„Svo gekk þetta allt mjög vel“

„Ég hugsaði bara Guð minn góður áður en við fórum og velti því fyrir mér hvernig þetta myndi ganga. Maður þurfti að skrá sig inn í landið og framvísa bólusetningarvottorðum. Já og að vera með alla þessa pappíra og dót, en svo gekk þetta allt mjög vel“, segir Arna Borg Snorradóttir sem er nýkomin heim úr 12 daga ferðalgi til Spánar, þar sem hún og eiginmaðurinn Sighvatur Sveinsson, dvöldu í góðu yfirlæti á Torrevieja svæðinu í sólskini og góðu veðri. Hún segir það hafa verið aðdáunarvert hvað allt gekk vel á flugvöllunum. „Það var líka yndislegt að geta farið aðeins af stað aftur og komist í sól og yl eftir afspyrnu lélegt sumar. Okkur fannst þetta báðum mjög gott og allt í sambandi við ferðalagið gekk betur en ég hafði þorað að vona. Við fengum þarna sumarauka, sem var yndislegt. Við lágum samt ekki bara í sólinni, heldur ferðuðumst um. Við  vorum með bíl og fórum til Valencia sem er dásamleg borg og skoðuðum einnig litla skemmtilega borg sem heitir Murcia“.

Þótt margir landsmenn hafi verið á ferð og flugi síðustu vikur, má ætla að menn sjái blikur á lofti vegna Covid smita víða um heim. Verða ferðalögin kannski brátt úr sögunni aftur?

„Ekki hjá okkur“, segir Arna. „Við erum að fara til Ameríku í lok mánaðarins. Í janúar förum við svo á skíði í Austurríki. Við ætlum að reyna að halda áfram að lifa lífinu. Maður er bara varkár, reynir að passa sig og halda sig til hlés, þegar þess gerist þörf“.

Það hefur verið í mörg horn að líta þetta haustið hjá Þórunni Reynisdóttur forstjóra Ferðaskrifstofunnar Úrvals Útsýnar.

Þórunn Reynisdóttir forstjóri Úrvals Útsýnar.

„Það er ljóst að eldra fólk hefur verið á faraldsfæti að undanförnu“, segir Þórunn „Menn eru að ferðast bæði í skipulögðum ferðum og á eigin vegum. Við erum með fararstjóra á stöðunum og sér fararstjóra í sérferðunum okkar. Fólk er öruggara ef eitthvað kemur uppá að vera með ferðaskrifstofu. Það getur verið snúið ef fólk til dæmis veikist í öðru landi og gott að hafa þá ferðaskrifstofuna að leita til“.

Þórunn segir að fólk sé óhrætt við að ferðast eftir Covid. „Menn fara varlega og við reynum að upplýsa vel hvernig staða mála er á hverjum stað fyrir sig. Við fórum meira að segja til Egyptalands í haust og það gekk vel. Það er verið að opna Bandaríkin fyrir ferðamönnum og maður heyrir að fólk er farið að flykkjast til Flórída. Svo koma inní þetta vinir og fjölskyldur sem þarf að heimsækja“, segir hún. „Það er gaman að sjá að fólk er aftur á ferð og flugi“.

„Eldri borgara ferðir eru mikið breyttar“ segir Þórunn. Hér áður fyrr hafi verið farið með stóra hópa á hótel og boðið uppá afþreyingardagskrá. Nú séu menn að fara í alls kyns ferðir, svo sem heilsuferðir og golfferðir. „Við erum að horfa uppá meiri fölbreytni í þessum ferðum“, segir hún og bætir við að hjá Úrval Útsýn séu menn að hvetja eldra fólk til að ferðast meira, til að mynda þá sem eru orðnir ekklar eða ekkjur.

 

Ritstjórn nóvember 9, 2021 07:32