Tengdar greinar

Jóhann Sigurjónsson fyrrverandi forstjóri Hafrannsóknarstofnunar

Jóhann Sigurjónsson var forstjóri Hafrannsóknastofnunar í átján ár. Þegar stofnunin var sameinuð Veiðimálastofnun árið 2016, ákvað hann að söðla um og réðist til starfa hjá utanríkisráðuneytinu og þar hefur hann verið í tvö ár.  Þetta er ekki í fyrsta sinn sem hann vinnur fyrir ráðuneytið. „Þegar ég var á Hafró, var ég fenginn til að fara fyrir fiskveiðisamningum okkar, árið 1996. Ég var aðalsamningamaður Íslendinga í þessum efnum í 2 ár.  Þá stóð Smugudeilan sem hæst, en þar áttum við í deilum við Norðmenn og Rússa um veiðar okkar í Barentshafi.

Þegar Smugudeilan leystist ákvað Jóhann að fara aftur á fyrri vettvang í Hafrannsóknastofnun og varð forstjóri stofnunarinnar árið 1998. Hann segir að Íslendingar séu enn að veiða í Barentshafi á grundvelli samninganna sem gerðir voru. „Það eru milljarða verðmæti á hverju ári sem fengust út úr þessum samningum, sem voru nú ýmsar hliðar á, sem ég ætla ekki að fara nánar út í hér“, segir Jóhann og hlær.

Við samruna Hafrannsókna- og Veiðimálastofnunar, fluttist Jóhann yfir í utanríkisráðuneytið. Þar fer hann fyrir Málefnum hafsins, sem er samstarfsvettvangur þriggja ráðuneyta, utanríkis-, sjávarútvegs- og umhverfisráðuneytisins.  Hann er einnig starfsmaður utanríkisráðuneytisins í hafréttarmálum og hefur sinnt Norðurhafsmálum. „Það er mikið að gerast í Norður-Íshafi“, segir hann. „Þar er að opnast stórt nýtt haf. Samningaviðræður um stjórn fiskveiða og rannsóknir á þessu svæði hafa staðið í tvö ár og lauk með samningi núna í nóvemberlok.  Það var mjög ánægjulegt að taka þátt í því“, segir hann.

Jóhann segist ekki kominn á eftirlaunatempó enn þá. „Auðvitað er ég ekki að stýra stórri stofnun, þetta er svolítið annað. En mér bauðst að nota þarna reynslu mína og þekkingu og tel mig vera lukkunnar pamfíl. Einhvern tíma hættir maður að vinna, ég verð ekki áttærður í ráðuneytinu“ segir hann og bætir við að hann sé ný orðinn afi. „Þetta er fyrsta barnabarnið, Jóhann Helgi. Hann er tveggja ára og þriggja mánaða. Maður fyllist lotningu yfir þessu sköpunarverki. Ég er einmitt að fara að sækja hann á leikskólann eftir tvo tíma, áður en ég fer til New York á morgun“, segir Jóhann, en hann og kona hans Helga Bragadóttir arkitekt eiga þrjú uppkomin börn, sem búa öll á Íslandi eins og staðan er núna.

„Ég var forstjóri Hafró í átján ár. Það er langur tími og það var mikið fjör, alger forréttindi að fá að vera í því“, segir Jóhann þegar hann er spurður um hvernig þessi tími hafi verið. „Sumum fannst ótrúlegt að ég gæti unað mér í þessu, því oft stóðu deilur um fiskirannsóknirnar og fiskveiðistjórnunina, en þetta var svo mikilvægt, maður var að vinna fyrir framtíðina og afkomendur okkar. Það gaf manni kraft. Það var svo mikilvægt að ná utan um þetta og standa í lappirnar“, segir Jóhann sem er þakklátur fyrir að hafa fengið að nota krafta sína á þessum vettvangi á meðan hann hafði nóg af þeim! Hann segir að á þessum árum hafi stofnunin átt sinn þátt í að gerbreyta fiskveiðistjórnarumhverfinu og deilurnar séu ekki jafn miklar og áður. „Fiskistofnarnir hafa ekki verið sterkari en nú um áratuga skeið, sem er árangur sem allir geta verið stoltir af. Svo ég skildi sáttur við Hafrannsóknastofnun, sem hlýtur að vera mikils virði. En vissulega sakna ég samstarfsfólks og vina“, segir hann.

Ritstjórn febrúar 14, 2018 10:37