Kristján Eldjárn og Halldóra bjuggu í húsinu

Lifðu núna birtir vikulega pistla Guðjóns Friðrikssonar, sem hann kallar Hús dagsins. Þetta hús er númer 138 af þeim 160 húsum sem hann hefur birt upplýsingar um á Facebook síðu sinni.

Hús dagsins (138). Rauðarárstígur 40 og 42 í Reykjavík. Milli Grettisgötu og Flókagötu er röð sambyggðra fjölbýlishúsa að vestanverðu við Rauðarárstíg. Húsin, sem voru öll steinuð eða skeljuð að utan, eru orðin meira en 80 ára gömul. Flest voru þau fyrir nokkrum árum orðin mjög lúin og klæðning þeirra flekkótt. Allra síðustu ár er eins og þau séu að vakna til nýs lífs enda á besta stað í bænum. Hvert þeirra af öðru eru tekin til meðferðar og endurnýjunar. Eitt af þeim, sem hér er til umræðu, er ljómandi fallegt hús á Rauðárstíg 40-42 með 12 íbúðum í tveimur stigagöngum. Arkitekt hússins var ekki af verri endanum. Hann var Þorleifur Eyjólfsson sem nam arkitektúr í Buxtehude á dögum Weimarlýðveldisins í Þýskalandi og hefur hann komið við sögu oftar en einu sinni í húsasögum mínum. Húsið var teiknað af honum árið 1938 en Helgi bróðir hans byggði húsið. Árið 2016 var það svo allt tekið í gegn, þakið og þakkantur voru endurnýjuð, skipt um flesta glugga, gert við múrinn og húsið endursteinað. Fyrirtækið Verksýn sá um framkvæmdir. Ekki verður hér hægt að rekja hina fjölmörgu íbúa sem búið hafa í stigagöngunum tveimur. Þó má nefna að á nr. 40 bjó Guðrún Halldórsdóttir ljósmóðir frá upphafi og rak þar áratugum saman fæðingarheimili á eigin kostnað. Í því húsi bjuggu líka Kristján Eldjárn þjóðminjavörður, síðar forseti Íslands, og Halldóra kona hans áður en þau fluttu í Þjóðminjasafnið. Seinna var lengi tannlæknastofa í húsinu. Tannlæknar þar voru Friðleifur Stefánsson, faðir Sivjar fyrrverandi ráðherra, og Ingunn systir hennar. Á nr. 42 má nefna að Gerður Kristný skáldkona bjó þar í ein sex ár.

 

 

Ritstjórn október 24, 2020 13:08