Tengdar greinar

Senjóríturnar sungu fyrir afmælisbarn í afneitun

Kvennakórinn Senjóríturnar heldur vortónleika í Seltjarnarneskirkju á laugardaginn kemur klukkan 15, þó langt sé liðið á október. Hildur Bjarnadóttir ein senjórítanna segir að ástæðan fyrir vortónleikum hópsins á þessum árstíma, sé að í flestum fjölskyldum séu miklar annir á vorin. Það sé verið að lesa undir próf, ferma og útskrifa. „Þær eru alltar svo uppteknar á vorin þannig að vortónleikarnir fóru að dragast fram á haustið“, segir hún og hlær.  Það kostar 3000 krónur inná tónleikana og Hildur segir það hverrar krónu virði. „Það er svakalega flott prógramm og við förum alveg á kostum, syngjum bæði nýja og gamla slagara“.

Framhaldsdeild Kvennakórs Reykjavíkur

Eins og heitið gefur kannski til kynna, eru Senjóríturnar kór eldri kvenna. „Þetta er framhaldsdeildin af Kvennakór Reykjavíkur og margar voru þar áður, en tóku svo þátt í að stofna eldri deild kórsins. Við erum með frábæran stjórnanda, konu frá Ungverjalandi sem heitir Ágota Jóo. Maðurinn hennar, Vilberg Viggósson, spilar undir hjá okkur og er búinn að ná saman hljómsveit til að spila undir á laugardaginn“.

Eitthvað skemmtilegt til að gera í ellinni

Hildur er búin að vera í kórnum í 10 ár, en hún hætti að vinna hjá Ríkisútvarpinu þar sem hún var lengi fréttamaður, þegar stofnuninni var breytt í opinbert hlutafélag. „Síðan hef ég sungið með senjórítunum. Ég fór að finna mér eitthvað skemmtilegt að gera í ellinni, því mér finnst ekki gaman að spila á spil. Ég var alltaf í badminton og jók það, ekki veitir nú af, og svo er ég í gönguhópi“. Hildur les líka fornsögurnar sér til ánægju, en segist raunar hafa verið byrjuð á því áður.

Hildur í afmælinu þar sem hún hélt uppá að vera ennþá 79 ára

Slá í gegn með göngugrindur og heyrnartæki

Um 80 konur eru skráðar í kórinn, þó þær mæti ekki allar alltaf. Sumar eru komnar með göngugrindur og koma oft með á æfingar og syngja ef þær treysta sér til. „Við æfum einu sinni í viku, nema fyrir tónleika. Þá æfum við oftar. Við byrjum svo starfsárið á því að fara í æfingabúðir, yfirleitt á hótel úti á landi. Við höfum farið bæði í Borgarnes og á Selfoss. Á þriggja ára fresti förum við svo á kvennakóramót. „Þó ég segi sjálf frá, sláum við alltaf í gegn við erum svo hlægilegar, með göngugrindurnar og heyrnartækin. Við syngjum allt, líka lög sem karlakórar hafa tekið. Nú erum við með Mama mia lög á dagskránni, en yfirleitt erum við í léttari kantinum og tökumst ekki á við stórverkefni eins og til dæmis kórverk eftir Bach“. Hildur segir að kosturinn við að vera í kórnum, sé að maður eignist nýja vini á síðustu metrum ævinnar. Góða, skemmtilega, klára og líflega vini. „Við höldum veislur og förum í ferðalög. Notum síðustu ævidagana til að gera eitthvað skemmtilegt“.

Hélt uppá að vera ennþá 79 ára

Núna í haust hélt hún veglega uppá það, nokkrum dögum fyrir áttræðisafmælið, að vera ennþá 79 ára. „enda í hálfgerðri afneitun“ segir hún kímin.  Gestirnir voru á annað hundrað, sem heiðruðu afmælisbarnið með nærveru sinni. Senjóríturnar voru auðvitað mættar og tóku lagið fyrir afmælisbarnið og gestina.

 

Ritstjórn október 23, 2018 12:29