Hvar mega konur prjóna?

Sigrún Stefánsdóttir

Dr. Sigrún Stefánsdóttir fjölmiðlaráðgjafi skrifar. 

 

Á dögunum var ég beðin um að setja saman vikulanga Íslandsheimsókn fyrir norskar prjónakonur. Þær fóru í spunaverksmiðjur, Hespuhúsið og flestar prjónaverslanir á höfuðborgarsvæðinu. Þær keyptu garn og lopa sem endist þeim örugglega út ár eða tvö. Þær prjónuðu alls staðar, í rútunni, á barnum og meðan þær biðu eftir matnum á veitingahúsum. Já, þær prjónuðu endalaust. Það var aldrei neitt stress hjá þeim. Þær drógu bara upp prjónana.

Í síðustu viku kom norskt par í kvöldmat til okkar. Ég fór að segja því frá þessum dásamlegu norsku prjónakonum og hvað það hefði verið gaman að ferðast með þeim. Karlinn greip þetta strax og sagði að hann langaði til að spyrja mig um eitt. Er í lagi að prjóna á fundum? Mitt svar var að auðvitað væri það í lagi. Upp úr þessu spunnust heitar umræður. Hann sagði að nýr starfsmaður hafi dregið fram prjóna á fyrsta vinnufundi. Hann sagðist hafa áminnt hana og sagt að svona gerði maður ekki. Umræðan yfir matarborðinu varð heit og við mjög ósammála. Ég sagðist hafa prjónað mig í gegnum nám og margar vinnuferðir. Einu sinni var ég reyndar tekin á teppið hjá skólastjóra fyrir prjónaskap. Ég stóð föst á því að ég gæti prjónað og líka tekið eftir í tímum. Ég sannaði það með ágætis einkunn í lok námskeiðs. Ég fór í peysunni í prófið.

Daginn eftir matarboðið fór ég vestur í Dali með gönguhópnum mínum, 38 eðalkonum með alls konar menntun og bakgrunn. Eftir barning í hífandi roki og ískulda var komið að kvöldverði og orðið var laust. Ég ákvað að bera upp spurningu. Hún var einföld. Hvar mega konur prjóna? Ég sagði þeim frá samtalinu kvöldið áður og bað um álit þeirra. Það var eins og ég hefði kastað sprengju inn í salinn. Minnst tíu uppréttir hendur á sömu sekúndu. Þær voru sko alls ekki sammála. Ein hafði til og með lent í blöðunum þar sem hún hafði kvartað undan prjónaskap á fundi.

Gönguhópurinn Dalalæður var alls ekki sammála um hvar er viðeigandi að prjóna og hvar ekki. Hópurinn hittist að ári og þá getur umræðan haldið áfram.

Efir fimmtán mínútna heitar umræður kom steikin á borðið – annars værum við enn að. En hver var niðurstaðan? Stutta svarið er að það væri ekki hægt að prjóna alls staðar. Brúðkaup og jarðarfarir voru t.d. athafnir þar sem ekki væri við hæfi að prjóna. Eðli funda réði líka ferðinni. Þær voru þó sammála um að skilyrði fyrir prjónaskap meðal fólks væri að munstrið væri einfalt. Helst ætti að nota einn lit og slétt prjón. Prjónar hæfðu vel á næturvöktum á sjúkrahúsum og lögreglustöðvum. Fyrrverandi lögregluþjónn játaði reyndar að karlarnir á vaktinni hefðu rekið upp stór augu þegar hún dró upp prjónana í fyrsta sinn. Það má prjóna þegar gengið er milli bæja og þegar flogið er milli staða. Hins vegar væri svolítið skrýtið að prjóna í strætó.

Á heimleiðinni kom spurning  um prjónaskapinn upp aftur og aftur. Þegar bílstjórinn kvaddi þreyttar göngukonur játaði hann að prjónaumræðan hefði verið toppurinn á kvöldverðarboðinu á Laugum í Sælingsdal.

Þegar þetta er skrifað er ég enn ekki viss hvað mér finnst um viðeigandi prjónasvæði. Væri kannski ekki betra að þingmennirnir okkur gerðu gagn með því prjóna fallega flík í þingsal frekar en að sitja endalaust og rýna niður á símana sína? Það myndi trufla mig minna þegar sjónvarpið sýnir myndir frá Alþingi.

Sigrún Stefánsdóttir júlí 6, 2024 09:19