Krefjast þess að lægstu eftirlaun hækki afturvirkt í 317 þúsund á mánuði

Efnt hefur verið til undirskriftasöfnunar á netinu, þar sem þess er krafist að enginn fái minna en lágmarkslaunin sem gilda í landinu, en um áramót verða eftirlaun eldra fólks frá Tryggingastofnun, 78 þúsund krónum lægri en lágmarkslaun samkvæmt kjarasamningum, en þau hækkuðu 1. apríl síðast liðinn. Gunnar Smári Egilsson formaður framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokksins, segir að það sé óformlegur hópur fólks sem að undirskriftunum standi, hópur sem vilji rétta hlut eftirlaunafólks í landinu og öryrkja. „Vonandi lýsa félög og samtök yfir stuðningi á næstu dögum. Hugmyndin er að þetta sé allra og einskis“ sagði hann í samtali við Lifðu núna.

Í texta með undirskriftasöfnuninni segir:

Samkvæmt kjarasamningum hafa lágmarkslaun á Íslandi verið 317 þús. kr. á mánuði frá 1. apríl síðastliðnum, og þau hækka í 335 þús. kr. 1. apríl á næsta ári.

Í dag eru lægstu eftirlaun frá Tryggingastofnun aðeins rúmlega 248 þús. kr. á mánuði eða tæplega 69 þús. kr. lægri en lágmarkslaun. Samkvæmt fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar hækka lægstu eftirlaun ekki um nema 3,5% um áramótin og verða því rúmlega 78 þús. kr. lægri en lágmarkslaun í landinu eftir 1. apríl næstkomandi.

Munurinn á lægsta örorkulífeyri og lágmarkslaunum er eilítið minni, rúmlega 66 þús. kr. frá 1. apríl 2019 og verður tæplega 76 þús. kr. frá 1. apríl næstkomandi.

Öllum ætti að vera ljóst að með því að láta öryrkja og eftirlaunafólk hafa tekjur sem eru langt undir lágmarkslaunum er verið að dæma tug þúsundir af varnarlausasta fólki landsins til grimmrar fátæktar.

Við mótmælum öll þessum ráðagerðum ríkisstjórnarinnar og krefjumst þess að lægstu eftirlaun og örorkulífeyrir hækki afturvirkt frá 1. apríl 2019 upp í 317 þús. kr. og hækki frá 1. apríl næstkomandi upp í 335 þús. kr. á mánuði.

Það er varla hægt að lifa af lágmarkslaunum og það á ekki að þekkjast að nokkur sé með lægri tekjur en lágmarkslaun.

Höfnum mannvonsku stjórnvalda og stöndum með fátækasta fólkinu. Krafan er: Enginn með minna en lágmarkslaun.

 

Ritstjórn nóvember 26, 2019 07:32