Stórkostlegt að geta unnið áfram

Guðrún Björnsdóttir varð sjötug fyrr á þessu ári og þar með var kominn tími til að hætta að vinna eftir 50 ár sem leikskólakennari. Þegar hún færði í tal við vinnuveitendur sína hvort væri ekki tilvalið að hún yrði áfram við vinnu á meðan hún héldi heilsu var tekið sérlega vel í það, þar sem Guðrún hefur alltaf verið metin verðmætur starfskraftur. Ætla má að reynslan sem þessi kona býr yfir sé fjársjóður fyrir samfélagið sem eigi að nýta ,frekar en að senda hana heim á eftirlaunum. Sem betur fer komu vinnuveitendur hennar auga á það en nú þarf hún að gæta þess að vinna ekki of mikið því ef hún gerir það fær hún bakreikning. “Á meðan þau vilja hafa mig á leikskólanum og ég er sæmilega hraust vil ég gjarnan vinna hlutastarf,” segir Guðrún og börnin njóta krafta hennar áfram.

Listaverkið sem spannar feril Guðrúnar, byrjar á mynd af bænum Geitavík 2.

Ólst upp í návígi við Kjarval

Óhætt er að fullyrða að Guðrún sé listamaður þótt hún haldi því ekki á lofti. Hún ólst upp í Geitavík 2 í Borgarfirði eystra en Jóhannes Kjarval ólst upp á Geitavík 1 hjá frændfólki sínu. Hann var farinn þaðan þegar Guðrún var að alast upp en Kjarval dvaldi þar oft við listsköpun sína en bannaði krökkunum í sveitinni að trufla sig. Guðrún man eftir að bróður hennar, sem var frakkur pjakkur, tókst að læðast að Kjarval þar sem hann var að mála úti í náttúrunni. Hún segir að líklega hafi Kjarval líkað áhugi barnsins því hann gaf honum kex sem þau systkinin öfunduðu bróðurinn mikið af.

Tveggja ára barn lærir að sauma.

Lengi býr að fyrstu gerð

Guðrún segir að allt hennar líf hafi örlögin ráðið því að á vegi hennar varð fólk sem hún drakk sig lærdóm af. Þegar hún byrjaði í grunnskóla segist hún hafa verið svo heppin að handavinnukennarinn í skólanum hafi verið sérstaklega fær kona. “Þar var lagður grunnur að öllu mínu starfi,” segir Guðrún hæstánægð með að hafa farið þessa leið. “Eftir grunnskólann var ákveðið að ég færi til Reykjavíkur í Gagnfræðaskóla verknáms þar sem ég dvaldi hjá móðursystur minni Katrínu Jónsdóttur sem var saumakona. Ég aðstoðaði hana oft við að taka upp snið, sauma hnappagöt í höndum, sauma rennilása í kjóla og fleira. Þessi lærdómur gagnaðist mér líka mjög vel síðar. Í skólanum vorum ég og önnur stelpa kallaðar til og okkur boðið að fara í handavinnudeild. Móðir mín hafði lagt til að ég færi í Húsmæðraskólann á Varmalandi og ég hafði þegar ákveðið að fara eftir þeim ráðum og sé ekki eftir því. Þar lærði ég mjög margt sem hefur gagnast mér vel. Eftir það gerðist ég ráðskona á heimavistarskóla en þar fékk ég þá hugmynd að fara í fóstruskólann. Þaðan útskrifaðist ég 1972 sem fóstra sem seinna varð að starfsheitinu leikskólakennari. Ég fann fljótt út hvað ég náði vel til barna í gegnum sköpun og hef notið þess ríkulega í 50 ár.

Barnabörn Guðrúnar njóta þess að eiga hugmyndaríka ömmu.

Textíllinn varð fljótt í fyrirrúmi

Guðrún og eiginmaður hennar fluttu til höfuðborgarinnar 1991 og hún fékk vinnu á skóladagheimili þar sem hún fór að vinna mikið með textíl með börnunum og hún sá vel hvað þau nutu þess vel. Eftir að skóladagheimili voru lögð niður voru stofnaðar dægradvalir við grunnskólana og 2001 lenti Guðrún þá á heilsuleikskólanum Urðarhóli í Kópavogi. Það er einmitt á þeim leikskóla sem stjórnendur urðu meðvitaðir um hæfileika Guðrúnar og gáfu henni frjálsar hendur með að vinna með leikskólabörnunum í textíl. Ástríðan fyrir starfinu skín í gegn þegar Guðrún talar um börnin sem hún hefur annast. Hún segir sjálf að sköpun sé ein af grunnþörfum manneskjunnar. Að hafa vald á handverki gefi börnum sjálfstraust og tilfinningu fyrir eigin getu. Í textílvinnu öðlist börn víðtæka færni, til dæmis hvað varði einbeitingu og úthald, fínhreyfingar, samhæfingu augna og handa og formskyn.

Bætti við sig námi

Guðrún segist hafa fengið þá flugu í höfuðið að fara í framhaldsnám nokkrum árum síðar. “Ég

Úskrift sex ára barna, öll í fötum sem þau saumuðu sjálf undir handleiðslu Guðrúnar.

fór í listadeildina í Kennaraháskólanum og þar valdi ég eins mikinn textíl og ég komst yfir. Ég vann öll verkefnin mín þannig að ég gæti nýtt þau sem best í leikskólanum og er enn að nýta þau. “Einhvern tímann voru tvær litlar á síðasta árinu að skoða efni sem ég var með og ég spurði hvort þær langaði að gera eitthvað úr þessu. “Já, okkur langar að gera pils,” sögðu þær. Ég settist þá niður með þeim og þær saumuðu á sig pils. Strákarnir komu auga á það sem stelpurnar voru að gera og spurðu “hvenær megum við sauma” og þá var fundinn tími í það. Ein mamman kom með poka fullan af alls konar glæsilegum efnum eftir tiltekt heima. Ég spurði krakkana hvað þau sæju fyrir sér að gera úr þessum efnum og þá sagði einn lítill “við gætum gert Páls Óskars skyrtur”. Þá var farið á fullt að hanna og sauma í saumavél sem þau gerðu alveg sjálf en ég aðstoðaði þau við að útfæra sniðin. Tíminn eftir áramót fram á vorið fór í að sauma fötin sem þau útskrifuðust síðan í um vorið.

Guðrún að þæfa ull með barni.

Urðarhóll fékk styrk úr Sprotasjóði

“Á þessum tíma fæddist sú hugmynd að sækja um styrk til að þróa textílvinnuna sem varð síðar að bókinni sem nú er komin út,” segir Guðrún stolt, en bókin heitir Viltu koma og sauma?  Bókin segir hún að eigi erindi til kennara í leik- og grunnskólum auk þess sem afar og ömmur og aðrir aðstandendur barna geta fengið þar hugmyndir að skapandi vinnu með börnum en bókin hefur að geyma hugmyndir og leiðbeiningar fyrir textílvinnu. Hún hentar sérlega vel fyrir leikskólabörn og yngstu börn grunnskóla. “Ég fór að taka börnin af deildunum til að sauma og þæfa og svo framvegis og sá alltaf betur og betur hvað textíllinn var gott kennslugagn. Þau læra alls konar hugtök og samveran er líka svo mikils virði. Við lögðum áherslu á læsi og samskipti og hugtakaskilning sem er nauðsynlegur til að skilja verkefnin. Sem dæmi má nefna að í vinnubrögðunum er njög mikil stærðfræði því börnin eru að mæla og telja út og allt miðar þetta að því að kenna þeim nauðsynlega færni í lífinu.”

Viðhöldum menningunni

Miklu máli skiptir að viðhalda menningunni með því að kenna börnunum handverk forfeðranna, að börnin læri handverk og fái innsýn í sögu þjóðarinnar því þannig skilja þau betur hvernig hlutirnir verða til. Við vorum til dæmis í gær að vinna með mismunandi stóra hnykla og þau fóru strax að spá í hver væri stærstur og hver væri minnstur. Svo spáðu þau mikið í litina og fljótlega fóru þau að tengja þá við náttúruna. “Af hverju heitir þessi sólgulur en þessi appelsínugulur?” Einn sagði um bláan lit á einum hnyklinum að þessi litur væri “klakablár” sem var alveg laukrétt og allir geta gert sér í hugarlund hvernig sá litur lítur út en sá litli bjó hugtakið til sjálfur.

Ert þú þá amma þín?

“Í morgun vorum við að tala um nöfnin og hvort við værum skírð í höfuðið á einhverjum. Ég sagðist vera skírð í höfuðið á ömmu minni og þá spurði ein lítil “ert þú þá amma þín”. Mér þótti svo skemmtilegt að velta þessu svari barnsins fyrir mér því líklegast gat hún ekki séð mig fyrir sér sem lítið barn sem hefði einhvern tímann verið skírt,” segir Guðrún hlæjandi. Hún hefur unnið með börn af öllum deildum leikskólans og hún segist aldrei hafa lent í því að börnin vildu ekki koma í tímana til sín. “Ég nýt þess að sjá börnin taka framförum í gegnum þetta nám sem er í öllum tilfellum leikur sem þau hafa gaman af. Þau þjálfast svo vel í fínheyfingum og samhæfingu og síðan verða þau svo stolt af verkunum sínum sem eru undantekningarlaust merkileg,“ segir Guðrún.

 Stórkostlegt að geta unnið áfram 

“Ég myndi ekki treysta mér að vera inni á deild og takast á við erfiða krakka en ég get svo vel verið með þeim í rólegheitum og viti menn að erfiðustu krakkar verða alveg eins og lömb þegar þau koma inn í stofu til mín,” segir þessi kona sem er glæsileg fyrirmynd. Á myndinni hérna fyrir ofan má sjá nýju bókina hennar Guðrúnar. Hægt er að nálgast hana með skilaboðum á Facebook síðu hennar.

Gamall húsgangur sem er að finna í upphafi bókar Guðrúnar:

Fyrst þú ert kominn á fjórða ár

Fara áttu að vinna.

Það er að læra listir þrjár

Lesa, prjóna og spinna.

 

(Skrifað 10. júní 2021: Guðrún lenti í að brotna á höndum í vetur og er þess vegna ekki að vinna eins og er en vonast er til að hún geti farið að vinna með börnunum í haust.)

 

 

Ritstjórn október 11, 2019 10:12