Líf í hjólastól

Matthildur Björnsdóttir skrifar frá Adelaide Ástralíu

Þegar við erum ung og líkaminn virkar fullkomlega eða næstum fullkomlega hjá flestum hugsum við sjaldan eða aldrei um hvernig líkaminn gæti orðið þegar við verðum eldri. Við sjáum eldra fólk samt með sínar tæknilegu bilanir á limum og slíku, en í huganum teljum við að það muni ekki gerast hjá okkur!

En svo einn daginn áratugum síðar fara mörg okkar að upplifa að liðamót eru ekki eins góð og áður og aðrir hlutir líkamans veita ekki sömu svörun og áður. Stundum bila kerfin, taugar eða hjarta og æðakerfin eða að eitthvað dularfullt gerist sem læknar vilja ekki veita neina athygli.

Læknar sem vinna í heilsu-gæslu-stöðvum þar sem meira er metið að þeir hali inn sem flesta  sjúklinga á klukkutíma fyrir lyfseðla og einkenni sem er auðvelt að sjúkdómsgreina, því að þannig fær stöðin og læknarnir mest af peningum frá yfirvöldum. Þá er enginn tími né nenna til að skoða af hverju þessi eldri kona hefur verið að verða meðvitundarlaus, detta og rísa upp aftur ótal sinnum, eða ef eitthvað annað dularfullt er að gerast með annan sjúkling. Þeir hafa ekki tíma né nennu til að pæla í því, af því að það er ekki á lista yfir það sem hægt er að greina í hvelli. Svo að sjúklingnum er sagt að hann eða hún líti bara of vel út til að það sé eða geti verið eitthvað að honum, og engin tilvísun til annars læknis í boði. Þá er gott ytra útlit orðið að óvini. Það er kaldhæðnislegt að heyra að maður líti of vel út sem gamall, þegar maður var ekki talinn líta nógu vel út sem barn og unglingur.

Svona er nú það, og svo koma afleiðingarnar af slíkri vanrækslu í formi skurðaðgerða á elleftu stundu þar sem líf einstaklings er framlengt, og þá endar fólk stundum með að nota göngugrind eða hjólastól.

Það hefur verið veruleiki minn síðustu fimm árin. Þegar jafnvægið var að fara sagði maðurinn minn að ég þyrfti að fá og ganga í göngugrind. Auðvitað vildi ég hana ekki, vildi bara verða betri, en ég varð að kyngja stoltinu. Svo hún varð þá lífgjöf mín fyrir ferðafrelsi, og leið til að upplifa samfélagið á nýjan hátt.

Hér í Adelaide upplifi ég að fólk er almennt mjög hlýtt, opið til samræðna og tilbúið að leggja þeim lið sem hafa einhverjar takmarkanir. Oft hafa einstaklingar veifað strætókortinu að vélinni fyrir mig, svo ekki sé minnst á hversu frábærir langflestir bílstjórarnir eru og glaðir að hjálpa með að fella göngugrindina saman og taka poka og töskur um borð í strætóinn. Oft sjá þeir líka um að veifa kortinu fyrir mann. Það eru ekki strætómiðar eins og ég var vön heldur eru miðarnir tölvuvæddir og ég sem mannvera yfir sextugt fæ frítt í strætó meiri hluta dags og um helgar.

Adelaide er frábær borg fyrir fólk með göngugrindur og hjólastóla því að hún er tiltölulega flöt og fólk með slík tæki kemst ferða sinna á flesta staði. Það er þó annað með að fara í hjólastól í strætó sem ég hef ekki gert.  Þá eru það bílar sem duga til að komast á milli staða, og í halla þarf ég að bakka upp. Það eru nokkrir hallar í verslunarmiðstöðinni sem ég fer mest í til að versla og hitta vini. Gæskuríkt fólk býður mér oft að ýta mér upp hallana, þegar það sér mig bakka upp þá og upplifir að það hljóti að vera erfitt. Það er samt mun auðveldara að bakka þá en að ýta sér upp þá með litlu hjólin fyrst. Getur samt auðvitað verið varasamt fyrir aðra ef þeir eru ekki meðvitaðir um umhverfi sitt, eins og til dæmis þeir sem eru límdir við símana sína. Ég vil ekki meiða neina með að bakka þá niður. Ég er ekki með augu í hnakkanum þó að ég gæti þess að horfa yfir öxlina eins og ég get um leið og ég ýti hjólinu til baka. Ég fæ líka stundum boð um að vera ýtt á jafnsléttu.

Þegar ég sé myndir af flestum borgum Evrópu sé ég að þær hljóti að vera illfærar fyrir þá sem nota hjólastóla til að fara um þar. Tröppur um allt og svo miklar brekkur.  Brekkur sem  eru áskorun fyrir samanleggjanlegan hjólastól, af því að það eru engir gírar og bara bremsa. Það væri erfitt að láta fæturnar sjá um viðnámið.  Maður getur bara sett örlítið viðnám í stóru hjólin með höndunum og gæti því runnið stjórnlaust niður mjög brattar brekkur, og velt öðrum um koll og skaðað. Það gæti orðið hröð óstýranleg buna með aðdráttarafli jarðar og enn meira fyrir mannveru sem hefur lifað með “vertigo” alla ævi.

Ég hef aldrei ekið bíl, bara barnavögnum, kerrum, innkaupakerrum og svo göngugrind og hjólastól. Það að sætta sig fyllilega við þessar tæknilegu bilanir líkamans er svo önnur æfing.

 

 

 

 

Ritstjórn október 24, 2016 10:43