Tengdar greinar

Unnur Ólafsdóttir veðurfræðingur

„Ég fer að ljúka störfum, verð 67 ára 1.maí og ætla þá að hætta störfum hér. Það er bara mitt val, en alls ekki vegna þess að mér leiðist verkefnin“, segir Unnur Ólafsdóttir veðurfræðingur sem hefur unnið hjá Isavia í tæp 14 ár. Flestir muna ugglaust eftir henni úr sjónvarpsveðurfréttum sem hún starfaði við í  15 ár, fyrst íslenskra kvenna á þeim vettvangi. Þetta gerði hún jafnhliða vinnu sinni á Veðurstofu Íslands þar sem hún var í 25 ár. „ Ég hefði getað unnið hér til sjötugs, en vel að hætta núna. Mig langar að verða frjáls og finnst á ýmsan hátt eins og ég sé að losna úr fangelsi. Ég hef ekki gert neitt nema læra og vinna, er búin að vera í fullu starfi í nær 40 ár, þar af á vöktum í 25 ár. Á Veðurstofunni hófst dagvinnan klukkan 7:00, næturvinnan kl. 19:30 og  hérna er mætt klukkan 8:00 á morgnana. Ég er orðin leið á að þurfa alltaf að mæta einhvers staðar á frekar óþægilegum tímum“, segir Unnur, tilfinning sem margir þekkja sem eru komnir yfir miðjan aldur.

Fimmtudagurinn 14.mars verður síðasti vinnudagur Unnar hjá Isavia og þá fer hún í 6 vikna sumarfrí. „Þetta leggst alveg rosalega vel í mig. Ég ætla bara að gera það sem mig langar til. Það eru viðfangsefni bæði innan veðurfræðinnar auk annarra sem ég er með á lista og svo líka persónuleg áhugamál“, segir Unnur en vill ekki fara nánar út í verkefnin. Hún segist ætla að nota tímann frá því hún hættir hjá Isavia, fram til 1. september til að velja viðfangsefni af listanum sínum og finna út hvað það er sem hana langar mest að gera.

Þegar hún er spurð um persónulegu áhugamálin segir hún; ,,Þau eru bara svo mörg. Ég er mikið fyrir að hreyfa mig og ætla að halda því áfram. Við Halldór sonur minn höfum svo verið að gefa út bækur með sögum eftir Þórarin. Við byrjuðum á þessu í fyrra og höfum gefið út fjórar litlar handhægar bækur sem við köllum Lespúsl. Þær heita, Eins og vax, Landnámur, Sonnettur og Ævintýri. Kveikjan að verkefninu var að það var oft verið að spyrja okkur um eldri sögur Þórarins, enda margar þeirra ófáanlegar“. Svo heldur Þórarinn að sjálfsögðu áfram að skrifa bækur, þar sem rithöfundar ljúka aldrei störfum og fara á eftirlaun, segir Unnur.

Unnur og Þórarinn Eldjárn eiginmaður hennar eignuðust fimm syni. Þau eiga sjö blóðskyld barnabörn og  þrjá aukastráka.  Tvær ömmustelpur eru á fyrsta ári en elsta barnabarnið er Unnur Sara 26 ára. Þau gera mikið af því að passa barnabörnin „Það er dásamlegt, við segjum helst aldrei nei og njótum þess að hafa börnin í kringum okkur. Unnur Sara bjó hjá okkur í tvígang, á annað ár í hvort skipti. Ég segi að við höfum stuðlað að uppvexti 6 barna“, segir Unnur.

Unnur segist sjá til þess að barnabörnin fái nóg að borða og sofi vel þegar þau eru hjá þeim. Steiktur fiskur og kartöflur eru í uppáhaldi. „Þau eru aldrei í síma eða spjaldtölvu hjá okkur, við lesum mikið fyrir þau enda hefur Þórarinn gefið út á annan tug barnaljóðabóka. Stundum koma þau til okkar nokkur saman, en stundum eitt og eitt. Ég hef undanfarið verið að kenna þeim að spila á spil. Spilaði Svarta-Pétur við eina sex ára og henni fannst það svo gaman. Hún hló og hló og sagðist hafa fengið gæsahúð, hún var svo spennt.

Eitt sem Unnur hefur gert upp við sig, hún ætlar ekki að minnka við sig húsnæði. „Ég ætla bara að taka ferðatöskuna þegar þar að kemur, skella í lás og ganga með Þórarni út á Grund hér rétt handan við hornið“.

 

Ritstjórn mars 6, 2019 08:32