Tengdar greinar

Skráði 200 skólasystkini sín í Framsóknarflokkinn

Arnar saga Björnssonar – Ekki standa á öðrum fæti allt lífið,  er komin út, skráð af dóttur hans Kristínu Ernu Arnardóttur.  Blaðamaður Lifðu núna er ekki frá því að það færist í vöxt að fólk skrifi bækur um ævi foreldra sinna, mæðra eða feðra, nema hvorutveggja sé.  Slíkt er ómetanlegt fyrir afkomendur þeirra sem í hlut eiga.

En hvers vegna ákváðu þau feðginin að skrifa þessa bók? Það voru Herborg vinkona Arnar og Kristín Erna sem fengu hugmyndina.  Kristín Erna segist hafa áttað sig á að saga hans væri áhugaverð eins og lífssögur svo margra annarra. Hún minnist þess þegar hann, sem hafði verið skrifstofublók, flutti út á land ásamt Þórdísi Vilhjálmsdóttur unnustu sinni sem var snyrtifræðingur. Þau gerðust bændur á Gauksmýri í Vestur- Húnavatnssýslu og söðluðu þannig  algerlega um. Kristín Erna segir að þetta hafi verið áhugavert. Þórdís hafði verið umboðsmaður fyrir Mary Quant snyrtivörur og unnið í Karnabæ. „Við fórum niður í Karnabæ ég og vinkonur mínar til að horfa á nýju kærustuna hans pabba“, rifjar hún upp.

Örn var tregur til að  láta skrifa ævisöguna, en lét tilleiðast. Það varð úr að þau hittust á miðvikudögum eftir vinnu hjá Kristínu Ernu, töluðu saman í þrjá klukkutíma og borðuðu svo saman. Þessi vinna tók 3 ár.  Örn sagði henni frá og hún pikkaði það niður á tölvuna. Þau skoðuðu einnig bækur þar sem forfeður þeirra komu við sögu og fengu frekari upplýsingar frá ættingjum. Þegar þau hófust handa setti hún skilyrði. „Þú verður að svara öllu sem ég spyr um og ég vil fá allan sannleikann, ekkert hálfkák“.  Örn samþykkti og afraksturinn er þessi bók.

Örn Björnsson var sannarlega kraftmikill athafnamaður allt frá barnæsku. Hann starfaði í fyrstu við skrifstofustörf, varð svo bóndi, en sneri sér seinna að bankastörfum og varð að lokum útibússtjóri Íslandsbanka á Húsavík, þar sem hann endaði starfsferil sinn, nokkrum dögum fyrir bankahrunið 2008.

Örn byrjaði að vinna fyrir Framsóknarflokkinn 12 ára, en foreldrar hans voru bæði sannir Framsóknarmenn. Þegar hann var kominn í Gaggó Vest voru þar nokkrir strákar, sem höfðu allir unnið í kosningum fyrir flokkinn og það átti eftir að hafa sínar afleiðingar.

Eitt árið var haldið sérstakt ball fyrir okkur unga fólkið sem höfðum unnið við kosningarnar. Ballið var haldið í matsalnum á Sölvhólsgötu þar sem húsakynni SÍS voru. Við vorum svo hrifnir af salnum að við báðum um að fá hann lánaðan til að halda skólaball. Á þessum tíma voru haldin þrjú böll yfir árið í Gaggó Vest. Jólaball, árshátíð og lokaball sem okkur fannst mjög lítið. Þess vegna datt okkur í hug að bæta við balli og fá salinn hjá SÍS lánaðan. Það var samþykkt með því skilyrð að ekkert áfengi væri haft um hönd. Ballið var haldið og tókst að öllu leyti vel nema einn mætti fullur og var leiddur út. Það var svo gaman á ballinu að við ákváðum að biðja aftur um að fá salinn lánaðan fyrir annað skólaball. Þá var okkur sagt að við yrðum að ganga í félag ungra Framsóknarmanna til að fá salinn. Það var nú aldeilis auðvelt. Við fengum tvo árganga í skólanum til að ganga í FUF félag ungra Framsóknarmanna. Helbláir foreldrar fóru að spyrjast fyrir um það hvað kostaði á ballið – hver aðgangseyririnn hefði verið – og fengu að vita að 200 nemendur hefðu skráð sig í FUF – félag ungra Framsóknarmanna.

Íhaldið varð brjálað! Þegar íhaldsbörnin voru búin að gefa skýrslu um málið heima, var hringt í skólastjórnendur og við sem stóðum að þessu kærðir. Auk mín voru Elías Sveinbjörnsson og Þorvaldur Jónasson forsprakkarnir. Við vorum kallaðir til Kristjáns Benediktssonar yfirkennara sem sagði að þetta væri svo alvarlegt brot að það yrði að reka okkur úr skólanum. Þegar við löbbuðum út sagði Kristján sem var mikill framsóknarmaður,

Ég hef aldrei rekið neina með eins mikilli ánægju eins og ykkur

Við vorum reknir í viku og fagnað eins og þjóðhetjum þegar við komum aftur. Svo fóru íhaldsforeldrarnir í það að mæta á skrifstofu Framsóknarflokksins til að skrá börnin sín úr flokknum. Þetta var þriðji bekkur í Gaggó Vest og við vorum 15 ára. Skólinn var í JL húsinu.

Örn varð útibússtjóri Alþýðubankans á Blönduósi og seinna útibús Íslandsbanka  á Húsavík. Hann hafði þann háttinn á að fara um að heilsa upp á bændur og búalið í Húnavatnssýslunni og seinna einnig fyrirtæki og  sjómenn á Húsavík. Þannig vildi hann kynna sér samfélagið þar sem hann starfaði. Enda sagði hann þegar hann var í atvinnuviðtali vegna starfsins á Blönduósi.

-Ég sér fyrir mér ný vinnubrögð, ég vil hitta fólk, maður á mann í þeirra umhverfi, ekki vera stóri karlinn lokaður inná skrifstofu með viðtalstíma, heldur fara til fólksins.

Á Húsavík tók Íslandsbankaútibúið að vaxa mjög undir stjórn Arnar . Gerðar voru miklar kröfur um hagnað og hagræðingu en Arnar vildi stækka útibúið. Ásmundur Stefánsson sem þá var yfir rekstrardeild bankans var því andvígur. Þrátt fyrir það tókst Erni að fá það í gegn í bankanum.

Einu sinni var hringt frá aðalstöðvunum og sagt að það yrði að fækka starfsfólki um einn. Það var alltaf þessi hagræðingarkrafa og virtist ekkert spáð í það hvað útibúið jók við viðskiptin. Mín hagræðing fólst í því að ráða ekkert aukafólk þó oft væri brjálað að gera þegar nýir viðskiptavinir hrúguðust inn. Þannig taldi eg mig koma til móts við endalausar hagræðingarkröfur. Ég mótmælti hafðlega þesari skipun um fækkun, en það fékk lítinn hljómgrunn. Ég hugsaði málið vel yfir nótt og var með svarið reiðubúið þegar hringt var í mig aftur. Mér var hrósað fyrir að taka svona fljótt og vel á máli sem væri mér ekki að skapi.

Hvern ætlar þú að láta hætta?

Mig sjálfan, sagði ég.

 

 

 

 

Ritstjórn nóvember 9, 2021 14:40