Lífið er skemmtilegt!

Jana og Tómas á mynd frá 1996.

Kristjönu Geirsdóttur kannast margir, sem komnir eru á miðjan aldur, við að hafa séð. Jana, eins og hún er oftast kölluð, ber með sér að þar sem hún fer er fjör. Hún segist sjálf hafa lifað ótrúlega skemmtilega ævi, verið heppin með heilsuna og samferðafólk. Nú er þriðja aldursskeiðið hafið og Jana tekur það með trompi eins og flest annað. Hún bæði talar og hreyfir sig hratt en segist vera svo lánsöm að eiga eiginmann sem kunni að láta hana slaka á af og til. Jana tók lengi þátt í fyrirsætustörfum á vegum Model samtakanna og hefur sjálf haldið ótal tískusýningar sem frægt er. Hún hefur oft verið umtöluð, eins og títt er um þá sem hafa verið áberandi í íslensku samfélagi. Sér í lagi var umtalað þegar hún tók saman við sér 14 árum yngri mann og því sambandi var ekki spáð langlífi. Síðan eru liðin 25 ár og Kristjana og eiginmaður hennar, Tómas Freyr Marteinsson, hafa augljóslega lifað skemmtilegu lífi saman enda sækir líkur líkan heim. Þau kynntust í veitingabransanum og hafa búið saman og unnið saman öll þessi 25 ár. Þau hafa oft verið spurð að því hvernig það sé hægt en þau hafa rekið saman kaffihús, myndbandaleigu og séð um  veitingasali í golfskálum undanfarin 10 ár, alltaf saman. Eftir samtalið var augljóst að svarið við spurningunni hvernig þetta sé hægt er “kátína og bjartsýni”.  Þau eiga þá eiginleika sameiginlega og þannig er auðveldara að mæta hverju sem er.

Jana að fíflast með barnabarni.

Kristjana var áður gift Sveini Hjörleifssyni, hestamanni með meiru, og eignuðust þau saman tvö börn, Írisi Hervöru og Geir Óla, og nú eru barnabörnin orðin fimm. Sveinn er nú látinn en vinátta þeirra allra var alla tíð mikil. Sem dæmi fögnuðu þau Jana, Tómas og Sveinn nýju ári yfirleitt öll saman með börnum og barnabörnum á meðan Sveinn lifði. Tómas fór því í afahópinn þegar barnabörnin fóru að fæðast og nýtur þess mjög. Jana segir að það sé einmitt nánasta fjölskylda sem skipti hana mestu máli. “Sambandið við allt okkar fólk er gott og það er mikils virði. Það var ekki sjáflsagt þegar við kynntumst. Hann var 24 ára og ég 38. Allt hans fólk tók mér sérlega vel og mitt fólk honum. Tommi er yngstur en hann á fjórar eldri systur. Mamma hans sagði við mig að þegar hún hafi litið í augu hans nýfæddan hafi hún séð gamla sál,” segir Jana og hlær. “Samband okkar hefur þess vegna verið áreynslulaust og aldursmunurinn aldrei vandamál.”

Aldei verið í betra formi

Jana í módelstörfum fyrir Faco 1996.

Margir undruðust að sjá Jönu og Tómas bera út blöð af miklum móð fyrir nokkrum árum en öllum ber saman um dugnað hjónanna. Þegar Jana er spurð að þessu segir hún að þau hafi tekið þetta að sér tímabundið á árunum í kringum hrun. Þá voru þau að reka videoleiguna og gátu borið út á nóttunni og lagt sig svo áður en þau fóru til vinnu. Það hafi verið dásamlegur tími, sérstaklega á sumrin á björtum nóttum við fuglasöng og enginn nema þau hafi verið á ferli. Það hafi hins vegar verið erfiðara á veturna þegar þau þurftu að ösla snjó og hlaupa upp hæðir. Jana segir hlæjandi að þau hafi hins vegar aldrei verið í betra líkamlegu formi en þennan tíma sem þau báru út Fréttablaðið.

Golfið tók við 

Þar til fyrir þremur árum sáu þau Jana og Tómas um golfskálann hjá golfklúbbnum Setbergi en fluttu sig þá yfir til Golfklúbbs Garðabæjar þar sem þau sjá nú um veitingasalinn, þar með talið um allar veislur sem þar eru haldnar en salurinn er leigður út fyrir brúðkaup, fermingar afmæli o.fl. á veturna. Þau sakna vinafólksins í Setberginu en eru dugleg að halda vináttunni við og fara í heimsókn til þeirra. Á nýja vinnustaðnum er auðvitað líka óviðjafnanlega gaman af því þar sem Jana og Tómas eru er gaman.

Jana að sýna föt á samkundur þar sem Vigdís Finnbogadóttir og prinsessa nokkur voru áhorfendur.

Vignir Hlöðversson, matreiðslumeistari og vert og frændi Jönu bað þau að koma yfir. Þau ákváðu að slá til þótt þau hafi verið ánægð hjá Setbergi því auðvitað er gott að breyta til en það hafa þau reyndar ekki gert mikið af. Frændi Jönu er matreiðslumeistari og vert en af því Tómas hefur svo mikinn áhuga á matreiðslu fékk hann viðurnefnið “áhugavert” en Jana segir að Tómas sé óviðjafnanlegur kokkur.

Tómas er golfari en Jana hefur lítið sem ekkert stundað golf en er alltaf á leiðinni að byrja. Henni þykir samt alltaf jafngaman að vera innan um golfarana sem hún segir að sé sérlega skemmtilegt fólk. Allir séu að gera það sem þeim þykir skemmtilegast að gera þegar þeir eru í golfi. Jana hefur gífurlega reynslu í alls kyns veisluhöldum og kúnnarnir geta rólegir lagt það, sem þeim finnst vandamál, í hennar hendur og mætt rólegir í eigin veislur.

“Heyrðu, viltu ekki bara koma og vinna fyrir okkur”

Jana segir frá því að þegar hún var rétt að klára gagnfræðaskólann hafi hún dvalið tímunum saman niðri í Karnabæ að skoða og kaupa plötur. Einn daginn sagði

Jana í fagnaði með Henný Hermannsdóttur og vini þeirra.

verslunarstjórinn við þessa hressu, ungu konu: “Heyrðu, viltu ekki bara koma og vinna hérna hjá okkur,”. Það var eins og við manninn mælt að Jana byrjaði að vinna þar daginn eftir og var þar í mörg ár. “Ég hef verið í þessum tísku- og veitingabransa síðan ég var 16 ára með öllu þessu yndislega fólki sem ég hef kynnst á leiðinni.” segir Jana og bætir við að líf hennar hafi verið mestan partinn ein samfelld skemmtun. Hún nenni ekki að leggja hitt á minnið. Jana byrjaði í Modelsamtökunum 1978 og fór snemma að sýna í tískusýningum hjá Unni Arngríms og kynntist þar dóttur hennar, Henný Hermanns. Þær tvær hafa haldið miklu vinasambandi allar götur síðan.

“Ég kynntist Óla Laufdal snemma og hann fékk mig fljótlega til að vinna fyrir sig. Ég starfaði svo við ungfrú Hollywood og ungfrú Ísland keppnirnar og fór út með Hólmfríði Karlsdóttur þegar hún sigraði Miss World keppnina 1985 og það var ótrúlegt ævintýri.” Nöfnin sem hún  nefnir og allir Íslendingar á miðjum aldri muna eftir, eru nöfn glæsilegra kvenna sem nú eru komnar á miðjan aldur eins og Jana. “Þessi tími var ótrúlega skemmtilegur á meðan hann varði en nú er hann liðinn og annað tekið við,” segir hún.

Slasaðist á öxl

Máltækið “hver er sinnar gæfu smiður” sannast á manneskjum eins og Jönu. Hún smitar frá sér jákvæðni og bjartsýni og ekki er annað hægt en að verða fyrir áhrifum. Eftir áralanga vinnu við að standa í fæturna og þjóna í veislum og uppákomum þegar við hin höfum verið að skemmta okkur, voru hné Jönu búin að gefa sig. Hún fór því í aðgerð 2015 og 16 og lét laga þau bæði. Hún var orðin mjög góð í hnjánum þegar henna tókst að rífa öxlina í tætlur í október 2018 þegar hún datt í einhverjum flýtinum. Hún er því óvinnufær að mestu núna en segist þó ekki geta haldið sig heima alein. Hún hlær yfir ástandi sínu núna og segist þurfa að reiða sig á Tómas við að greiða sér á morgnana. Jana var á leiðinni til Kanarí þegar hún meiddist og af þeirri ferð varð nú ekki en hún er ekkert að æðrast yfir því. Hún segist öll vera að koma til og þetta hefði getað farið miklu ver.

Geta núna tekið frí saman

Jana með nöfnu sinni á góðri stundu.

Nú segir Jana að þau Tómas séu að upplifa nýja tíma því þau geti verið í fríi saman af og til. Þau búa á Álftanesi og njóta göngutúra í dýrlegu umhverfinu þar. Í fríum njóti þau þess að fara út á land og upplifa dásamlega íslenska náttúru sem þau hafi ekki getað árum saman vegna mikillar vinnu. Jana segist vera dugleg að fara í sund, sérstaklega núna þegar hún er að ná sér í öxlinni. “Ég kom mér í sundleikfimina með eldri borgurum á Álftanesinu þar sem við búum,” segir hún og hlær. “Fyrir utan frábæra leikfimi sem ég fæ þar er hópurinn sem þar mætir svo skemmtilegur og mikið hlegið,” og kátínuna kann Jana vel að meta. Og nóg er af henni þegar fjölskyldan kemur saman sem Jana segir að séu þeirra bestu stundir.

Ritstjórn mars 8, 2019 10:39