Tengdar greinar

Þorsteinn Gauti Sigurðsson píanóleikari

Þorsteinn Gauti Sigurðsson píanóleikari er ekki nema sextugur en hann var áberandi í tónlistarlífinu á Íslandi á sínum tíma. Hann segir í gríni að mest hafi gerst í lífi sínu fyrir 25 ára aldurinn. Hann var til dæmis aðeins 17 ára gamall þegar hann kom fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands og var á þessum tíma sendur út um heim  að spila. Þorsteinn lauk námi við Tónlistarskóla Reykjavíkur og fljótlega eftir það lá leið hans í frekara nám í æðstu menntastofnanir á hans sviði í heimi. Fyrst fór hann í New York háskóla 1979 þar sem einkakennari hans hvatti hann til að fara í inntökupróf í Juilliard listaháskólann sem er einn fremsti listaháskóli í heimi. Þar er inntökuhlutfall þeirra sem reyna aðeins 5-8% og Þorsteini að óvörum stóðst hann prófið með glans. Hann segir sjálfur að píanóleikur hafi komið auðveldlega til sín frá upphafi, eins og hæfileikinn hafi verið á einhvern hátt meðfæddur. Þorsteinn á minningu um að hafa setið í fangi móður sinnar þegar hún spilaði á píanóið. „Hún sagði alltaf að það hefði verið hennar aðferð við að róa mig ef ég var að gráta,“ segir hann. Þorsteinn átti seinna eftir að komast að því að meðfæddur hæfileiki dugði ekki einn og saman ef ná átti framúrskarandi árangri.

Kennararnir undrabörn

Þorsteinn fór fyrst til Bandaríkjanna 1979 og var þar til 1986. Hann bjó á Manhattan í fjögur ár og þótti borgin mikið ævintýri. Hann var fljótlega kominn í alvöru píanónám í Juilliard þar sem samnemendur hans voru þeir bestu frá öðrum löndum eins og Kóreu, Kína, Japan, Ástralíu og Englandi. Kennari Þorsteins í NY university hét Eugene List. Sá hafði sjálfur verið undrabarn í píanóleik og kom 12 ára gamall fram með Los Angeles Fílharmóníunni. Eugene var svo síðar nemandi í Juilliard listaháskólanum.

Var kippt niður á jörðina

Einn af kennurunum Þorsteins í Juilliard hét Herbet Stessin og sá hafði líka verið eitt af þessum undrabörnum. ,,Ég var nýkomin til þessarar stórkostlegu borgar og vildi auðvitað kynnast henni og var oft að ganga um og upplifa hana þegar ég hefði átt að vera að æfa mig. Ég vissi ekki að Stessin hefði verið í leyniþjónustu hersins og hafði starfað við að yfirheyra þýska fanga eftir heimsstyrjöldina. Ég kom í fyrsta tímann til hans og átti að spila ,,af blaðinu”, þ.e. opna bókina einhvers staðar og hitti á Mozart sónötu. Stessin var mjög ánægður með það sem hann heyrði og hældi mér mikið. Ég hugsaði þá að ég þyrfti kannski ekki að æfa mig eins mikið og sagt var og naut þess að kynnast borginni bara enn betur þegar ég átti að vera að æfa mig,” segir Þorsteinn og hlær. ,,Svo kom að næsta tíma og ég ætlað að brillera eins og síðast án þess að hafa æft mig en þá trompaðist Stessin alveg því auðvitað vissi hann að ég var ekki með hlutina á hreinu. Það þýddi ekki að plata þennan mann sem hafði starfað við að yfirheyra fanga, hann vissi betur. Hann tók mig þá svolítið niður á jörðina því ég hafði vanist því að eiga auðvelt með píanóleik og margt hafði komið auðveldlega til mín. Mér hafði verið hampað hér heima, sem hafði líklega stigið mér til höfuðs. En Stessin gerði mér ljóst hvað það þýddi að vera afburða píanóleikari og rifjaði upp með mér sannindin um að það væri í raun 5% hæfileikar og 95% vinna og spurði svo hvort ég væri tilbúinn í það?”

Kom fram í Hvíta húsinu

Eugene, einn af kennurunum, hafði sambönd inn í Hvíta húsið og sá reglulega um tónleika þar á árunum þegar Þorsteinn var nemandi hans. ,,Eugene setti á svið það sem hann kallaði ,,monster concert” en það var þegar margir píanóleikarar spiluðu í einu,” segir Þorsteinn og brosir og minningin er greinilega góð. Þarna safnaði kennari hans saman 8 nemendum sínum á eina tónleika og þar í hópi var Þorsteinn Gauti ásamt þeim bestu frá nokkrum öðrum löndum. Að koma fram í Hvíta húsinu segir Þorsteinn að hafi auðvitað verið mikið ævintýri fyrir ungan mann, rétt rúmlega tvítugan.

Óvart víða tengingar við seinni heimsstyrjöldina

Þorsteinn segir í gríni að honum líði svolítið eins og hann hafi verið Forest Gump á þessum tíma. Hann hafi verið hér og þar og mjög oft tengst fólki sem hafði mikla sögu að segja. Hann hafi upplifað mannkynssöguna í gegnum þetta fólk á undraverðan hátt.  ,,Ég var fyrir algera tilviljun staddur þar sem tenging við meiriháttar atburði í mannkynssögunni voru ansi nálægt,” segir hann og brosir.

Þorsteinn segir að þegar hann hafi getað farið að ,,gúgla” þá sem komu helst að kennslu hans hafi hann til dæmis fundið út merkilegar sögur. ,,Ég vissi voða lítið um þessa kennara mína þá því ég var svo ungur og þá var ekki um að ræða að ,,gúgla” upplýsingar. Ég fann til dæmis út að Eugene List hafði hlutverk í seinni heimsstyrjöldinni. Hann var þá orðinn þekktur píanóleikari og á Potsdam ráðstefnunni 1945, þegar Stalín, Churchill og Truman hittust, var Eugene fenginn til að spila fyrir þá. Stalín stóð upp fyrir honum og klappaði og svo settist Eugen við hliðina á Truman og spjallaði. Þetta var í lok júlí en í byrjun ágúst gaf Truman skipunina um að sprengjum skyldi varpað á Hiroshima og Nagasaki. Þetta hafði ég auðvitað ekki hugmynd um þegar ég var að læra hjá Eugine en mér fannst eins og sagan færðist nær mér við þessa vitneskju.“

Eignaðist eiginkonu og barn

Eftir Juillard árin fluttist Þorsteinn niður til Miami en hann hafði kynnst fyrstu eiginkonu sinni í NY en hún var frá Miami. Þau eignuðust son sem fæddist 1985 og enn ein tengingin við heimsstyrjöldina kom þar því afi þess drengs var flugmaður og lék stórt hlutverk í  þeirri styrjöld. Það hjónaband slitnaði og Þorsteinn kom heim til Íslands ári síðar. Hann eignaðist síðar dóttur, sem nú er 17 ára, með þáverandi eiginkonu. Á þessum tíma spilaði Þorsteinn mikið hér heima, sér í lagi á bilinu 1990 og 2000. Síðustu einleikstónleikar hans voru 2004 en þá var hafinn annar kafli í lífi hans en 2002 stofnaði hann eigin tónlistarskóla, Píanóskóla Þorsteins Gauta. Þegar mest hefur verið að gera þar hafa nemendur talið 150.

Gætir þess vel að halda sér við

Það kom að því að Þorsteinn kæmist að því að kröfurnar sem voru gerðar til ,,afburða píanóleikara” væru of miklar til að hann vildi fórna því sem þurfti til. Hann segist þó gæta þess vel að halda sér vel við og njóti þess ríkulega að taka einn og einn höfund fyrir. Stundun spilar hann bara Bach eða bara Procofieff o.s.frv. Og hver veit hvað framtíðin ber í skauti sér.

Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar. 

 

Ritstjórn febrúar 2, 2022 07:42