Kenndi Íslendingum að syngja þjóðsönginn

Árni kominn í ham í brekkusöngnum.

„Ég hef alla ævi farið á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum og þetta árið verður engin undantekning frá því,“ segir Árni Johnsen blaðamaður, fyrrverandi þingmaður og lífskúnstner.

Sunnudagskvöldið var afgangsstærð

Þjóðhátíð í Eyjum og Árni eru á sinn sérstaka hátt samofin í hugum þúsunda Íslendinga. Árni stjórnaði fyrsta brekkusöngnum á Þjóðhátíð árið 1977 og var við stjórnvölinn í 37 ár. Í dag er  brekkusöngurinn eitt vinsælasta atriðið á hátíðinni. „Þetta kom nú til vegna þess að sunnudagskvöldið var afgangsstærð á þjóðhátíð. Menn vissu ekki alveg hvað ætti að gera og þá kom þessi hugmynd upp. Ég var upphafsmaðurinn,“ segir Árni. Brekkusöngurinn sló í gegn og það rækilega. Í stað þess að menn færu að tygja sig heim af þjóðhátíð á sunnudegi streymdi fólk út í Eyjar til að taka þátt í söngnum. Menn leigðu flugvélar og komu frá Ísafirði, Akureyri og Egilsstöðum. „Eitt af því sem ég kenndi Íslendingum var að syngja þjóðsönginn. Þegar lagið við hann var samið var það í G-dúr og það var ekki á færi nema útlærðra að syngja þjóðsönginn, enda sungu hann engir nema kórar við hátíðleg tækifæri. Aðrir en útlærðir söngvarar sprungu á limminu þegar þeir reyndu að syngja lagið. Ég útsetti hann í C-dúr og þá gat almenningur loksins sungið lagið enda hefur það verið sungið allar götur síðan sem síðasta lagið í brekkusöngnum. Í dag geta allir sungið þjóðsönginn hvar sem er og hvenær sem er.“ Árni segir að minningarnar úr brekkusöngnum séu margar og gleðilegar. „Ég man alltaf eftir því þegar að Karl Sigurbjörnsson fyrrverandi biskup kom eitt sinn til mín eftir brekkusöng og sagði að það væri ótrúlegt hvernig ég færi að því að hafa hundrað prósent stjórn á hundrað prósent kaosi.“ Til að stjórna brekkusöng þurfa menn að hafa 40 til 50 lög á takteinunum. „Maður tekur þetta í einni lotu. Besta blandan eru eldri lög og nýrri lög sem allir þekkja. Það er ekki erfitt að stjórna söngnum. Maður setur sig í ham og þegar maður sér að brekkan er farin að rugga þá veit maður að rétta stemmingin er komin. Það er ekkert erfitt sem maður gerir af gleði,“ segir Árni.

Myndir til að hengja á tjaldveggina

Árni segir að það sem geri þjóðhátíð svo sérstaka séu allar hefðirnar. Skreytingarnar í Herjólfsdal eru hefðbundnar og skemmtiatriðin líka. „Hvítu eyjatjöldin eru eitt af því sem gerir þjóðhátíð svo sérstaka. Þá tjalda eyjaskeggjar inn í dal og búa sér þar lítið heimili þá daga sem hátíðin stendur. Hver og einn tekur með sér eldhúsáhöld, borð og stóla. Sumir taka líka myndir til að hengja á tjaldveggina. Svo er það bálkösturinn á Fjósakletti á föstudagskvöldinu, flugeldasýning á laugardagskvöldi og á sunnudagskvöldinu eru tendruð blys sem slá töfrabirtu á dalinn. Eitt blys er tendrað fyrir hvert ár sem þjóðhátíð hefur farið fram, í ár verða þau því 144. Svo eru aðrir fastir liðir eins og Lúðrasveit Vestmannaeyja, messan og bjargsigið og dansleikirnir á kvöldin.  Þó að þjóðhátíð hafi að mörgu leyti haldist óbreytt áratugum saman finnst mér svolítið vera farið að slakna á hefðunum. Þetta á að vera hátíð sem byggist á því samfélagi sem hún er sprottin upp úr, hún á ekki að vera með alþjóðlegum blæ. Mér hefur þótt svolítið að þær hljómsveitir sem koma fram á hátíðinni flytji of mikið af erlendri tískutónlist. Það er minna hugsað um skemmtiatriði frá heimamönnum og íslensk atriði. Þetta á að vera sambland af léttleika og alvöru. Þannig er þetta best.“

Tvisvar sinnum brjálað veður

Árni segir að menn skemmti sér á ósköp svipaðan hátt í dag og þeir gerðu fyrir áratugum. „Þeim sem sækja hátíðina heim hefur fjölgað gríðarlega og auðvitað breytist ýmislegt við það. Það hefur komið fyrir að drykkjuskapur hefur farið úr böndunum en ég hef líka verið á hátíðum þar sem ekki hefur sést vín á nokkrum manni. Veðrið skipar líka stóran sess í hátíðahöldunum. Við höfum yfirleitt verið afskaplega veðurheppin á þjóðhátíð. Það er allt í lagi þó það rigni smávegis fólk tekur bara með sér hlífðarfatnað það eiga allir ágætis fatnað í dag. Ég held að það hafi ekki  nema svo sem tvisvar sinnum, verið brjálað veður á þjóðhátíð undanfarna áratugi. Það var brjálað veður 1969 þá fuku tjöld og 2002 var veðrið svo vont að hátíðargestir leituðu skjóls í heimahúsum í Eyjum og í íþróttamiðstöðinni eftir að tjöld þeirra fuku út í veður og vind. Hátíðirnar hafa að mestu gengið slysalaust, það hefur fylgt þeim ákveðin farsæld. Eyjastemmingin er svo sterk og það fylgir henni svo mikill kraftur. Við verðum að muna að það smæsta er alltaf næst guði. Það sem er svo sérstakt við Eyjarnar er krafturinn sem hér er. Hann er ekki í hafinu, vindinum eða náttúrunni hann er í birtunni. Birtan hér er ótrúlega sterk, margbreytileg og orkugefandi. Grænlendingar tala aldrei um veður þeir vita að það kemur. Eyjamenn tala aldrei um birtuna en þeir vita að hún spilar stóran þátt í líðan þeirra,“ segir Árni að lokum.

 

Ritstjórn ágúst 3, 2018 09:08