eintóna flautum sem hver fyrir sig er stillt í ákveðna tónhæð. Loftið fá flauturnar (pípurnar) úr belg og er loftstreyminu stýrt inn í þær frá svokölluðu hljómborði.“ Þessi skilgreining telur upp þá þrjá meginþætti sem þarf til þess að hægt sé að nefna hljóðfærið orgel, það er pípur, belg og hljómborð.

Verið er að laga alla steinda glugga í Kópavogskirkju og senda þá til Þýskalands. Ekki er hægt að komast að glugga aftan við orgelið nema færa það sem er mikið verk. Hér stendur Björgvin við það.

Harmóníum hljóðfærið gengur á Íslandi gjarnan undir nafninu orgel eða stofuorgel. Þetta hljóðfæri hefur bæði hljómborð og belg en tóngjafi þess eru málmfjaðrir og því ekki um eiginlegt orgel að ræða. Harmóníum sem á íslensku er líka kallað orgel eru miklu minna hljóðfæri en pípuorgel. Þau henta bæði sem kirkjuhljóðfæri og til notkunar í heimahúsum. Til eru tvær megingerðir af harmóníum. Annars vegar eru það þrýstiloftshljóðfæri og hins vegar hljóðfæri sem virka á sog. Þrýstiloftshljóðfærið var fundið upp í kringum árið 1830 en amerískir framleiðendur fundu upp hljóðfærin sem virka á sog og fóru að fjöldaframleiða þau á árunum 1850-1860. Þau urðu mjög vinsæl og fóru evrópskir framleiðendur mjög fljótlega að framleiða þau einnig. Báðar þessar hljóðfæragerðir virka á sama máta, það er vindur leikur um tónfjaðrir af mismunandi lengdum. Fjaðrirnar byrja að sveiflast og við það myndast tónn. Mikill meirihluti af þeim hljóðfærum sem flutt hafa verið til Ísland eru þau sem virka á sog. Tónn þeirra er mun mildari og hentaði að öllum líkindum betur sem kirkjuhljóðfæri og til notkunar í heimahúsum. Einnig voru þau mun ódýrari í framleiðslu.

——

Það var svolítið sérkennilegt að sóknarnefndir á höfuðborgarsvæðinu voru að fara í skoðunarferðir til útlanda þegar til stóð að láta smíða orgel, en sóknarnefndir af landsbyggðinni fóru ,,bara“ til Reykjavíkur.

Ritstjórn apríl 23, 2021 09:18