Söngkona með reynslu

Jóhanna og Kristján með tvíburana á öðru ári.

Jóhanna Linnet er ein af þessum jákvæðu og kraftmiklu konum sem kemur auga á björtu hliðarnar á tilverunni, jafnvel þótt þær dökku virðist í fljótu bragði vera meira áberandi. Hún er ein af okkar fremstu söngkonum og er tónlistarkennari bæði í MÍT og FÍH skólunum. En sökum samkomubannsins liggur allt tónleikahald niðri um þessar mundir og öll kennsla fer fram á netinu. Jóhanna syngur reyndar ekki mikið þessa dagana þar sem hún er að ná sér eftir lyfja- og geislameðferð við krabbameini í hálsi. Hún stefnir að því að geta sungið aftur en segir að það eigi bara eftir að koma í ljós. Læknirinn hennar sagði henni að ástæðan fyrir því að hún gæti yfirleitt talað núna væri líklega af því hún væri með svo vel þjálfaða rödd því meðferðin hafi verið svo þung. Hún getur vel talað í dag og hljómur raddarinnar verður sífellt sterkari. En nú nýtur hún þess að hlusta á nemendur sína syngja og segir þau öll vera rosalega dugleg á þessum skrýtnu tímum. Hún er farin að vinna fulla vinnu aftur og hlakkar til að mæta á hverjum degi.

Krakkarnir ótrúlega dugleg í nýjum veruleika

Jóhanna segir brosandi frá því að það geti verið kostur að stunda söngnám hjá raddlitlum söngkennara. “Nú þarf ég að leggja enn meiri áherslu á að útskýra fyrir nemendunum hvað hver æfing gerir fyrir þá. Námið fer þess vegna töluvert fram í töluðu máli og það gengur mjög vel þótt þau syngi auðvitað líka mikið. Ég læt þau sem eru í jassnámi lesa af blaði og syngja skala og hljóma. Síðan senda þau mér upptökur af verkefnunum og ég sendi þeim athugasemdir til baka. Ég hef alltaf útskýrt fyrir þeim hvað hver æfing gerir og það er ekki síður nauðsynlegt núna þegar ég á í erfiðleikum með að að láta þau heyra hvað ég á við. Það hefur gengið ótrúlega vel og þau eru mjög móttækileg þó svo að fyrirmyndin mætti hljóma betur,” segir Jóhanna brosandi.

„Verið getur að krakkarnir finni sinn eigin hljóm betur þegar þau geta ekki hermt eftir kannaranum,“ segir Jóhanna og brosir.

Það er kannski ekki rétt að segja að það geti verið kostur að læra hjá raddlitlum kennara en það getur hins vegar verið lærdómsríkt og ekki ólíklegt að þau finni sinn eigin hljóm frekar en apa eftir hljómi kennarans eða fyrirmyndarinnar.

Ég dáist endalaust mikið að því hvað þau eru dugleg og móttækileg fyrir þessu nýja kennsluformi. Við erum öll að læra eitthvað nýtt og þau eru gífurlega fljót að tileinka sér nýjungar.

Meistarakokkur og sælkeri

Jóhanna er þekkt fyrir að vera mikill meistarakokkur og sælkeri. Hún segir að hún sé ein af þeim sem sé með fulla frystikistu og skápa af hráefni sem nú sé einmitt tækifæri til að prófa sig áfram með. “Nú er ég alltaf að gera eitthvað nýtt eins og að baka brauð eða skonsur eða jafnvel ástarpunga,” segir hún og hlær. “Maður verður allt í einu eins og húsfreyja um miðja síðustu öld. Allir skápar í röð og reglu og allt skínandi hreint.”

Ferðalög á tímum Covid

Jóhanna, Kristján og tvíburarnnir á ferðalagi innanlands.

Þau hjónin ætluðu reyndar að fara til Stokkhólms um páskana þar sem dætur þeirra, Herdís og Ingibjörg, 21 árs tvíburar, eru báðar við nám. Önnur í klassískum trompetleik og hin á píanó. Covid 19 kom í veg fyrir það en Jóhanna segir að það geri ekkert til því stelpurnar séu báðar komnar heim og nú fái þau hjónin sannarlega sína páskatónleika.

Skapandi heyrnarleysi

Jóhanna greindist með krabbamein 2018 og segir að hún hafi verið svo endalaust heppin með læknateymið sem er búið að vera í kringum hana allan tímann. “Ég vissi ekki sjálf að ég gæti verið svona rosalega jákvæð mitt í öllu þessu,” segir hún og brosir. “Það er nú án efa af því að frá fyrsta degi voru Arnar Þór Guðjónsson og Agnes Smáradóttir læknar, strax svo jákvæð. Ég trúði þeim og hélt brosandi út í daginn, fór á hnefanum í gegnum mjög erfiða meðferð og hún tókst.”

Jóhanna og Egill Ólafsson eftir frumsýningu á ballettinum „Ég dansa við þig“ sem var sýndur í Þjóðleikhúsinu í 32 skipti 1987.

Fyrstu lyfin sem Jóhanna fékk skemmdu heyrn hennar þannig að hún er bara með 70% heyrn á öðru eyra en 30% á hinu. “En það gerir ekkert til því ég er svo lánsöm að nú er hægt að bæta mér heyrnarleysið upp með heyrnartækjum alveg eins og gleraugu bæta okkur upp sjóndepru. Nú er ég þess vegna með skapandi heyrnarleysi, nokkurskonar valkvæða heyrn sem getur verið mjög hlægilegt og þægilegt stundum,” segir Jóhanna og skellihlær.

Ritstjórn apríl 11, 2020 08:15