Tengdar greinar

Ljómandi útlit

Bæði karlar og konur eyða háum peningaupphæðum í að líta sem best út og til að reyna að líta unglega út. Fólk eyðir til að mynda háum upphæðum í líkamsrækt, allskonar pillur sem eiga að hægja á eða stöðva öldrunarferlið eða í lýtalækningar.  Auðvitað er það af hinu góða að hreyfa sig og borða í hófi en það má öllu of gera í þeim efnum sem öðrum. Ef fólk langar til að líta út fyrir að vera nokkrum árum yngra en það er,  er eitt sem það getur haft bak við eyrað þegar það kaupir sér föt.  Það er að kaupa þau í litum sem klæða viðkomandi vel. Sumir litir eru sagðir geta yngt fólk upp um mörg ár það eru til að mynda rauðfjólublár og grænblár. Báðir þessir litir eru sagðir klæða fólk á öllum aldri sama hvernig húð þess er á litinn. Á meðan við erum ung er húðin slétt og falleg, augnlitur og augnaumgjörð skýr, varirnar þrýsnar, hárið þykkara og meira glansandi.  Þegar við eldumst verðum við hrukkótt, augnliturinn ekki jafn skýr, varirnar þynnast og hárið gránar og þynnist.  Línurnar í andlitinu verða ekki jafn skýrar og áður. En rauðfjólublátt og grænblátt eru sagðir lífga upp á andlit okkar og gefa okkur ljóma. Þeir sem velta fyrir sér litum og útliti ráðleggja eldra fólki að hætta að ganga í svörtu. Liturinn gleypi allt ljós og geri allar hrukkur meira áberandi. Ef fólk á erfitt með að hætta að ganga í svörtu ætti það að vera með fallega litríka hálsklúta og trefla eða skipta yfir í dökkgrátt eða dökkblátt. Þeir litir eru mun mýkri en sá svarti.  Sama gildir um hvíta litinn sérfræðingar segja að fólk ætti frekar að velja beinhvítt eða rjómagult slíkir litir ýki ekki hrukkurnar í andlitum fólks.

Ritstjórn september 5, 2019 08:50