Þegar íbúð er skoðuð

Ásdís Ósk Valsdóttir

Það er mikilvægt að skoða íbúðir vel, þegar fólk er í kauphugleiðingum. Ásdís Ósk Valsdóttir fasteignasali segir að enginn gangi einn hring um íbúð og kaupi hana svo. „Það er númer eitt, tvö og þrjú að skoða hana vel“, segir hún. „Og sjái menn rakabólur uppí horni á vegg, eiga þeir að spyrja út í þær. Það er erfitt að koma eftirá og fara að ræða um gallana í veggnum. Það gengur ekki“.

Kominn tími á dren og lagnir

Það fer eftir aldri húsnæðisins, hvar áherslan þarf að vera þegar íbúðin er skoðuð.  „Ef þú ert að kaupa gamla eign í Hlíðunum eða vesturbænum og það er ekki búið að endurnýja dren, lagnir og frárennsli, þá veistu að það fer að koma tími á það“, segir Ásdís Ósk. „En ef húsnæðið er 10-15 ára þarf ekki að huga að þessum atriðum. Þau eiga að vera í lagi“.

Gera tilboð með fyrirvara

Ásdís segir að sé fólk að kaupa áratuga gamla eign í grónu hverfi og viti lítið um stöðuna, eigi það að gera tilboð með fyrirvara um ástandsskoðun. Þá sé hægt að láta mynda til dæmis lagnirnar. „ Ef menn bíða eftir að ástandsskoðun sé lokið áður en þeir gera tilboð, eiga þeir á hættu að missa íbúðirnar“, segir hún og segir því fyrirvarann betri lausn. „Ef eitthvað kemur í ljós er hægt að taka það upp þegar gengið er frá kaupsamningi. Stundum er seljandinn í góðri trú, en svo kemur í ljós við ástandsskoðun að þakið er ónýtt. En þetta er aðallega spurning um aldur. Ef fólk er að kaupa íbúð í húsi sem var byggt fyrir fimm árum, á hún að vera í lagi“.

Vilja að ástandsskýrsla fylgi öllum eignum

Ásdís segir að yfirlit húsfélags liggi fyrir við sölu íbúða í fjölbýli og þar komi fram, ef viðgerðir á húsinu standa fyrir dyrum. Fimm þingmenn hafa flutt þingsályktunartillögu á Alþingi, þar sem gert er ráð fyrir að sett verði lög um að  ástandsskýrslur fylgi þeim eignum sem fara á sölu og einnig rafræn viðhaldsbók.  Ásdís telur að slík lagasetning yrði til mikilla bóta. Sjálf hefur hún látið útbúa gátlista fyrir þá sem eru í kauphugleiðingum, um  þau atriði sem þarf að gæta að við skoðun.

Tryggingamiðstöðin með minnislista

Tryggingamiðstöðin hefur einnig útbúið lista yfir atriði sem vert er að hafa í huga þegar íbúð er skoðuð. Sá listi er nokkuð almennur, en kemur ef til vill að betri notum ef kaupa á eldri eign.

  • Skoðaðu gluggana vel. Er tvöfalt gler í öllum gluggum.
  • Skoðaðu vel ástandið á timburumbúnaði um glugga, innan- og utanhúss.
  • Eru allar hurðir í góðu ásigkomulagi?
  • Athugaðu gólf og hvort sé ástæða til að skipta um gólfefni, slípa parkett o.s.frv.
  • Eru ofnar í góðu ástandi? Eru hitastillar á ofnum nýlegir? Hefur lekið frá ofnum?
  • Hefur orðið vart við utanaðkomandi leka í íbúðinni? Skoðaðu vel kverk­ar meðfram þaki, hvort þar sjáist merki um að hafi lekið nýlega.
  • Opnaðu fasta skápa og skúffur í svefnherbergjum og í eldhúsinnréttingu.
  • Skoðaðu hreinlætistæki og inntu eftir ástandi þeirra.
  • Skoðaðu vel tæki, sem fylgja með í eldhúsi, og spurðu um aldur þeirra og ástand.
  • Hvernig er ástandið á vatnslögnum fyrir heitt og kalt vatn? Athugaðu vel að þess er ekki krafist af seljanda að hann geti eða megi vita og þar með upplýst um leynda galla á vatnslögnum.
  • Hvernig er ástandið á fráveitu, skólplögnum. Athugaðu vel að þess er ekki krafist af seljanda að hann geti eða megi vita og þar með upplýst um leynda galla á fráveitulögnum.
  • Er dren við húsið? Er dren í lagi? Dren er lögn sem hindrar að vatn í jarðvegi leggist utan á neðstu hluta byggingar og valdi þar rakaskemmdum.
  • Gættu vel að hvernig íbúðin snýr að sól. Snúa svalir í sólarátt? Er íbúðin björt?
  • Mikilvægt er að spyrja hvort fyrir­hugaðar séu framkvæmdir á húsinu eða í sameign og hvort kostnaður af þeim lendi á kaupanda eða seljanda. Framkvæmdir á skólpi, dreni og þess háttar eru dýrar og ef slíkar fram­kvæmdir eru á döfinni er sjálfsagt að slá það af verði íbúðarinnar þegar þú gerir tilboð – nema ef ásett verð taki mið af fyrirhuguðum framkæmdum.
  • Ef íbúð er í fjölbýli skaltu spyrja um framkvæmdasjóð og hversu mikið fé er í þessum sjóði. Framkvæmdasjóður fylgir ævinlega með til kaup­anda.

Ef þú telur þig ekki búa yfir nægilegri þekkingu til að skoða ástand íbúðar getur verið skynsamlegt að biðja kunnáttumann, t.d. iðnaðarmann, að skoða með sér íbúðina, ekki síst ef hún er í húsi sem er komið nokkuð til ára sinna.

 

 

Ritstjórn maí 19, 2020 07:59