Tengdar greinar

Saga þeirra lifir áfram með afkomendunum

Fjölskyldubækur Kristínar eru mjög fallega gerðar

Jón og Jóna heitir bók eftir Kristínu Jónsdóttur sem er nýkomin út. Hún fæst ekki í bókabúðum, enda er þetta fjölskyldusaga sem Kristín skráði fyrir sig og sína. Það er eingöngu hægt að kaupa hana hjá henni. Í formála bókarinnar segir að hún sé óbeint framhald bókarinnar Hugprúði Bolvíkingurinn sem Kristín skrifaði um afa sinn Bjarna Jón Bárðarson og ömmu sína, Kristínu Salóme Ingimundardóttur, en hún kom út árið 2013 þegar minningarskjöldur var afhjúpaður í Bolungarvík. Tilefnið var að 100 ár voru liðin frá frækilegu björgunarafreki Bjarna, en hann bjargaði sjö manna áhöfn frá drukknun í mannskaðaveðri við Bolungarvík. Fór á vettvang þegar aðrir treystu sér ekki. Hann var heiðraður af Alþingi fyrir afrekið árið 1945.

„Ég hafði gaman af því að skrifa sögu þeirra og var komin með svo mikið efni að ég ákvað að halda áfram og skrifa sögu foreldra minna í tilefni þess að pabbi hefði orðið 100 ára á þessu ári og mamma varð 95 ára á síðasta ári.“, segir Kristín um bókina Jón og Jónu. „Að mörgu leyti eiga foreldrar mínir sér merkilega sögu þó þau séu ekki opinberar persónur. Það er svo margt sem henti þau sem er sammannlegt, en þau hafa líka mjög mikla sérstöðu“, segir hún.

Konan á hjólinu

Jóna Halldóra móðir Kristínar, er dóttir Bjarna Jóns og Kristínar og er frá Bolungarvík. En Jón Hjaltalín faðir Kristínar var fæddur og uppalinn í Súðavík.  Fundum þeirra bar hins vegar fyrst saman á balli í Hrísey árið 1944.  Þau eignuðust sex börn. Hann starfaði sem læknir og hún var húsmóðir, stundaði yoga, hugleiddi, var grænmetisæta og fór allra sinna ferða á hjóli. „Við bjuggum í Laugarnesinu í kringum 1960 og krakkarnir í hverfinu kölluðu mömmu „konuna á hjólinu“, rifjar Kristín upp. „Það var sjaldgæft að fólk ferðaðist um bæinn á hjóli á þessum tíma og skemmtilegt að Dagur borgarstjóri, sem er barnabarn hennar, skuli vera svona mikill áhugamaður um hjólreiðar og hjólastíga“.

Tók ekki peninga fyrir læknisvitjanir

„Pabbi var læknir, fyrst á Kópaskeri og síðar á Siglufirði þar sem við bjuggum í átta ár. Það var kannski hans sérkenni, hvað hann var mikill sósíalisti.  Hann var lítið heima, sjúklingarnir voru hans líf og hann var „vinnualki“. Hann sinnti sjúklingunum mjög vel og kom stundum við heima hjá þeim þótt veikindin væru yfirstaðin, bara til að athuga hvort allt væri í lagi og hvort það væri eitthvað sem hann gæti gert. Hann tók aldrei peninga fyrir læknisvitjanir. Við vorum ekki fátæk, en þegar við fluttum til Reykjavíkur var ekki mikið af veraldlegum eigum sem við tókum með okkur suður. Þegar þangað var komið slakaði hann ekkert á, hann var með eigin lækningastofu og vann auk þess á fæðingardeildinni. Um helgar þurfti svo að vinna upp „journalana“. Sjúklingarnir hans bera honum vel söguna“, segir Kristín og segir blaðamanni af konu sem hrósaði föður hennar fyrir að hafa ekki bara verið læknir hennar, heldur líka sálusorgari. „ Hún sagðist sakna þessarar tegundar lækna. „Nú sitja læknarnir og horfa á skjá, en pabbi þinn hlustaði“, sagði þessi kona“.

Voru ólík hjón

„Pabbi og mamma voru ekki hamingjusöm hjón“, segir Kristín. „Karlar tóku lítinn sem engan þátt í heimilisstörfunum, en mamma eignaðist 4 börn á 5 árum. Hún átti sér þann draum að verða óperusöngkona og var alltaf syngjandi. Það var hennar draumur og hún sótti söngtíma hjá helstu söngkennurum bæjarins bæði Sigurði Birkis og Sigurði Demetz. En þessi draumur hennar rættist ekki. Ég held að þau hafi líka verið mjög ólík. Hún hafði sína trú og yoga heimspeki, en hann var alveg frábitinn slíku, tók undir með Karli Marx, að trúin væri ópíum fyrir fólkið“. Kristín segir að hann hafi líka verið mjög utan við sig. Eitt sinn hafi hann farið akandi á fyrsta bílnum sínum frá Reykjavík til Siglufjarðar. Hann stoppaði í Hvalfirði á veitingastað, en þar áðu fleiri, meðal annars farþegar í Norðurleiðarútunni. Þegar þeir fara að tygja sig af stað, trítlar hann á eftir þeim inní rútuna og það er ekið sem leið liggur yfir Holtavörðuheiði. Þegar stoppað var í Varmahlíð rifjaðist það upp fyrir honum að hann hafði lagt af stað á eigin bíl.“

Vildi að börnin yrðu háskólaborgarar

Þó faðir Kristínar tæki ekki mikinn þátt í uppeldinu lagði hann mikið upp úr því að öll börnin hans sex yrðu háskólaborgarar, sem þau og urðu þegar fram liðu stundir. Hann taldi að það veitti þeim meira frelsi og betri afkomu. „Menntun barna minna er mín besta fjárfesting“ var hans viðkvæði. Sjálfur var hann víðlesinn, fylgdist með öllu bæði innanlands og utan og tók þátt í pólitík á meðan hann var á Siglufirði. Þar var hann á lista Sósíalistaflokksins sem vann mikinn kosningasigur í bænum. Hann átti stóran þátt í stofnun MÍR þar og varð fyrsti forseti félagsins

Kristín segir blaðamanni frá foreldrum sínum

Amma hálfri öld á undan sinni samtíð

Kristín leitaði víða fanga þegar hún skrifaði bókina og talaði við marga. Barnabörn þeirra Jónu og Jóns, sem eru tólf skrifuðu minningar sínar um afa og ömmu í bókina.  Kristín segir að þó minningar þeirra séu svipaðar hafi þau haft hvert sitt sjónarhorn. Þau töluðu öll um hugleiðslu ömmu sinnar og að hún hefði verið mikið í yoga. Sumum fannst hún sérvitur vegna þess að það gerði þetta enginn nema hún. Hún hélt yoganu ekki að þeim, en þau gerðu öll æfingarnar með henni þegar þau voru í pössun. Eitt barnabarnanna fór nýlega í hópefli á vinnustaðnum sínum og það var byrjað á yoga leikfimi. Hann glotti allan tímann og þegar hann var spurður hvernig honum hefði þótt, var svarið: „Ég kann þetta allt, ég lærði það hjá ömmu fyrir mörgum áratugum“.  Annað barnabarn sem býr í Bandaríkjunum og stundar þar yoga, sagði að það væri merkilegt að amma hans hefði verið hálfri öld á undan sinni samtíð.

Dýrmætt að þekkja forfeður sína

En hvaða þýðingu finnst Kristínu það hafa að skrifa slíka bók?  „Það hefur mikla þýðingu fyrir fjölskylduna“, segir hún. „Það er mikilvægt að þekkja forfeður sína, foreldra sína, afa og ömmur. Ég tel það mjög dýrmætt. Þau höfðu sín sérkenni og voru að mörgu leyti sérstök.  Það er mikilvægt fyrir barnabörnin að geta speglað sig í þessum sérkennum til að skilja sig sjálf betur.  Þetta er líka ákveðin virðing við foreldra mína. Þannig lifir saga þeirra áfram með afkomendunum. Mamma var frumkvöðull og brautryðjandi að ýmsu leyti. Það er mikilvægt að barnabörnin viti það og skilji. Þeim fannst gott að koma til hennar, þar var svo mikil ró og svo mikill friður og engin takmörk fyrir því sem þau máttu gera heima hjá henni.

Ráðleggur fólki að byrja strax

Kristín ráðleggur þeim sem huga að því að skrifa sögu foreldra sinna að byrja strax. Það séu svo margir á þeirra aldri farnir. Það sé tímaspursmál að ná í skottið á þessu fólki og fá þeirra sjónarhorn á foreldra sína. „Annað sem er mikilvægt eru bréf, bréf og aftur bréf. Þau eru bestu heimildirnar því minnið er ekki óbrigðult. Það þarf að tala við ættingja og vini og leita uppi bréf“, segir Kristín.  Hún segist líka hafa farið á Þjóðskjalasafnið og önnur skjalasöfn úti á landi, svo sem á Siglufirði, Kópaskeri, Ísafirði og Bolungarvík. Þannig hafi hún fengið nákvæmar upplýsingar um hvar fólk bjó hverju sinni og búið til tímalínu. Mér fannst ég hafa fastara land undir fótum með þær upplýsingar í höndunum“, segir hún.

Stórmerkilegt viðtal við ömmu mína

Kristín segist ekki hafa tekið neitt efni uppá band. „En það er til stórmerkilegt viðtal við ömmu mína Kristínu, sem var tekið þegar hún var 94ra ára. Ég notaði það, en það var sonur hennar sem tók það á sínum tíma“, segir hún og bætir við að fjölskyldan sé öll að fara vestur á ættarmót. Þangað muni allir koma, öll börn og barnabörn þeirra Jónu og Jóns. Það megi segja að bókin sé öðrum þræði fjölskyldusaga, þó vissulega sé áherslan á þau, þar sem minningar systkina hennar komi einnig mikið við sögu.

 

 

 

Ritstjórn júlí 14, 2017 10:58