Nýir lífaldursútreikningar auka nákvæmni í mati á lífslíkum fyrir þá sem greiða í lífeyrissjóðina. Ásta Ásgeirsdóttir hagfræðingur hjá Landssamtökum lífeyrissjóða skrifaði nýlega grein um þetta mál í Fréttablaðið sem við sögðum frá hér á Lifðu núna. En þýðir það lægri lífeyri fyrir félagana, ef þeir lifa stöðugt lengur og þurfa þannig að fá lífeyrisgreiðslur lengur en áður hefur tíðkast eða þýðir þetta að allir þurfa að vinna lengur?
Þrítugir í dag munu fá hærri lífeyri í fyllingu tímans en sextugir
Ásta segir að það þurfi að skoða málið frá öllum hliðum. Áður voru iðgjöld í lífeyrissjóði lægri en þau eru nú og lægri hjá fólki á almennum vinnumarkaði en þeim sem unnu hjá hinu opinbera. Þetta hefur verið að breytast undanfarin ár og frá árinu 2017 greiða flestallir 15,5% í lífeyrissjóð þótt lögbundið lágmark sé enn 12%. Það þýðir að þeir sem eru þrítugir í dag geta búist vi að fá meira í lífeyri þegar þar að kemur, heldur en þeir sem eru núna sextugir. Þeir yngri muni þó
að öllum líkindum vera fleiri ár á lífeyri vegna hækkandi lífaldurs.
Fólk ekki meðvitað um greiðslur TR
„Ég hef engar áhyggjur af unga fólkinu í dag, út frá þessu“, segir Ásta. Hins vegar eru ákveðnir hópar sem eru annað hvort að nálgast lífeyrisaldur eða eru komnir á lífeyri sem ekki hafa lagt nóg fyrir og þeir hópar verða fyrir skarpri tekjulækkun þegar lífeyristaka hefst.
Hún segir það nokkuð almennt hér á landi að fólk sé ekki nógu meðvitað um hversu mikið það fær frá almannatryggingum, á móti réttindum úr lífeyriskerfinu. Sá sem fái 300.000 krónur úr lífeyrissjóði, fái 150.000 krónur til viðbótar frá TR og hafi þannig 450.000 krónur í mánaðartekjur, fyrir skatt. Þegar fólk sé komið upp fyrir 650 þúsund krónur á mánuði í lífeyrisgreiðslur falli greiðslur þeirra frá TR alveg niður.
Ellilífeyrisaldur hæstur á Íslandi og í Noregi
Ef tölur frá Norðurlöndunum og OECD eru skoðaðar, kemur í ljós að opinberi ellilífeyrisaldurinn er hæstur í Noregi og á Íslandi, eða 67 ár. Þau lönd sem eru með lægri viðmiðunaraldur eru núna að fikra sig áfram í átt til okkar, en Danir eru farnir frammúr okkur og stefna að því að þeir sem eru fæddir árið 1996, fari á eftirlaun 74ra ára. Hollendingar hafa ákveðið að þeir sem eru fæddir í kringum 1960 fari á eftirlaun 67 ára. Lífeyrisaldur í Frakklandi er rúm 63 ár en stefnt er að því að hækka hann í 66 ár.
Lögbundinn ellilífeyrisaldur í OECD ríkjunum er rúmlega 64 ár að meðaltali, miðað við ellilífeyri almannatrygginga.
Hvernig á að gera eldra fólki kleift að vera lengur á vinnumarkaði?
Yfir 48.000 manns eru nú 67 ára og eldri hér á landi og þessi hópur fer ört stækkandi. Umræða hefur verið um ellilífeyrisaldur almannatrygginga hér á landi og hvort þörf sé á að hækka hann. Það er ljóst að framtíð lífeyriskerfisins byggist á því að fleira fólk vinni lengur en til 67 ára þótt það eigi ekki við um alla hópa. Núna er lífeyriskerfið sveigjanlegt og fólk getur sjálft haft áhrif á lífeyrisaldur sinn, sumir vilja vinna eftir 67 ára og aðrir vilja hætta fyrr. Mikilvægt er að halda áfram í þennan sveigjanleika enda ekki það sama sem hentar öllum. Hins vegar þarf einnig að skoða stöðu eldra fólks á vinnumarkaði og atvinnutækifæri sem þessum hópi bjóðast. „Það er nauðsynlegt að taka umræðuna um það, hvernig gera á fólki kleift að vera lengur á vinnumarkaði og nýta þannig mannauð þeirra sem eldri eru“, segir Ásta.
Ásta segir að þær breytingar sem gerðar hafi verið á lífaldurstöflunum sé góðar fyrir unga fólkið. „Með þessu er verið að tryggja jafnvægi milli kynslóða“.