Tengdar greinar

Portúgal leggur af skattfríðindi fyrir eftirlaunafólk

Portúgalar hafa í rúman áratug veitt útlendum „ellilífeyrisþegum“, sem hafa kosið að búa Í Portúgal veruleg skattfríðindi í samtals 10 ár, samkvæmt svokölluðu NHR kerfi.  Þeir sem fluttu búferlum þangað, borguðu í fyrstu engan tekjuskatt, en síðustu 4 ár hafa þeir greitt 10% skatt af tekjum sínum.  Fjármagnsskatt hafa þeir hins vegar þurft að greiða og er hann 28%, meðal annars á verðbætur. Um áramótin verða skattfríðindi þessa eftirlaunafólks aflögð Í Portúgal, nema hjá þeim sem sækja um aðgang að kerfinu fyrir 31. desember næstkomandi og fá umsóknina afgreidda fyrir 31. mars á næsta ári. Þeir geta fengið áframhaldandi skattfríðindi þar til 10 árum er náð. Nokkrir tugir Íslendinga hafa nofært sér þetta kerfi.

Losna við hærri skatta myrkur og hálku

Þeir hafa þurft að flytja lögheimili sitt til Portúgals, en samkvæmt samræmdum evrópskum reglum ber fólki að hafa lögheimili og greiða skatta þar sem það dvelur meirihluta ársins. Þannig hafa þeir Íslendingar sem hafa flutt til Portúgals, orðið að halda sig utan Íslands 184 daga ársins. Einn þessara íslensku eftirlaunamanna sagði í samtali við Lifðu núna um búsetuna ytra, að margir væru betri í skrokknum á suðlægum slóðum, þeir vildu jafnframt losna  við myrkur og hálku yfir vetrartímann og innkaupakarfan kostaði helming á við það sem hún kostar heima á Íslandi. Hiti væri líka skaplegur á þessum slóðum og færi yfirleitt ekki yfir 30 gráður.

Hefur valdið húsnæðisskorti hjá verr settum

Talið er að um 10.000 manns hafi notfært sér þetta skattfríðindakerfi í Portúgal að því er fram kom í grein í Viðskiptablaðinu, en ástæða þess að nú hefur verið ákveðið að leggja það niður, er að það hefur leitt til mikillar ásóknar erlendra ellilífeyrisþega í húsnæði þar í landi sem hefur valdið bæði mikilli hækkun húsnæðisverðs og húsaleigu. Fyrir þá verr settu hefur þetta svo þýtt húsnæðisskort. Fleiri þjóðir, svo sem Ítalía, hafa einnig boðið eldri borgurum skattaívilnanir að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Forsenda þessara kostaskattakjara sem verið er að bjóða er að landið þar sem fólk býr, sé með tvísköttunarsamning við landið sem það ætlar að flytja til.

Erna Indriðadóttir skrifar

Ritstjórn desember 16, 2023 07:00