Sérhæfða líknarmeðferð skortir á landsbyggðinni

Líknarmeðferð og lífslokameðferð er í einhverjum mæli veitt á heilbrigðisstofnununum á Vestfjörðum, Austurlandi og Norðurlandi, en sérhæfða þjónustu á þessu sviði skortir. Það er talin veruleg þörf fyrir þjónustuna  á þessum svæðum og  nauðsynlegt að efla hana. Þetta er niðurstaða starfshóps sem var falið fyrir rúmum tveimur árum, að gera tillögur að skipulagningu líknar- og lífslokameðferðar á heilbrigðisstofnunum í heilbrigðisumdæmunum fyrir vestan, austan og norðan.

Ráðherra skoðar hvernig hægt sé að hrinda tillögunum í framkvæmd

Dr. Elísabet Hjörleifsdóttir, formaður starfshópsins kynnti Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra tillögurnar nýlega. Svandís sagði mikilvægt að fá í hendur vandaða vinnu hópsins með tillögum um hvernig megi byggja upp og efla þessa mikilvægu þjónustu á landsbyggðinni: „Nú legg ég áherslu á að taka næstu skref með því að fara vel yfir tillögurnar og skoða hvernig best megi hrinda þeim í framkvæmd til að ná þeim markmiðum sem að er stefnt,“  segir ráðherrann í tilkynningu frá ráðuneytinu.

Á sjúkrahúsinu á Akureyri

Sjúkrahúsið á Akureyri gegni lykilhlutverki

Megintillögur starfshópsins felast í því að yfirumsjón með samþættingu og uppbyggingu líknar- og lífslokameðferðar á  þessum svæðum verði í höndum Sjúkrahússins á Akureyri. Lagt er til að gerður verði formlegur samningur milli sjúkrahússins og Heimahlynningar á Akureyri sem eru þungamiðja þjónustunnar og að unnin verði frekari þarfa- og kostnaðargreining fyrir líknar- og lífslokameðferð í heilbrigðisumdæmunum þremur.

Aðgengi að þjónustu jafnað

Starfshópurinn leggur áherslu á að með samstarfi stofnana, teymisvinnu heilbrigðisstarfsfólks og með því að nota tækni á sviði fjarheilbrigðisþjónustu megi tryggja íbúum svæðisins almenna og sérhæfða líknar- og lífslokameðferð. Tekið er fram í skýrslunni að starfshópurinn líti á tillögur sínar sem lið í því að jafna aðgengi almennings að almennri og sérhæfðri heilbrigðisþjónustu óháð búsetu í samræmi við stefnu stjórnvalda.

 

Ritstjórn mars 14, 2018 13:56