Skólinn sem útskrifar nemendur ekki

Hilmar sem skipstjóri á skuttogaranum Júlíusi Geirmundsyni sem hann sigldi frá Ísafirði til Reykjavíkur haustið 2018 en skipið heitir í höfuð föður afa Hilmars.

Hilmar Snorrason, skólastjóri Slysavarnaskóla sjómanna, segir að eðli málsins samkvæmt sé ekki hægt að útskrifa nemendur úr þessum skóla því ekki sé mögulegt að verða fullnuma í faginu. Öryggismál sé hið dæmigerða endurmenntunarfag. “Við getum aldrei hallað okkur til baka og hugsað að nú sé nóg að gert. Öryggi um borð í skipum er óendanlega mikilvægt og við megum aldrei slaka á varðandi það,” segir Hilmar með þunga.

Tók við skólanum 1991

Hilmar tók við sem skólastjóri Slysavarnaskólans 1991 en fram að því hafði hann verið á skipum hjá Skipaútgerð ríkisins eða Ríkisskipum og sem skipstjóri hjá þeim frá 1984. “Skipaútgerð ríkisins hefur komið við sögu fjölskyldu minnar allt frá því móðir mín var þerna á skipum þeirra á stríðsárunum,” segir Hilmar. “Pabbi hafði verið togarasjómaður og mamma kom honum í vinnu á strandferðaskipunum. Mamma kom í land eftir stríðið en allt frá því að ég man eftir mér var ég að skottast í kringum pabba á þessum skipum. Það kom því aldrei neitt annað til greina hjá mér en að verða sjómaður þegar ég átti að ákveða sjálfur hvað ég vildi læra.

Var alltaf sjóveikur

Hilmar minnist þess að þegar hann kláraði skólann á vorin hafi hann alltaf farið í túr með föður sínum. Eitt skiptið þegar hann var að verða 15 ára voru þeir staddir á Akureyri þegar tveir úr áhöfninni stungu af. “Skipstjórinn spurði þá pabba hvort hann mætti ekki skrá strákinn í áhöfnina svo hann þyrfti ekki að sækja menn suður til Reykjavíkur. Pabbi sagði að það væri allt í lagi og ég var alveg til í það. Svo lögðum við af stað í blankalogni frá Akureyri og ég átti að mæta á vakt klukkan fjögur. Það var svolítil undiralda og kukkan var ekki orðin hálf fimm þegar ég var orðinn bullandi sjóveikur og ældi. Ég settist aftast á skipinu að reyna að jafna mig en eftir klukkutíma birtist pabbi og segir “hvað ertu að gera hér strákur?” og ég gat ekki svarað fyrir sjóveiki og þá sagði hann þessi fleygu orð sem sátu í mér lengi: “Ja, þú verður aldrei sjómaður sonur sæll,” og fór með mig niður í klefa.

Nikkaði kankvís til pabba

“Svo leið og beið og þegar ég fór í fyrsta sinn sem skipstjóri á skipi út úr Reykjavíkurhöfn kl. hálfsjö að morgni, þá 27 ára gamall, var pabbi mættur niður á bryggju og þegar ég sigldi út nikkaði ég til hans hróðugur. Þetta var sonurinn sem “aldrei yrði sjómaður” að fara jómfrúrferðina sem skipstjóri.” Og síðan hefur Hilmar starfað við verkefni tengdum sjónum.

Sjómennskan er gott líf

Hilmar valdi sjóinn sem sinn starfsvettvang og hefur ekki séð eftir því. “Auðvitað eru kostir og gallar við sjómennskuna,” segir Hilmar. “Gallarnir eru helstir þeir að maður tapar af mörgum gæðastundum með fjölskyldunni en það er eitthvað sem maður verður að sætta sig við. Það venst og annað kemur í staðinn. Kostirnir eru þeir að maður sefur á vinnustaðnum, menn  búa til andann sem þeir vilja hafa um borð og allir vilja hafa góðan anda. Ég get sagt með sanni að ég hafi aldrei verið á skipi sem mér hefur ekki liðið vel á. Eitt skip er undantekning en á því skipi var þrifnaður ekki nógu mikill þótt mannskapurinn hafi verið góður. Kúltúrinn um borð var mér ekki að skapi en ég var þar bara í viku.”

Uss, að maður skuli vera að fara í einn túr í viðbót…

Hilmar á hlut í skútu og ver fríum gjarnan á sjó. Skútan er nú í staðsett í Grikklandi.

Hilmar segist oft hafa siglt með mönnum sem fussuðu og sveiuðu fyrir hverja einustu ferð og höfðu allt á hornum sér. “Auðvitað voru stundir sem maður hefði frekar viljað vera heima en ég valdi þetta sjálfur og þá var það bara þannig. Það þýddi ekkert að ergja sig sífellt heldur var gott að muna að ánægjustundirnar voru líka margar. Það má alveg horfa á að maður gistir á vinnustaðnum svo ekki er langur tími sem fer í bið í umferð bara til að komast á vinnustaðinn á hverjum morgni. Þetta er allt spurning um viðhorf.”

1991 voru 13 banaslys á sjó

Hilmar var ráðinn skólastjóri Slysavarnaskólans í kjölfar þess að um skólann voru sett lög. Fram að því var valkvætt fyrir sjómenn að sækja námskeið í skólanum. “Skólinn var stofnaður 1985 og eins og gengur höfðu margir sjómenn engan áhuga á að láta kenna sér það sem þeir kunnu,” segir Hilmar. “Það er með ólíkindum að horfa til baka og sjá hvað sjómenn gengu langt í mótþróanum við öryggisnámskeiðin. Sumir gengu svo langt að kæra til umboðsmanns Alþingis að búið væri að lögbinda að nú ætti að þvinga þá til að auka öryggi sitt um borð. Þessir sömu menn komu á námskeiðin með kolrangt hugarfar.”

Viðhorfið breyttist

Hilmar áttaði sig á að til að ná árangri við að kenna sjómönnum  slysavarnir var að nálgast þá með jákvæðni að vopni. Hann er nú búinn að vera í þessu starfi í 29 ár og segist vera búinn að sjá margt og miklar breytingar til hins betra á þessum tíma. “Ég man eftir einum sem rauk út eftir námskeiðið fljótlega eftir að ég tók við um leið og hann sagði “þetta var nú fundið fé fyrir þennan skóla” eins og við hefðum sannarlega verið að féfletta hann. Annar sat hér hjá mér á fimm daga námskeiði og var alveg í keng af reiði yfir að þurfa að sitja þarna. Ég sá hann þiðna dag frá degi og í lokin sagði hann “Ég kom hingað með því hugarfari að hér gæti ég ekkert lært en ég hef gjörbreytt skoðun minni. Svona viðbrögð sjómannanna gerðu allt erfiðið þess virði.”

Langstærsti sigurinn er viðhorfsbreytingin

Hilmar nýtur lífsins um borð í skútu sinni.

Hilmar segir hiklaust að stærsti sigur hans í núverandi starfi sé viðhorfsbreyting sjómanna og ekki síður útgerðanna og stjórnvalda. “Við vorum eitt sinn með námskeið útiá landi þar sem við höfðum verið að mæla með ákveðnum búnaði fyrir sjómennina sem myndi létta vinnu þeirra um borð mikið. Þeir fóru með þessa hugmynd til útgerðastjórans sem sagði þvert nei. Þetta væri ekki í reglum og væri svo dýrt að það kæmi ekki til greina því. Þessi útgerðarstjóri missti vinnuna nokkrum árum seinna og ákvað að fara til sjós. Hann sat þá námskeið hjá okkur  og sagði við mig að því loknu  “ofboðslegur asni var ég að neita áhöfninni um bættan aðbúnað hér um árið.”

Við sjáum að alls staðar að yfir útgerðinni í landinu er fólk sem er afskaplega hliðhollt starfsemi okkar hér. Nú eru settar reglugerðir um öryggisþjálfun sjómanna og við erum á undan öðrum þjóðum að krefjast endurmenntunar á námskeiðum í öryggisþjálfun fyrir sjómenn. Þær reglur eru settar á 2002 í tíð Halldórs Blöndal. Á eftir Halldóri kom Sturla Böðvarsson. Þessir tveir ráðherrar voru mjög vakandi fyrir öryggisþættinum og viljugir að hlusta á okkur. En auðvitað þarf meira en einn eða tvo menn til að koma breytingum á. Það er alveg eins hér í skólanum. Með mér er og hefur verið rosalega hæft fólk sem er að gera góða hluti með mér. En auðvitað þarf fyrst og fremst sjómanninn sjálfan til að koma breytingunum á.”

Útgerðin, stjórnvöld og sjómaðurinn

“Þegar ég byrjaði að vinna hér við skólann var verið að kenna sjómönnum hvað ætti að gera þegar allt væri komið í óefni, þ.e. að slökkva eldana. Rökréttara fannst mér að væri að koma í veg fyrir að slysin ættu sér stað. Hægt og bítandi síaðist þetta sem betur fer inn,” segir Hilmar. “Svona árangur kemur ekki daginn eftir að lögin eru sett. Það hefur tekið okkur kynslóð sjómanna að taka inn boðskapinn og nú dettur engum í hug að ganga reiður út af öryggisnámskeiði hjá okkur. Ríkisstjórnin gaf Slysavarnafélaginu þetta skip 1998 og hér erum við búin að vera síðan en þetta skip er gamla Akraborgin. Fyrst þótti þetta skip allt of stórt fyrir okkur en hefur nú margsannað sig. Við erum með stærstu sundlaug í heimi til að æfa okkur í sem er Atlantshafið. Ég hef komið í skóla erlendis þar sem eru sérstakar sundlaugar fyrir æfingar í flottum byggingum og allt voða fínt. Hér erum við með bestu hugsanlegu aðstæður því við æfum sjómennina við sömu aðstæður og þeir geta sannarlega lent í vanda í.” Og nú er Hilmar búinn að koma auga á annað skip sem honum þykir tilvalið næsta skref fyrir Slysavarnaskólann en það er gamli Herjólfur. Hann er hvergi nærri hættur þótt þegar hafi verið lyft grettistaki við að koma öryggismálum sjómanna í þolanlegt horf miðað við ástandið sem var fyrir aðeins 20 árum. „Við megum aldrei slaka á. Málið snýst um dýrmæt líf!

Ráðinn til Namibíu

 

Hér eru Hilmar og Áslaug í lok desember sl.á ferð um Namibíu, Botswana og Zimbabwe.

Hilmar var lánaður til Þróunarsamvinnustofnunar 2003 niður í Namibíu að aðstoða við endurskoðun og uppbyggingu á öryggisfræðslu við sjómannaskóla í Walvis Bay. Það var hluti af aðstoð Íslendinga við Namibísku þjóðina. Þau hjónin voru í Namibíu í hálft ár og kynntust heimamönnum á meðan á dvöl þeirra stóð og eiga enn að vinum. Hilmar segir að talað sé um að þeir sem kynnist Afríku skilji hluta af hjarta sínu þar eftir og hann sé sammála þeirri fullyrðingu. Þau hjónin eru nýkomin úr ferð þaðan sem reyndar var þeirra fimmta ferð til landsins. Gríðarleg uppbygging hefur verið þar í landi frá því þau komu þangað fyrst og þar þykir þeim gott að vera. Namibía er líklegast eitt vestrænasta ríki Afríku að þeirra mati. Hilmar segir að nýlegar fréttir frá Namibíu um að stór hópur fólks þar svelti séu ekki réttar. Þau hafi alls ekki orðið þess vör á ferðum sínum að hungursneyð ríkti í Namibíu. Hilmar segir að vissulega hafi uppskerubrestur áhrif þegar hann eigi sér stað en það sé undantekning. “Í venjulegu ári líður fólk í sveitum ekki skort þótt það lifi ekki endilega í vellystingum,” segir Hilmar. “Mikil velmegun er þar víða þótt sums staðar sé vatnsveita ekki fyrir hendi. Fara þarf þá langan veg eftir vatni, en það er þeirra menning. Við skrúfum frá krana og þætti rosalegt að þurfa að sækja vatn gangandi langan veg en við verðum að gæta þess að setja ekki alla í sama kassa eða miða líf þeirra við okkar vellystingar. En auðvitað má gera betur við að aðstoða þau sem eiga lítið við að hjálpa sér sjálf og mín reynsla er að allur almenningur sé mjög fús að læra og tileinka sér það sem verið er að kenna þeim. Í borgum og bæjum er húsakostur almennt góður og víða glæsilegri en við eigum að venjast,” segir Hilmar sem fékk tækifæri til að aðstoða Namibíubúa og ber landi og þjóð hikstalaust góða sögu.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ritstjórn febrúar 7, 2020 08:12