Tengdar greinar

Söknum kóræfinganna allir!

Stefán Andrésson kórfélagi Frímúrarakórsins.

Covid hefur haft áhrif á kórastarf um allt land og þar er Frímúrarakórinn að sjálfsögðu engin undantekning.

Stefán Andrésson er einn þeirra sem hefur verið lengi í kór og sér mest eftir því að hafa ekki byrjað fyrr. Hann er félagi í frímúrareglunni og gerðist meðlimur í kór félagsskaparins fyrir 25 árum. Þar er Friðrik S. Kristinsson kórstjóri og Jónas Þórir Þórisson er einnig reglubróðir og liðtækur í kórastarfinu.

Tónlist hefur verið stór þáttur í lífi Stefáns, allt frá því hann var unglingur í popphljómsveitum eins og Trix þar sem menn eins og Ásgeir Óskarsson trymbill voru líka. Hann byrjaði ungur í lúðrasveit hjá Páli Pampichler og lærði einnig á píanó. Stefán spilaði líka á gítar og blásturshljóðfæri svo hann var liðtækur í ýmiskonar tólistarstefnum. Þegar popptímabilinu lauk sneri Stefán sér að vísnatónlist og spilaði í vísnatríói í nokkur ár. “Ég gerði svo ekkert í tónlistinni í mörg ár eða þangað til ég gekk í frímúrarakórinn,” segir Stefán. “Ég sé núna mest eftir því að hafa ekki byrjað fyrr,  því kórastarf er mannbætandi starfsemi og ótrúlega skemmtileg. Við hittumst alltaf á laugardagsmorgnum frá 9:30 – 12 og það er alltaf tilhlökkunarefni. Yngri Fímúrarafélagar eiga erfiðara með þennan tíma vegna barnauppeldis svo kórmeðlimir eru flestir á miðjum aldri og yfir. Þó reyna margir þeirra yngri að koma því þetta er svo skemmtilegt,” segir Stefán og brosir. “Svo eru ýmis störf sem tengjast kórastarfinu sem eru líka uppörvandi. Nú getum við til dæmis ekkert hist vegna covid þannig að starfið hefur legið niðri frá því í vor og ég veit að við söknum kóræfinganna allir. Á heimasíðu Frímúrarakórsins stendur þessi texti: Megin­til­gangur kórsins er að efla bróðurhug allra söngelskra frímúr­ara­bræðra og syngja á fundum og skemmtunum innan Frímúr­ar­a­regl­unnar.

Stefán segir að Frímúrarakórinn komi saman á haustin í fögrum lundi við Elliðavatn hjá einum bróður og systur og þar grilli kórfélagar saman með systrunum og syngja. “Þetta er upphaf vetrarstarfsins og hefur verið undanfarin ár, nema núna og við erum allir viðþolslausir. Einn frímúrarabróðir okkar er til dæmis að vinna að því, ásamt Friðriki kórstjóra, að búa til program til að senda okkur rafrænt heim þannig að við getum haldið okkur við.”

Stefán segir að allir reglubræður séu velkomnir í kórinn. “Í versta fallir eru menn beðnir að syngja lægra ef einhver vandræði eru,” segir Stefán og hlær. “En allir njóta félagsskaparins og hver syngur með sínu nefi undir dyggri leiðsögn Friðriks kórstjóra,” segir hann að lokum.

Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn október 29, 2020 14:17