Líknarmeðferð og dánaraðstoð – alls ekki það sama

Einhver brögð virðast vera að því að fólk rugli saman dánaraðstoð og líknarmeðferð. Á þessu tvennu er mikill munur. Dánaraðstoð felst í því að einstaklingur velur og ákveður eigin andlátsstund og er aðstoðaður við að kveðja þessa jarðvist. Líknarmeðferð kemur í kjölfar þess að fólk greinist með lífsógnandi sjúkdóma og snýst um að gera viðkomandi þann tíma sem hann eftir ólifaðann eins léttbæran og unnt er.

Lífslíkur karla á Íslandi voru árið 2015 81 ár og kvenna 83,6 ár. Þetta er aukning um sex ár frá árinu 1988 í tilfelli karla og samsvarandi tala hvað konur varðar er fjögur ár. Algengustu dánarorsakir eldra fólks hér á landi eru: krabbamein, hjartasjúkdómar og langvinnir lungnasjúkdómar. Allir þessir sjúkdómar valda verkjum og miklum óþægindum. Líknarmeðferð er sniðin að þörfum hvers einstaklings og tilgangur hennar er ævinlega að mæta þörfum og bæta lífsgæði þessara sjúklinga.

Undanfarin ár hefur sú stefna verið ríkjandi á alþjóðavísu að efla líknarmeðferð strax frá sjúkdómsgreiningu. Það er breyting frá því er áður var en þá var líknarmeðferð eingöngu hafin þegar ljóst var að lífslok væru yfirvofandi. Meðan á líknarmeðferð stendur er veitt þverfagleg þjónusta og fjölskyldan jafnt og sjúklingurinn fá notið hennar. Reynt er að hafa sjúklinginn og hans nánustu með í ráðum eins og hægt er og ævinlega talað við þá ef fyrirhugaðar eru einhverjar breytingar á meðferð.

Leiðbeiningar um meðferð við lok lífs eru í gildi á Landspítala og hafa verið endurskoðuð reglulega, síðast árið 2017. Þá var tekið 2017 mið af alþjóðlegum leiðbeiningum og skilgreind þrjú meðferðarstig frá greiningu sjúkdóms tl lífslokameðferðar. Heilbrigðisstarfsfólki ber að hafa þessar leiðbeiningar til hliðsjónar í starfi sínu en eins og fram hefur komið tekur meðferðin ævinlega mið af einstaklingnum og hans sértæku aðstæðum. Leiðbeiningar um líknarmeðferð verða aðgengilegar á vef Landspítala.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn febrúar 27, 2024 07:00