Áður en verkurinn tekur völdin

Jósep hefur miðlað heilbrigðisstarfsmönnum af áratuga reynslu sinni.

„Síðast þegar ég vissi voru bakvandamál algengasta orsök örorku hjá fólki undir 45 ára aldri á Íslandi,” segir Jósep Ó. Blöndal læknir en hann hefur sérhæft sig í háls- og bakvandamálum. Jósep bætir við að bakvandamál séu nú af mörgum talið dýrasta heilbrigðisvandamálið í hinum vestræna heimi.

Jósep hefur helgað líf sitt þessu stóra heilsufarsvandamáli og stóð ásamt sjúkraþjálfaranum Lucia de Korte fyrir stofnun deildar á St.Franciskusspítala í Stykkishólmi

Lucia de Korte og Jósep á 25 ára starfsafmæli.. Þau stóðu saman að stofnun deildarinnar.

sem sinnir þessu vandamáli, en Jósep lét af störfum 2017. Deildin er hin fyrsta sinnar tegundar í Evrópu, að því er best er vitað, upphaflega skipulögð eftir fyrirmyndum í San Francisco, London og Brisbane í Ástralíu.

Jósep hefur ákveðnar skoðanir á því hvernig við getum hjálpað okkur sjálf við að reyna að koma í veg fyrir þetta algenga vandamál. Hann segir ýmislegt hægt að gera til að hjálpa bakveikum en um fram allt þurfti fólk að átta sig á að það beri sjálft ábyrgð á líkama sínum og eigi bara eitt bak.

Jósep lærði læknisfræði á Íslandi og í Danmörku og síðan almennar skurðlækningar í Svíþjóð og starfaði þar um árabil.

Allir með slitbreytingar

Jósep með Franciskusnunnum.

Jósep segir að ef myndað væri bak á 100 manns á aldrinum 20-60 ára, sem aldrei fyndu til, kæmi í ljós að allir væru með slitbreytingar, 30 væru með brjósklos og margir með útbunganir og mænugangsþrengsli.

Þetta séu allt  breytingar, sem geta verið algjörlega einkennalausar og svo fari það mikið eftir því hvað við erum dugleg um ævina að stunda reglulega hreyfingu og yfirleitt forðast kyrrstellingar hvort við finnum nokkurn tíma fyrir þessum breytingum.

„Og best er að átta sig snemma á að offors í æfingum er ekki gott því það getur komið niður á okkur þegar við eldumst. Ganga og sund eiga að vera á stundaskrá allra sem oftast og svo er skíðaganga afbragðs hreyfing,” segir Jósep. „Skíðagangan er besta alhliða hreyfingin og styrkir í raun alla vöðva líkamans, nema tunguna eins og Magnús Scheving Latabæjarmaður sagði einhvern tímann,” segir Jósep.

2400 ára gömul sannindi

Hippókrates, faðir læknavísindanna, var uppi 460 – 370 fyrir Krists burð og sagði meðal annars:  Ef við gætum séð til þess að hver einstaklingur fengi hæfilega

Hippokrates var uppi fyrir 2400 árum.

næringu – ekki of mika, ekki of litla – og hæfilega hreyfingu – ekki of litla, ekki of mikla – værum við búin að finna öruggustu leiðina til góðrar heilsu”. Með öðrum orðum sagði Hippokrates fyrir um 2400 árum einmitt það sem við þykjumst vera búin að finna út í dag að sé svarið við mögum vandamálum nútímamannsins,” segir Jósep. Næstur á eftir Hippokrates var Claudius Galenos sem uppi var 129 til 216 eftir Krist. Hann var forngrískur læknir, rithöfundur og heimspekingur en kenningar hans voru ríkjandi í læknisfræðinni í rúmlega 1400 ár en hann er talinn einn merkasti læknir fornaldar. Kenningum hans – og uppistaðan í þeim var vessakenning forngrískrar læknisfræði – var ekki umbylt fyrr en á endurreisnartímanum. Og þegar kaþólskan tók við var grunnafstaðan sú  að veikindi tengdust syndugu líferni. Þá urðu til  aðferðir eins og að taka fólki blóð eða láta það laxera, allt til að hreinsa út.”

John F. Kennedy gott dæmi um bakveiki

John F. Kennedy barðist við bakveiki til dauðadags.

Jósep segir að gott dæmi um ranglega meðhöndlaðan baksjúkling sé John F. Kennedy Bandaríkjaforseti. Kennedy var meðhöndlaður kolrangt en það var auðvitað af því menn vissu ekki betur og voru að prófa sig áfram. Kennedy varð bakveikur ungur, líklega eftir íþróttameiðsl um tvítugt. Hann vildi fara í herinn en var dæmdur of veikur í baki til þess. Þá var hann látinn fylgja prógrammi þar sem hann var látinn hreyfa sig, ganga, lyfta, synda o.s.frv. Þetta gerði hann í eitt ár eða svo og var þá talinn tækur í herinn. Í hernum datt hann og meiddist  á baki sem átti eftir að draga dilk á eftir sér. Við tók þrautaganga á hækjum og í hjólastól, stöðugir verkir, dagleg neysla sterkra verkjalyfja, sprautur í bakið og fjórar ónauðsynlegar skurðaðgerðir, þar af tvær, sem gengu svo nærri lífi hans, að kaþólskur prestur var látinn lesa honum síðustu sakramentin. Allt þar til Hans Kraus, stórkostlegur austurrískur læknir og sjúkraþjálfari – og brautryðjandi í klettaklifri! – tók hann að sér. Kraus tók lyfjakokteil af Kennedy sem  fyrri læknir hans, hafði útvegað honum. Í þeim kokteil var m.a. morfín og kókaín og ýmislegt annað góðgæti, en læknirinn, sem ávísaði þessari blöndu, missti reyndar lækningaleyfið nokkrum árum seinna. Eftir að Kennedy varð forseti, var Janet Travell sérlegur baklæknir hans og sprautaði hann með staðdeyfilyfi svo til daglega. Það segir sína sögu, að hún kallaði sig “The Trigger Point Queen”!

Staðreyndin er sú að lyf eiga auðvitað við í stuttan tíma til að ráða við bráða verki. En að ætla sér að meðhöndla króníska verki með lyfjum er beinlínis hættulegt eins og dæmin hafa ítrekað sannað.

Kennedy batnaði í annað sinn þegar Hans Kraus setti hann í æfingaprógram en hann var skotinn áður en hann náði fullum bata. Það er að segja – honum batnaði tvisvar. Fyrst þegar hann var látinn í æfingaprógram og svo aftur þegar hann var látinn í æfingaprógram. Þá áttuðu einstaka fagmenn og -konur sig á að þarna væri e.t.v. komið svarið við bakverkjum mannskepnunnar. „Af hverju var þessu þá ekki haldið á lofti og þá myndu bara allir lagast í bakinu?” var spurt. Svarið er sennilega einfalt:  á því myndi enginn græða nema sjúklingurinn! Það gengur ekki í markaðssamfélagi, og það sem tekur við í staðinn næstu áratugi, einkum í Bandaríkjunum, eru lyf og skurðaðgerðir en hvort tveggja er ábatasamara fyrir marga, en til lengdar bara ekki fyrir sjúklinginn,” segir Jósep.

Ábyrgðin er hjá okkur sjálfum

Jósep í skurðaðgerð á SFS.

Jósep segir að til að ná bata verði baksjúklingar að átta sig á eigin ábyrgð við að hafa áhrif á bakveiki, líkt og marga aðra sjúkdóma. „Ranghugmyndir eru útbreiddar, og sú stærsta er líklega að best sé að hvíla sig ef bakverkur gerir vart við sig. Það er eiginjlega þvert á móti – bezt er að halda áfram að hreyfa sig, jafnvel þó maður finni til – hættan á maður skemmi eitthvað er nánast engin”. Bandaríski læknirinn Margaret Caudill – Slosberg skrifaði frábæra bók sem hún nefnir „Managing your pain before it manages you” eða “Að taka stjórnina sjálfur áður en verkurinn tekur af þér völdin.” Það er þessi hugsunarháttur sem virkar best,” segir Jósep.

Menningar- og lífsstílsvandamál

„Við vitum vel að skyndibitafæði og hreyfingarleysi eru orsök helstu lífsstílssjúkdóma sem hrjáir mannkynið í dag,” segir Jósep. Samt heldur mikill hluti mannkyns áfram að haga lífi sínu svona. Það er sama hvað við fagfólkið görgum hátt, við náum ekki eyrum unga fólksins sem fer með ósiðina með sér inn í fullroðinsárin og næsta kynslóð verður svo á enn verri stað.”

Stólarnir stuðluðu að hreyfingarleysi

„Auðvitað er erfitt að benda á eitthvað eitt sem veldur bakverk nema ef um slys er að ræða,” segir Jósep. En fæstir sem þjást af bakverk geta rakið verkinn til slyss. Hippokrates talar ekki mikið um bakverki sem slíka en hann skrifaði mikið um skekkjur sem stöfuðu eflaust oft af berklum sem lögðust í efstu hryggjarliðina og ollu því að fólk fékk kryppu eða herðakistil. Mig grunar að bakverkir hafi verið lítt þekktir fram að landbúnaðarbyltingunni fyrir 10.000 árum þegar menn fóru að stunda akuryrkju og húsdýrahald. Fram að því höfðu þeir mest stundað veiðimennsku og forðasöfnun. Þarna gerbreytir maðurinn um lifnaðarhætti og gríðarlegar breytingar verða á félagslegum aðstæðum, fæðuvali o.s.frv.. Seinna  kemur svo iðnbyltingin, eða fyrir um 200 árum, og upp úr því kom stóla- og borðasamfélagið.”

Stólar eiga að vera óstöðugir og baklausir

Galen Cranz í heimsókn á SFS.

Stóllinn sem Jósep situr á ef hann er við tölvuvinnu.

Jósep segir að hryggurinn í okkur sé í raun hannaður í ferfætling en var reistur upp fyrir um það bil sex milljónum ára. „Við það kemur mikið  álag á neðstu hryggjarliðina   –     þeir fara t.d. að bera helminginn af líkamsþunganum. Þetta kemur einna harðast niður á liðþófunum, sem hafa fátt sér til varnar, enda án blóðrásar. Þegar við sitjum, aukum við þetta álag um 40%, en þegar við erum á göngu eykst álagið ekki nema um 15%. Þegar við hönnum stóla eigum við auðvitað að herma eftir ástandinu sem líkaminn er í á göngu. Einn besti sérfræðingur í hönnun stóla sem ég þekki er Galen Cranz, prófessor í arkitektúr við Berkley háskóla en hún hefur skrifað fína bók um hönnun stóla. Hún heimsótti Háls- og bakdeildina í Stykkishólmi fyrir allmörgum árum, og hugmyndir hennar koma heim og saman við þær hugmyndir, sem við í teymi deildarinnar gerðum okkur um bestu hönnun stóla – best væri að stóll væri baklaus, í vægum framhalla og óstöðugur þannig að hann fylgi hreyfingum þess sem á honum situr – hér er alls ekki átt við stól á hjólum. Ég er búinn að sitja á þannig stól í 20 ár og hef reynsluna af því að þannig seta er betri fyrir bakið en sérhannaður stóll sem er með sérstakan stuðning við bakið,” segir Jósep og það er staðreynd sem fáir vilja heyra því mikil vinna hefur verið lögð í að hanna stóla sem styðja nógu vel við bakið. „Ef Guð almáttugur hefði ætlað okkur að vera með stuðning við bakið hefði hann látið okkur fæðast með hann. Í  rauninni gerði hann einmitt það sem er vöðvakerfið sem styður við hryggsúluna. Það er eitt mikilvægasta vöðvakerfið  í líkamanum og mjög áríðandi að halda þeim vöðvum virkum,” segir Jósep og leggur áherslu á orð sín.

Orsök bakvandamála

Jósep og hryggur.

Öll bakvandamál byrja líklegast í liðþófunum neðst í bakinu eða neðst í hálsinum,” segir Jósep. Vandinn er sá að það er engin blóðrás í brjóskinu á milli liða. Það er hins vegar lifandi vefur og þess vegna þarf liðþófinn að betla næringu úr blóðrás beinanna ofan og neðan hryggjarliðanna       og skila úrgangi sömu leið. En til þess að þetta geti gerst verðum við að vera á hreyfingu eða liggjandi. Rannsóknir á músum og rottum hafa sýnt fram á að ef við setjum liðþófa dýranna undir fast, stöðugt álag eykst frumudauði og það sama gerist væntanlega hjá okkur mannfólkinu.”

Lærði af Gísla á Uppsölum

Jósep var sjúkrahúslæknir á Patreksfirði í sex ár og var þá læknir Gísla á Uppsölum. Hann segir skemmtilega vítamínsögu af Gísla: Hallgrímur heitinn Magnússon geðlæknir leysti

Gísli á Uppsölum.

mig stundum af á þessum tíma. Ég hafði alltaf farið reglulega til Gísla á Uppsölum til að athuga með hann af því hann bjó einn. Þegar ég kom úr einu fríinu hafði Hallgrímur farið í eftirlitsferðina til Gísla og sagði mér að hann vantaði greinilega vítamín, kallinn. Hann hafi því gefið honum vítamíntöflur til inntöku. Ég hafði efasemdir um að Gísli myndi taka pillur, en nokkrum mánuðum seinna var ég á reglulegri eftirlitsferð og kom þá við hjá Ólafi Hannibals á næsta bæ við Uppsali. Þar var staddur vetrarmaður Ólafs, Stefán á Lambeyri, en Stefán var álíka sérkennilegur maður og Gísli og heimsótti hann oft. Stefán sagði mér að Gísli hefði tekið mikið mark á Hallgrími sem von var, og gert eins og hann hafði mælt fyrir um og tekið tvær töflur. Þá fékk Gísli skitu. Þá beið hann í nokkra daga og tók þá eina pillu,” segir Stefán. Þá fékk hann aftur skitu. Gísli fór þá út í fjárhús og gaf gemlingnum tvær pillur. Gemlingurinn hrækti þessu út úr sér hið snarasta af fyrirlitningu. Gísli tók þá pilluglasið og gróf það úti og sagði: Það sem gemlingurinn vill ekki borða getur ekki verið gott fyrir mig,” og tók aldrei vítamínpillur eftir það.  Hins vegar tók hann mixtúru, sem við Jón Þórðarson, apótekari, blönduðum og heitir “Mixtura Uppsaliensis”! Gísli varð 79 ára gamall og ég fullyrði að hann hafi verið hamingjusamur þegar hann dó,” segir Jósep. Hann lamaðist á Þorláksmessu, 1986, og við fluttum hann á spítalann. Ég sagði starfsfólkinu á sjúkrahúsinu að það ætti ekki að setja Gísla í bað af því það vildi hann ekki heldur bara snyrta hann, klippa neglur og greiða. Hann var orðinn alveg eins og lord að lokinni snyrtingu um það bil viku seinna, og þá vissi ég að hann var tilbúinn að mæta guði sínum. Gísli dó þá um nóttina.

Gísli hafði verið mjög frískur alla tíð og lifað mest á því sem hann sótti í náttúruna allt í kringum hann en leitaði lítið  lengra. Það var helst kjöt, fiskur og grænmeti og ber, allt sem óx í námunda við Uppsali.

Ég hef verið að kanna hvers konar mataræði sé best fyrir okkur og hef komist að raun um að við séum einmitt sköpuð til að borða þá fæðu sem vex í kringum okkur. Og þegar allt kemur til alls er það „maturinn hennar ömmu” sem við þrífumst best á,” segir Jósep og segist nú borða flest en uppistaðan sé nú samt maturinn hennar ömmu” líkt og Gísli í Uppsölum hafi gert alla tíð. Hann drekki líka mikið kaffi, og lætur fylgja, að enginn drykkur innihaldi eins mikið af andoxunarefnum.

Hreyfingarleysið allraversti óvinurinn

Jósep ólst upp á Siglufirði og var barn að aldri þegar síldarævintýrið stóð sem hæst. Hann fór 9 ára gamall að vinna í síldinni og var þrettán ára þegar hann byrjaði að stafla mjölpokum. Það gerði hann í 5 mánuði á

Jósep með skurðhjúkrunarfræðingnum Sr.Renée.

ári í sex sumur í röð. Sú vinna virðist hafa styrkt Jósep því hann fékk ekki í bakið fyrr en nú nýverið, 73 ára gamall. Það gerðist þegar hann fór að aðstoða dóttur sína við að rífa upp runna í garði hans í Stykkishólmi sem henni þótti tilvalið að gera til að rýma fyrir matjurtaræktun. Ég vildi auðvitað aðstoða hana af því þetta var í mínum garði og vann allan daginn við að rífa runnana upp með rótum. Daginn eftir var ég kominn með bakverk en hann hvarf sem betur fer á nokkrum dögum,” segir Jósep og brosir.

Slitbreytingar Jóseps sjálfs

Ég er með mjög slitinn hrygg en slitbreytingar sem slíkar valda ekki endilega verkjum,” segir Jósep. Ef bakverkir væru slitsjúkdómur væri allt gamla fólkið að drepast, en svo er ekki. Bakverkir eru algengastir á aldrinum 20-55 ára og ná hámarki við 42 ára aldur. Ráðið við þessum verkjum er sannarlega ekki að leggjast fyrir. Og annað mikilvægt atriði sem fólk þarf að skilja er að hreyfingin er líka mjög mikilvæg til að beinin haldi styrk sínum. Ef komin er beinþynning þá geta bakverkir komið vegna beinþynningar og þá fara hryggjarliðirnir að kikna og fólk bognar, en það veldur ekki endilega verkjum. Frænka mín blessunin, 93 ára, lést í fyrra og hún var orðin alveg eins og spurningarmerki í laginu en hún kvartaði ekki yfir bakverk. Ef hún hefði hins vegar dottið hefði hún stjakað við sínum slitna hrygg, og hugsanlega fengið bakverk upp úr því. ” segir Jósep og ætlar að halda áfram að láta gott af sér leiða í bakvandamálum þjóðarinnar á meðan hann heldur starfsþreki, okkur hinum til mikillar gleði.

Jósep spilar á píanó í tómstundum

Jósep 14 ára við Petrovpíanóið í sal Gagnfræðaskóla Siglufjarðar.

Jósep tók lokapróf í klassískum píanóleik 2006, en var á yngri árum rokkpíansisti, undirleikari skemmtikrafts o.fl. Hann er einn af meðlimum hljómsveitarinnar „Stormar“, sem enn er virk, en þeir félagar spiluðu saman á 7. Áratugnum og endurvöktu bandið 1992. Hann spilar töluvert undir hjá kórum og söngvurum sem og með félögum í Hólminum, þegar svo ber undir, og er svo heppinn að hafa með sér sérlegan aðstoðarmann og stílista sem er 13 ára dótturdóttir hans. Jósep hefur heyrt hana hvísla á tónleikum:  Afi, farðu úr jakkanum“. Þá hafði jakkinn verið krumpaður og listrænu auga stílistans var misboðið og henni þótti skárra að ég færi bara úr honum“.

Hætti að drekka fyrir 26 árum síðan

Ein merkasta uppgötvun sem Jósep hefur gert í lífinu er hversu gott var að losna við áfengið úr lífi sínu fyrir 26 árum. „Það var eitt mesta gæfuspor sem ég hef tekið,” segir Jósep. „Þegar áfengið er farið að valda manni meiri vandræðum en ánægju er sjálfhætt. Það er hörkuvinna og vanlíðan sem fylgir því að vera alkohólisti. Svo man ég vel stundina þegar ég áttaði mig á því hvað er mikil vellíðan að vera ekki þræll áfengisins. Og síðan hef ég ekki drukkið,” segir Jósep og er hæstánægður með lífið og tilveruna.

Sólveig Baldusdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn mars 19, 2021 08:09