Tengdar greinar

Vilja nýta tímann á meðan heilsan heldur

Þau Kristján Sigurjónsson útvarpsmaður og Áslaug Óttarsdóttir bókasafnsfræðingur prufukeyrðu fyrst hugmyndina um að vera bæði hætt að vinna. Hvernig það væri að verja saman enn meiri tíma en á meðan þau voru bæði í fullu starfi. Kristján er fæddur 1955 og varð því 67 ára í fyrra og hætti þá störfum hjá RÚV eftir næstum 40 ár og Áslaug er fædd 1957. Þau eru bæði kennaramenntuð en Kristján fór snemma fjölmiðlaleiðina og Áslaugar leið hefur verið innan um bækur alla tíð. Kristján hætti sáttur í desember síðastliðinn og segir að í honum sé ekki eftirsjá nema í samstarfsfélögum sem hann hittir samt reglulega, en bara ekki á gamla vinnustaðnum. Hann muni svo vel hversu stressandi var að fá heimsókn í vinnuna þegar komið var að skilum svo hann geri fyrrum vinnufélögum það ekki. ,,Ætli ég hafi ekki bara verið kominn með nóg af ,,dedlæn“ stressi eftir áratuga vinnu í útvarpi,“ segir Kristján og brosir. Áslaug hafði samband við Lífeyrissjóð sinn þar sem hanni var sagt að það munaði mjög litlu hvort hún hætti 65 eða 67 ára. ,,Ég ákvað því að Kristján fengi ekki að njóta starfsloka degi lengur en ég,“ segir Áslaug og hlær. ,,Við áttum kost á því að fara í þrjá mánuði til Þýskalands í fyrrasumar og prufukeyrðum samveruna og fundum út að samvera allan sólarhringinn var góð, okkur leiddist aldrei. Við höfum reyndar fundið út, eins og svo margir, að það hefur sjaldan verið jafn mikið að gera eins og eftir að við hættum að vinna,“ segir Áslaug og brosir.

Græða heilaheilsu

Þau Kristján og Áslaug fara á hverjum morgni i Duolingo tungumálaforritið og læra þýsku áður en þau fara út að ganga.

Þau Kristján og Áslaug hafa tekið nýju hlutverki í lífinu, þ.e. að vera komin á eftirlaun, með markvissum hætti og haldið nokkuð stífum takti. ,,Við vöknum alltaf snemma en það er svo góð tilfinning að þurfa ekki að flýta sér til að mæta í vinnu,“ segir Kristján og Áslaug bætir við að þau séu strax komin með vissa rútínu. ,,Þegar við vöknum komum við okkur fyrir hvort í sínu horni með tungumálaforritið Duolingo því við erum að læra þýsku. Þetta gerum við í hálftíma á hverjum morgni,“ segir Áslaug og Kristján samsinnir henni með það að þetta sé geysilega skemmtileg leið til að læra tungumál. ,,Við lærðum bæði þýsku í menntaskóla þótt á þeim tíma hafi ég ekki lagt mig mikið fram,“ segir Kristján. ,,Ég hef alltaf séð eftir því að hafa ekki stundað þýskunámið á sínum tíma en grunnurinn sem við fengum kemur sér samt vel núna og okkur fer bara nokkuð vel fram. Þegar við vorum í Leipzig í fyrra komumst við að því að við gátum bjargað okkur á þýsku þótt við eigum auðvitað langt í land. Það er svo gott fyrir heilann að æfa sig í að bæta við tungumáli svo fyrir utan hvað þetta er skemmtilegt græðum við heilaheilsu. Og svo er forritið Duolingo frítt þannig að gróðinn er mikill,“ segja þau og brosa.

 

Álaug með föður sínum, Óttari Karlssyni, sem náði 92 ára aldri.

Sami taktur á hverjum morgni 

Þau Kristján og Áslaug gæta þess að hreyfa sig daglega því eftir hálftíma tungumálaæfingar fara þau í göngutúr en þau búa úti á Granda í Reykjavík. ,,Við förum í hvaða veðri sem er og látum vindáttina ráða hvaða leið við göngum,“ segir Kristján. ,,Í stífri norðanátt förum við frekar inn í hverfið á milli húsa en í minni vindi göngum við gjarnan út á Gróttu eða út á Grandann. Þegar við komum inn eftir klukkutíma eða svo gerum við leikfimiæfingar,“ segir Kristján og brosir. ,,Hann er með app í símanum og ég æfi eins og 85 kílóa karl,“ segir Áslaug og hlær. ,,Þetta gerum við fimm sinnum í viku í korter í senn.

Svo förum við í sund á miðvikudögum og þá er tilboð á nautahakki í Melabúðinni og það ræður kvöldverði dagsins,“ segir Áslaug hlæjandi og viðurkennir að þau séu nokkuð bvanaföst með þetta og það henti þeim mjög vel. ,,Þessi rútína gerir það að verkum að við vöknum alltaf snemma og förum í gang og morgunmatur og hádegismatur rennur þá saman og er ekki snæddur fyrr en undir hádegi og það hentar okkur ágætlega,“ segir Kristján.

Áslaug er í dómnefnd sem velur bókina sem fær Glerlykilinn og nýtur þess mjög að lesa mikið. Hún hefur líka verið í dómnefndinni fyrir Blóðdropann og ,,þá las ég allar íslenskar  glæpasögur sem komu út. Það er ekki hægt að láta sér leiðast þegar maður hefur kost á og nýtur þess að lesa mikið.“

Á veggnum bak við Áslaugu og Ásu eru myndir sem Áslaug hefur tekið af fjölskyldumeðlimum.

Ferðalög mikið áhugamál

Þau Kristján og Áslaug hafa ferðast gífurlega mikið en þau segjast ekki eyða peningunum sínum í golf, hestamennsku eða veiði. ,,Við tókum ákvörðun um að verja peningunum okkar í ferðalög í staðinn,“ segja þau. ,,Við vorum til dæmis í 6 vikur á Tenerife í byrjun árs og Kristján var svo sniðugur að kaupa bók um gönguleiðir á eyjunni. Við bjuggum á þremur stöðum og fundum gjarnan staði þar sem voru ekki margir ferðamenn. Við höfum reyndar farið nokkrum sinnum til Tenerife í dæmigerða sólarlandaferð sem okkur hefur þótt alveg frábært líka. Sérstaklega þegar heima var búið að vera mikið vinnuálag. Ég man eftir stundum þar sem Kristján svaf fyrstu þrjá sólarhringana eftir að hafa verið í mikilli vaktavinnu. En nú þurfum við ekki að hvíla okkur. Hvíldarferðin varð að hreyfiferð. Það er gjarnan gert grín að Tene-ferðum en við erum búin að finna út að eyjan er útivistarparadís með endalausum möguleikum ef maður nennir að hafa fyrir því að finna það út. Þarna eru gönguleiðir mjög vel merktar og mörg friðuð svæði sem er skemmtilegt að skoða. Veðurfarið þar er líka ákjósanlegt og hægt að treysta á blíðuna. Það finnst okkur mjög gott, eins og ótal öðrum Íslendingum.“

Dóttir Kristjáns bjó í Bandaríkjunum með fjölskyldu sína í nokkur ár og þá notuðu Kristján og Áslaug tækifærið og heimsóttu þau og ferðuðust um vestan hafs. Áslaug á þrjár dætur af fyrra hjónabandi og Kristján tvær dætur. ,,Þær eru allar á svipuðum aldri og kom vel saman alveg frá byrjun,“ segja þau ánægð en þau hafa verið gift í tuttugu ár.

Stórt skref að hætta að vinna

Kristján segir að stór hópur hafi hætti störfum vegna aldurs á RÚV á skömmum tíma. ,,Það var stórt skref fyrir okkur bæði að hætta í vinnu,“ segir Áslaug. ,,Ég fer reglulega og hitti gamla vinnufélaga sem er mjög skemmtilegt en Kristján vill síður trufla fyrrverandi vinnufélaga við vinnu sína.“

Áslaug hefur alltaf haft áhuga á ljósmyndun og nýtir nú tímann í að nema þá list. Hún keypti sér góða myndavél og lærir nú um ljósop og hraða og þykir gaman að leika sér í að skapa listaverk með margskonar myndefni.

Forseti vínklúbbs

,,Ég fer ekki oft á gamla vinnustaðinn minn en á þó alltaf eitt erindi mánaðarlega þangað. Ég er nefnilega forseti vínklúbbsins á staðnum. Tíu manna hópur myndar þennan  vínklúbb en þetta er svona happdrættisklúbbur. Hver meðlimur  leggur inn eina flösku og svo er dregið einu sinni í mánuði. Þetta tengist happdrætti Háskólans og hver meðlimur hefur sitt númer. Ef síðasta númerið í vinningi mánaðarins hjá Háskólanum kemur upp á tölu manns þá vinnur maður sjö flöskur og sá sem á númerið næst við vinnur þrjár. Svo hittumst við öðru hverju og allir koma með einn rétt og þá eru góð vín drukkin með. Þeir, sem hætta að vinna, hætta ekki í þessum klúbbi því hann er svo skemmtilegur,“ segir Kristján og brosir.

Kristján hefur greinilega líka auga fyrir góðu myndefni en hér tók hann mynd af móður sinni, Björgu Ólafsdóttur, sem var 99 ára í upphafi covid faraldursins og var þá á hjúkrunarheimili. Áslaug speglast í glerinu þar sem hún er að tala við tengdamóður sína í gegnum glerið.

Vilja nota tímann

Kristján segist vera þeim eiginleikum gæddur að líða ágætlega með að gera ekki neitt. Áslaug þarf aftur á móti frekar að hafa eitthvað fyrir stafni. ,,Kristján getur alveg notið þess að horfa á fótboltann eða hlusta á tónlist en mér líður betur með að hafa eitthvað fyrir stafni. Þegar við ,,hámhorfum“ á sjónvarpsefni þykir mér gott að hafa eitthvað á prjónunum svo eitthvað liggi eftir mig um leið og ég sit aðgerðarlaus yfir sjónvarpinu en ég hef mjög gaman af að prjóna og sauma,“ segir Áslaug. Foreldrar þeirra beggja urðu háöldruð, náðu öll tíræðisaldri og móðir Kristján varð 101 árs. Þau héldu öll góðri heilsu alla ævi. ,,En þótt foreldrar okkar hafi náð háum aldri eigum við ekkert fyrir víst að það sama eigi við um okkur. Við sjáum allt of marga jafnaldra okkar veikjast og deyja fyrir aldur fram og erum mjög meðvituð um að nota tímann meðan heilsan heldur. Við höfum bæði varið löngum tíma við vinnu allt frá því við vorum unglingar, eins og margir af okkar kynslóð hafa gert.

Á vegg heima hjá Kristjáni og Áslaugu hangir textaverk eftir Bubba Morthens og þar segir:

Og við fæðumst,

verðum gömul og við förum.

Verða ennþá ósögð orð

á köldum vörum?

Á veggnum sést textaverkið eftir Bubba Morthens. Áslaug heldur á snótinni Ásu Hafþórsdóttur, dótturdóttur Kristjáns.

Áslaug er mikill aðdáandi Bubba Morthens og þykir mikil sannindi í þessum orðum hans. Líta má á orðin sem nokkurs konar leiðarstef í lífi þeirra hjóna sem eru sér meðvituð um að tíminn líður og aldurinn færist yfir. Þau ætla sannarlega að nýta tímann markvisst sem þau hafa meðan heilsan heldur.

Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn apríl 21, 2023 07:00