Tengdar greinar

Skreppitúrinn varð að sjúkrahúslegu

Bestu stundir Jóhönnu eru úti í náttúrunni.

,,Ég hefði sannarlega viljað læra um þakklæti og þolinmæði á annan hátt en þennan,“ segir Jóhanna Björk Briem sem segist hafa orðið að tileinka sér þessa tvo eftirsóknarverðu eiginleika til að komast í gegnum mikla raun. Hún mölbraut á sér annað hnéð í ágúst í fyrra, svo illa að hún þurfti að fara í tvær miklar aðgerðir. ,,Ég var ekki bara með brotið hné heldur líka mölbrotna sál,“ bætir hún við. ,,Læknirinn sagði mér uppörvandi eftir aðgerðina að ég myndi líklegast getað klifrað upp á fjall en ekki niður það aftur,“ segir Jóhanna brosandi. ,,Mér til mikillar gleði er sjúkraþjálfarinn minn ósammála og hann ætlar að koma mér niður fjallið aftur. Það ótrúlega gerðist að þegar ég fór að hugsa um að kannski gæti ég ekki stundað fjallgöngur aftur að þá var mér í raun alveg sama. Ég bara fann fyrir svo miklu þakklæti og æðruleysi yfir því hvað ég var nú þegar búin að fara á mörg fjöll að ég var alveg sátt við að hálendisferðir yrðu á annan hátt í framtíðinni. Ég hef gengið allar þessar helstu gönguleiðir á Íslandi og farið fjölda hestaferða upp á hálendið en svo kemur það bara í ljós hver kjarkurinn verður varðandi það að fara aftur á hestbak.“

Sjúkraþjálfarinn sagði Jóhönnu strax að hún þyrfti fyrst og fremst þolinmæði og endalausa vinnu til að komast á þann stað sem hún vildi vera. Hún segist ekki vera þekkt fyrir þolinmæði og rak sig óþyrmilega á að það var engin flýtileið til í þessari vinnu. ,,Hann sagði mér strax að ég myndi fara eitt skref áfram og tvö afturábak þangað til árangur næðist og það myndi enginn gera þetta fyrir mig. Árangurinn myndi algerlega velta á því hvað ég yrði sjálf dugleg að gera æfingarnar og ég tók hann mjög alvarlega enda óskaplega heppin með sjúkraþjálfara.“

Sumarhús fyrir austan fjall

Jóhann skoðar hestana með ömmu sinni.

Jóhanna, sem er 64 ára gömul, er gift Guðmundi Þorbjörnssyni verkfræðingi en þau hjónin eru að byggja sumarhús fyrir austan fjall þar sem þau hafa lengi átt landskika. Þar hafa þau verið með hesta og byggðu upphaflega lítið gestahús sem þau hafa getað nýtt á meðan sjálfur bústaðurinn hefur verið í byggingu. Þau skutust austur í ágúst í fyrra til að plasta túðu í lofti af því von var á votviðri og þau vildu koma í veg fyrir að vatnið læki inn í hálfbyggt húsið. Jóhanna er vön að klifra í stiga og mála og gera yfirleitt allt sem hún hefur þurft að gera heima og þess vegna hikaði hún ekki við að fara upp í stiga með plastið og límrúllu í sveitinni. Þar sem hún var að festa plastið missti hún jafnvægið og féll á steingólf með þeim afleiðingum að annar fótleggurinn brotnaði mjög illa. Þetta þýddi tvær aðgerðir og setja þurfti nýjan hnjálið í hægri fót hennar auk beinauppbyggingar.

Sér til lands

,,Ég var flutt með hraði á sjúkrahúsið á Selfossi og þaðan á Landspítalann þar sem aðgerðirnar voru gerðar,“ segir Jóhanna. ,,Ég var svo heppin að dóttir okkar og hennar fjölskylda bjuggu tímabundið hjá okkur vegna framkvæmda á þeirra húsnæði og Guðmundur gat unnið heima að hluta til svo ég gat farið heim í stað þess að fara á Reykjalund. Ég var svo illa stödd andlega að ég gat ekki hugsað mér að fara af einni stofnuninni á aðra. Þá vildi ég frekar reyna að raða mér saman heima og það hefur tekið rosalega mikið á, bæði á mig og allt mitt fólk. Ég brotnaði margoft niður og sá ekkert

Óliver Bjarni fær ómælda hrifningu ömmu sinnar.

ljós í þessu myrkri en nú sé ég til lands,“ segir Jóhanna bjartsýn.

,,Til að byrja með var ég algerlega ósjálfbjarga og öðrum háð um allt. Það eitt var rosalegt áfall og tók mig tíma að átta mig á. Ég hef, eins og aðrar mæður, gjarnan verið í þjónustuhlutverki en þarna þurfti ég að þiggja hjálp við allt. Ég fékk heimasjúkraþjálfun til að byrja með, svo kom göngugrind og að síðustu hækjur. Eftir hálft ár er ég komin á þann stað að geta sleppt hækjunum. Þennan árangur á ég ýmsum að þakka, ekki síst sjúkraþjálfaranum mínum.

Hafði tileinkað sér ýmis meðul sem nýttust

Jóhanna hefur starfað víða, á eigin stofu sem löggiltur sjúkranuddari og í HÍ og HR við verkefnastjórnun. I dag á yoga Nidra hug hennar allan en hún hefur leitt yoga Nidra í Heilsuklasanum, í fyrirtækjum og víðar og verið með námskeið í Endurmenntun í HÍ í 6 ár. Jóhanna er með meistaragráðu í áhættuhegðun og forvörnum frá HÍ. Segja má  að það endurspegli áhugasvið hennar og ástríðu hvað við getum gert sjálf til þess að búa við góða heilsu, andlega og líkamlega. Allt nám Jóhönnu hefur sannarlega nýst henni til að sjá ljósið aftur eftir þetta áfall sem hún varð fyrir.

Náði í alla hjálp sem bauðst

Þar sem Jóhanna hefur lengi leitað sér þekkingar á sviði hugar og heilsu þekkti hún aðrar viðbótarmeðferðir sem hún nýtti óspart. Hún segist hafa verið svo heppin að hafa verið búin að læra ákveðna áfallavinnu þegar hún lenti í þessu slysi og fékk síðan aðstoð frá vinkonu sinni í Sviss við að vinna úr áfallinu sem sat „frosið“ í líkamanum.

 ,,Ég tamdi mér líka markvisst að stunda hugleiðslu þótt mig langaði ekkert til þess en vissi að það myndi gera mér gott.“   Jóhanna nýtti sér heilun, sjúkranudd, höfuðbeina- og spjaldhryggsjöfnun og blómadropa. Allt þetta telur hún hafa hjálpað sér á heildrænan hátt auk sjúkraþjálfunarinnar sem er þó algjör lykill í endurhæfingunni að komast á þann stað sem hún er í dag. ,,Það er þó heilmikið eftir en smám saman birtir til,“ segir hún og brosir.

Óliver Bjarni og Katrín njóta sveitasælunnar með ömmu Jóhönnu.

Þolinmæði, æðruleysi og ekki síst þakklæti

Jóhanna segist hafa fundið út hvað þakklætið er mikilvægt í lífinu. ,,Ég fór að vinna markvisst með að iðka þakklæti og virkilega finna fyrir því í hjartanu sem ég er þakklát fyrir.“

Hún bætir við að það sem hafi komið henni mest á óvart sé þolinmæðin sem hún hefur getað sýnt sjálfri sér. ,,Ég hef alltaf verið mjög dugleg að gagnrýna sjálfa mig, að ég hafi ekki verið nógu þetta eða nógu hitt. Ég er nú hætt að pirra mig á að geta ekki gert ýmislegt heldur hef ég reynt að einblína á það sem ég get gert. Orka mín átti að fara í æfingarnar og ég hef algerlega virt það. Mig langar ekkert alltaf að gera þessar æfingar en geri þær samt. Svo hef ég komist að því að við erum mun sterkari ef hugur og líkami vinna saman og að verið verðum að muna að þakka líkamanum fyrir það sem hann gerir fyrir okkur en tala hann ekki niður og gagnrýna.“  

Vildi koma önnur og betri manneskja út úr þessum erfiðleikum

,,Þetta ferli er búið að vera gífurlega erfitt fyrir mig og ég vissi að ég varð að koma öðruvísi og sterkari út. Ég ákvað að það yrði að vera niðurstaðan. Ég fór að horfa markviss á allan minn fjársjóð, sem er fyrst og fremst fólkið mitt og svo það sem ég gat enn þá gert og kem til með að geta gert. Það er svo magnað að þá breyttist líðanin ósjálfrátt. Þegar neikvæðar hugsanir komu upp gat ég allt í einu stoppað þær og breytt þeim með því að hugsa um það sem ég er þakklát fyrir. Ég nefni sem dæmi hugsuninni um að nú gæti ég ekki farið í fjallgöngu heldur að ég geti nú samt gengið upp og niður götuna. Og í ferlinu hef ég haft nægan tíma til að hugsa og ég fór að sjá hvað ég er búin að upplifa mikið í lífinu. Við erum nefnilega flest að stíma áfram í leit að sífellt nýjum upplifunum og ég var sannarlega engin undantekning. Þarna gafst mér tóm til að staldra við og hugsa og finna sáttina en auðvitað er sorglegt að það þurfti svona slys og alla þessa vanlíðan til að ég kæmi auga á það. Ég elska að ferðast um Ísland og ég sé núna að ég get vel ekið inn á hálendið og gengið þar um. Ég þarf ekki að klifra þangað. Í gegnum heilunina fékk ég líka tækifæri til mikillar sjálfsvinnu og að sjá neikvæða þætti í mér sem ég vildi ekki hafa lengur. Það eru þættir sem ég hef unnið markvisst með að skipta út fyrir eitthvað jákvætt.

Svo byrja ég alla daga á að þakka fyrir daginn í dag því hann er ekki sjálfgefinn. Mér þykir ég svo óendanlega heppin með alla sem komu að þessu máli, hvort sem það var skurðlæknirinn, sjúkraþjálfarinn, heilarinn eða fólkið mitt. Ég finn fyrir svo miklu þakklæti og það er góð tilfinning,“ segir Jóhanna sem er full bjartsýni um að hún muni koma betri og hæfari manneskja út úr þessum miklu hremmingum sem skreppitúrinn í sveitina orsakaði.

Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn mars 3, 2023 07:00