Tengdar greinar

Síðasti skollinn til að deyja  

Bækur Richard Osman um ellilífeyrisþegana í Coopers Chase sem mynda Fimmtudagsmorðklúbbinn eru ekki hvað síst skemmtilegar vegna þess hve sérstæðir og vel unnir karakterarnir eru. Fjórða bókin, The Last Devil to Die, kom út á síðasta ári og þegar orðrómur um að þetta yrði síðasta bókin fór af stað risu lesendur upp og mótmæltu. Til allrar lukku reyndist þarna reykur án nokkurs elds og fimmta bókin er væntanleg.

Sagan byrjar á að nýr íbúi í eftirlaunaþorpinu mætir til hádegisverðar með spæjurunum okkar snjöllu og segir þeim allt um ungu konuna, Tatiönu, sem hann er í samskiptum við á netinu. Þau eru ástfanginn en alltaf eru einhverjir meinbugir á að Tatiana komist til Englands frá Litháen til að hitta ástina sína. Mervyn er þegar búinn að senda henni fimm þúsund pund af þessum sökum og enn þarf meira. Þau hin eru fljót að kveikja á að hér liggi fiskur undir steini og ákveða að hjálpa Mervyn þótt hann sé sannarlega ekki mjög skemmtilegur náungi.

Hans vandi verður þó smár þegar þau Elizabeth, Joyce, Ron og Ibrahim frétta að Kuldesh, antíksalinn vinur Stevens, sem aðstoðaði þau í einni af fyrri bókum hefur verið myrtur. Þau hefjast þegar handa við að skoða málið og komast að því að kassi fullur af heróíni er horfinn og líklega mun hann vera lykillinn að málinu. Þetta verður til þess að félagarnir komast á slóð heróínsmyglara, falsara antíkmuna og stórhættulegra morðingja. Já, það eru sannarlega fáir rólegir dagar í lífi meðlima Fimmtudagsmorðklúbbsins.

En þessar bækur væru lítils virði ef ekki væri fyrir persónulegar sögur hvers og eins. Elizabeth þarf að horfast í augu við að Stephen verður veikari og veikari af alzheimer, Joyce reynir að rækta sambandið við dóttur sína, Ron og Pauline þurfa að læra að sambönd krefjast málamiðlana og Ibrahim opnar sig loks um fortíð sína. Honum hefur hingað til verið meira lagið að fá aðra til að tala um sinn sársauka. Það eru þessar persónulegu sögur og eðli karakteranna sem gefa þessum bókum aukið líf og lit.

Richard Osman er velþekktur í Bretlandi, enda sjónvarpskynnir, þáttastjórnandi, gamanleikari og framleiðandi. Þekktastur er hann fyrir að framleiða, skrifa og dæma í spurningaþáttunum Pointless en þeir snúast um að svara spurningum um aðskiljanleg efni helst þannig að þú náir því sem minnst er vitað um efnið. Fyrst eru áhorfendur BBC spurðir hvað þeim detti fyrst í hug þegar þessi spurning er borin fram og það sem fæstir nefna eða helst engir er það svar sem þátttakendur græða svo mest á. Þegar Richad hóf skrifa bækur var því nokkuð tryggt að fólk hefði áhuga á því sem hann hafði að segja. En hans dásamlega kímni og hið sérstæða sjónarhorn sem hann valdi í bókunum skapaði þeim vinsældir ekki bara í heimalandinu heldur um allan heim.

Fyrstu bækurnar Fimmtudagsmorðklúbburinn, Maðurinn sem dó tvisvar og Skotið sem geigaði hafa allar komið út á íslensku og vonandi kemur Síðasti skollinn til að deyja fljótlega.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn maí 16, 2024 07:00