Þingvellir draumastaður Ögmundar Jónassonar

„Draumastaðir mínir eru margir. En ástæðurnar eru líka mismunandi. Sumir staðir eru í uppáhaldi vegna kynngimagnaðrar fegurðar. Gullfoss og Dettifoss koma þegar upp í hugann og Fljótshlíðin, það var rétt hjá Gunnari forðum að fögur er sú hlíð með Eyjafjallajökul við himinbrún og Eyjarnar undan landi. Og austar er svo Skaftafell og hvert djásnið á fætur öðru. Ég gæti haldið áfram allan hringinn og alls staðar fundið hinn óviðjafnanlega stað, fegurri en allt sem fagurt er á öllu jarðríki. Sú er tilfinningin. Og þetta á við um marga staði. Ég hefði til dæmis góðan skilning á því að velja sundlaugina á Hofsósi í Skagafirði sem uppáhaldsstað þar sem vatnsflöturinn í laug og firði renna saman í eitt með Drangey og Málmey ekki langt undan eins og stílhreinar ævintýramyndir í leikmynd skaparans.

Staðreyndin er sú að allir landshlutar Íslands búa yfir mikilli náttúrufegurð. En svo koma minningarnar að auki. Þegar ég stend á hlaðinu í Víðidalstungu í Húnavatnssýslu og horfi yfir sléttur Víðidalsins — já, óendanlegar grösugar og fagrar sléttur, þannig var víðátta Víðidalsins í huga tíu ára stráks í sveit hjá Óskari frænda sínum og Hallfríði fyrir talsvert meira en hálfri öld — þá koma minningar upp í hugann og bæta sínum víddum inn í fegurð landsins. Töðuilmur, kýrnar reknar í haga, féð rúið að vori, réttað að hausti, margvísleg sveitastörf og að sjálfsögðu reiðtúrar á grösugum grundum Víðidalsins sem silfurtær Víðidalsáin bugðast um. Ekkert er fegurra …

… nema ef vera skyldi kvöldstund í Reykjavík. Þaðan eru flestar mínar minningar og get ég tekið undir með Sigurði Þórarinssyni þegar hann líkir Akrafjalli og Skarðsheiði við fjólubláa drauma. Þá þykir manni það vera rétt að ekkert sé fegurra en vorkvöld í Reykjavík.

Svo er Mosfellið fallegt og verður sífellt eftirsóknarverðara eftir því sem ég kemst lengra áfram með áralangt verkefni að ljúka þar smíði sumarbústaðar. „Ætlar þú ekki að fara að ljúka þessu,“ spyrja vinir mínir og ég svara því til að sem betur fer sé ég ekki húsnæðislaus og geti gefið mér allan tíma — óendalegan tíma — til að bjástra við hús og garðrækt í hlíðum Mosfellsins. Til þess eru sumarbústaðir. Og fer nú að verða úr vöndu að ráða hvort Mosfell í Grímsnesi sé ekki að ná yfirhöndinni í vali mínu á uppáhaldsstað á Íslandi.

En eftir því sem ég veg og met spurningu Lifðu núna um uppáhaldsstaðinn minn, þá ætla ég þrátt fyrir ást mína á Grímsstaðaholtinu í Reykjavík, þar sem ég á heima, og bústað mínum við Mosfellið í Grímsnesi að velja þann stað sem ég hygg að fleiri geri. Það eru að sjálfsögðu Þingvellir. Þingvellir hafa allt til að bera, magnþrungna fegurð, fjallahringinn, hraunið, lindirnar og kjarrið, gjárnar, lyngið og að sjálfsögðu Þingvallavatnið. Svo bætast við minningar og sagan, saga okkar allra.

Til Þingvalla berum við, held ég, öll hlýjar tilfinningar og Þingvellir sýna okkur á móti alltaf hlýju. Hvernig sem viðrar og hvort sem það er um sumar, vetur, vor eða haust, er alltaf fagurt á Þingvöllum. Alltaf einhver mildi sem stafar frá landinu. Þess vegna er alltaf gott þangað að koma. Þingvellir eru minn staður.“

Þjóðgarðurinn á Þingvöllum. Mynd: Ögmundur Jónasson / 2021.

Ritstjórn ágúst 12, 2021 07:00