Flestir kannast við að eiga stundum erfitt með að leysa alls kyns tæknimál, sem tengjast tölvunum heima eða sjónvarpinu. Hvernig á að tengja nýja prentarann eða setja upp vírusvörn í tölvuna? Er hægt að setja upp sjónvarp í svefnherberginu í gömlu íbúðinni? Þó það leiki oft í höndum yngri kynslóðanna að bjarga þessu, kann það að vefjast fyrir öðrum. Tæknisveitin hjá fyrirtækinu Promens býður uppá tækniaðstoð fyrir heimilin, en hún er nokkurs konar björgunarsveit þeirra sem ekki eru nægilega tölvulæsir. Hægt er að hafa samband við hana til að fá aðstoð við allt sem tengist tölvum og tækni í heimahúsum.
Þurfa oft að reiða sig á aðstoð aðstandenda
Ruth Hinriksdóttir er hópstjóri Tæknisveitarinnar og fólk snýr sér til hennar með slík erindi. „Þau vandamál sem við fáum inná borð hjá okkur snúa að ýmsum tæknibúnaði svo sem prenturum og tölvum, og eins vefst það fyrir mörgum að stilla ýmis snjalltæki heima hjá sér, eins og sjónvarp eða sjónvarpsspilara (t.d. Apple TV) , bæta þráðlausa netið og fleira. Þá biður fólk oft um aðstoð við að færa „ráter“, netbúnað eða heimasíma milli herbergja innanhúss. Tilfinningin er oft sú að fólk og fyrirtæki eyði minni tíma í að markaðssetja þjónustu og aðstoð fyrir eldra fólk, sem þarf oft að reiða sig á aðstoð aðstandenda þegar og ef hún er boði“, segir Ruth.
Hvernig er vírusvörn sett upp í tölvuna?
„Ef fólk kaupir til dæmis nýjan prentara sem er þráðlaus, þá getur uppsetning hans vafist fyrir því og einnig það hvernig á að fá hann til að virka rétt. Það þarf að tengja hann við heimilisnetið og gera hann sýnilegan, þar sem það getur verið flóknara en þegar snúra er notuð til að tengja á milli tölvu og prentara“, segir Ruth. Hún bætir við að þegar keyptar séu nýjar tölvur, sé æskilegt að setja upp vírusvörn í þeim, en slíkan hugbúnað sé hægt að nálgast frítt á netinu. „Hinsvegar er fólki ekki alltaf ljóst hvernig það á að bera sig að við að koma vörninni upp þannig að tölvan sé eins örugg og kostur er. Sama gildir um grunnhugbúnað eins tölvupóst,ritvinnslu og töflureikni, en hægt er að fá aðstoð við allt þetta hjá okkur“.
Tvær fjarstýringar eru nóg
Oft er hægt að einfalda tæknimálin með því að tengja öll tæki í eina fjarstýringu. Það er samt ekki alltaf sjálfgefið og fer eftir tækjunum. „Til þess að slíkt sé mögulegt, þarf meta tækin í hverju tilviki fyrir sig. Yfirleitt er þó nóg að vera með tvær fjarstýringar, eina fyrir myndlykilinn og aðra fyrir sjónvarpið. Svo aðstoðum við fólk við að tengja og setja inn rásirnar í sjónvarpið, en það er alls ekki bara eldri kynslóðin sem á stundum í vandræðum með það, þessir hlutir verða einfaldlega sí flóknari með nýjum og fjölbreyttari tækjum“, segir Ruth.
Að setja upp stafræna myndaramma og öryggismyndavélar
„Fyrir síðustu jól var talsvert um að ættingjar gæfu foreldrum eða öfum og ömmum, myndaramma til að sýna stafrænar myndir úr filmulausum myndavélum. Það vafðist fyrir mörgum að setja þessa ramma upp en okkar fólk gat leyst slík mál vandkvæðalaust“, segir Ruth. „Þó við aðstoðum fólk við flest öll heimilistengd tæknimál, tölvu-, sjónvarps- og nettengingar þá sérhæfum við okkur ekki enn í klassískum heimilistækjum eins og þvottavélum, bakarofnum og ísskápum, en við bjóðum aftur á móti uppá aðtoð við að setja upp vefmyndavélar og öryggismyndavélar sem er mikið að færast í vöxt“.
Aðstoð í gegnum síma eða maður sendur heim
Ruth segir að stundum sé fólk búið að fikta sig áfram, sem oft gerir það að verkum að erfiðara verður um vik að tengja tækin en lausn finnst þó yfirleitt áður en yfir lýkur. „Stundum virkar netið líka misvel eftir því hvar í íbúðinni fólk er staðsett með búnaðinn og við þurfum oft að greina og laga þau vandamál, áður en hafist er handa. Það eru alls kyns vandamál sem við erum að leysa, fyrir alla aldurshópa. En ungu krakkarnir bjarga sér kannski aðeins meira sjálf, enda telja þau ýmsan búnað lífsnauðsynlegan sem við teljum munað“, segir Ruth og brosir og bætir við að stundum sé hægt að aðstoða fólk í gegnum síma. „En í öðrum tilvikum þarf að senda mann á staðinn. Það er þó val hvers og eins hvor leiðin er valin. Þegar fólk hringir, greinum við vel hvort við getum aðstoðað eða ekki. Við förum ekki á staðinn og rukkum fólk sé ekkert hægt að gera“, segir hún að lokum.